Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 16:18:02 (3863)

2003-02-13 16:18:02# 128. lþ. 79.10 fundur 228. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[16:18]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um stefnu Íslands í alþjóðasamskiptum. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs; hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson, Jón Bjarnason, Kolbrún Halldórsdóttir, Þuríður Backman og Ögmundur Jónasson.

Tillögugreinin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að hagsmuna Íslands verði best gætt með því að landið varðveiti sjálfstæði sitt og fullveldi og standi utan ríkjasambanda en hafi við þau sem besta samvinnu með sérsamningum án aðildar. Þannig verði sjálfstæð og óháð staða landsins nýtt til að treysta samskiptin við ríki, bandalög og markaði beggja vegna Atlantshafsins og við aðra heimshluta. Sérstök áhersla verði lögð á þátttöku í vestnorrænu og norrænu samstarfi og aðra svæðisbundna samvinnu í okkar heimshluta, þátttöku í starfi Sameinuðu þjóðanna, starfi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu og starfi Evrópuráðsins.

Vegna EES-samningsins og annarra framtíðarsamskipta við Evrópusambandið verði af Íslands hálfu leitast við að þróa þau í átt til tvíhliða samninga um viðskipti og samvinnu.

Alþingi ályktar að kjósa nefnd skipaða fulltrúum allra þingflokka til að vinna með ríkisstjórninni að nánari útfærslu slíkrar stefnumótunar.``

Tillaga þessi, herra forseti, hefur verið flutt á þremur síðustu þingum en aldrei orðið útrædd. Hún er nú endurflutt nær óbreytt frá síðasta þingi. Henni fylgir lítillega breytt greinargerð en tillagan hefur áður tekið nokkrum breytingum frá því að hún var fyrst flutt, eins og eðlilegt má telja.

Efni tillögunnar gengur út á það, herra forseti, að leitast verði við að móta ákveðinn og almennan ramma um þessi utanríkissamskipti Íslands, þ.e. á hinu pólitíska sviði, og á hvað sé lögð sérstök áhersla í þeim efnum. Það er okkar skoðun að við eigum að hafa þann útganspunkt í því sambandi að horfa fyrst til okkar hefðbundnu vestnorrænu og norrænu samvinnu sem hefur verið hornsteinn í utanríkismálum okkar og alþjóðasamvinnu okkar. Næst ber að skoða aðra svæðisbunda samvinnu í okkar heimshluta. Þar má t.d. nefna þátttöku í heimskautaráðinu sem enginn vafi er á að Ísland þarf að leggja mikla rækt við. Þar hefur orðið ánægjuleg þróun og mikil uppbygging í gangi. Ísland fer sem stendur með formennsku í heimskautaráðinu og hér hafa byggst upp stofnanir sem hluti af þátttöku okkar á því sviði. Hér eru einar tvær samstarfsstofnanir eða samstarfsverkefni innan vébanda heimskautasamvinnunnar staðsett á Íslandi, nánar tiltekið á Akureyri. Stofnun Vilhjálms Stefánsson í tengslum við Háskólann á Akureyri sinnir veigamiklu hlutverki í okkar þátttöku í heimskautasamvinnu.

Þátttaka í starfi Sameinuðu þjóðanna á sömuleiðis tvímælalaust að vera einn af traustustu hornsteinum alþjóðasamstarfs okkar. Þegar hefur verið tekin ákvörðun um að Ísland sækist eftir sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna á árunum 2009--2010, ef ég man rétt. Þar af leiðandi þarf að efla þátttöku okkar á þeim vettvangi og undirbúa okkur fyrir það ábyrgðarmikla hlutverk. Þar mun Ísland bjóða sig fram sem sameiginlegur fulltrúi Norðurlandanna og verður auðvitað sögulegt ef það framboð gengur eftir og við náum okkar takmarki, að fulltrúi Íslands setjist í fyrsta skipti sögunnar í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna.

Starf Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu er sömuleiðis gríðarlega mikilvægt og starf Evrópuráðsins. Þessar tvær stofnanir eru heildarstofnanir þar sem öll Evrópuríki koma saman að borðinu. Á slíka lýðræðislega og friðsamlega alþjóðasamvinnu viljum við leggja áherslu.

Þarna er sömuleiðis hvatt til að reynt verði að móta einhverjar línur á næstunni um tilhögun framtíðarsamskipta okkar við Evópusambandið. Nú er auðvitað ljóst, herra forseti, að um það mál eru býsna skiptar skoðanir. En við viljum gera grein fyrir því af okkar hálfu hvernig við sæjum fyrir okkur að menn vildu láta þá samvinnu þróast að svo miklu leyti sem hún hlýtur að taka breytingum frá þeim grundvelli sem byggt er á í dag, þ.e. tveggja stoða kerfis Evrópska efnahagssvæðisins.

Nú vill svo til, sem tengist einnig síðasta málslið tillögugreinarinnar um nefndarskipan af hálfu Alþingis til að vinna með stjórnvöldum að útfærslu slíkrar stefnumótunar, að hæstv. forsrh. hefur skrifað formönnum stjórnmálaflokka bréf og óskað eftir tilnefningum eða samstarfi um skipan sérstakrar nefndar sem yrði umræðu-, samskipta- og samráðsvettvangur stjórnmálalífsins um Evrópumál. Það upplýsist hér að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur sem stjórnmálaflokkur tekið vel í þá málaleitan og er fyrir sitt leyti tilbúin að skipa fulltrúa í slíkt nefndarstarf. Það má því segja að slík nefnd væri þá að hluta til með þau verkefni sem hugsunin var að nefndarskipan ætti að uppfylla samkvæmt þessari tillögu.

Herra forseti. Í sjálfu sér er ekki ástæða til að fara mikið fleiri orðum um þetta mál. Það er bjargföst skoðun okkar, þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, að í sjálfstæði og fullveldi þjóðarinnar séu fólgin mikil verðmæti, það hafi gefist okkur vel að standa á eigin fótum og axla ábyrgð á eigin örlögum í gegnum fullt sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétt. Við höfum náð að taka mikilvægar ákvarðanir við gæslu eigin hagsmuna gegnum sjálfstæði okkar. Á grundvelli þess færðum við út landhelgi og á grundvelli þess höfum við samið við önnur ríki um úrlausn deilumála, t.d. á sviði sjávarútvegs þar sem deilur hafa staðið um skiptingu afraksturs sameiginlegra auðlinda. Á grundvelli sjálfstæðis síns og fullveldis hefur Ísland sem sjálfstæður þátttakandi í ýmiss konar alþjóðasamvinnu stundum náð að setja sitt mark á þróun mála.

Það er óumdeilt að Ísland hefur haft þó nokkur áhrif á mótun hafréttarins í heiminum gegnum þátttöku sína, fyrst á hafréttarráðstefnunni þegar hafréttarsamningurinn var undirbúinn og gerður og seinna á úthafsveiðiráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem leiddi til úthafsveiðisamningsins sem að formi til er viðauki við hafréttarsamninginn. Einnig hefur Ísland oft verið í fararbroddi ríkja sem barist hafa gegn mengun sjávar og fleira mætti nefna í þeim dúr.

Í allítarlegri greinargerð með þessari tillögu er farið yfir sviðið í sambandi við alþjóðasamskipti og alþjóðaviðskipti. Það er rætt um tengsl Íslands og Evrópusambandsins, færð fram rök bæði með og á móti því að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu. Niðurstaðan er sem sagt sú, eins og ég hef þegar gert grein fyrir, að við teljum að ókostirnir mundu vega þar þyngra en kostirnir og eins og málum er háttað sé ekki skynsamleg stefna af Íslands hálfu að reikna með aðild að Evrópusambandinu.

Tillagan tekur hins vegar á fleiri þáttum másins og er af okkar hálfu innlegg í umræður um þessi mál. Burt séð frá pólitískum ágreiningi, sem sjálfsagt má segja að sé yfirleitt til staðar í einhverjum mæli og valdi því að erfitt geti verið fyrir stjórnmálaflokka á Alþingi að sameinast um einhverjar meginlínur í utanríkisstefnu eða stefnu í alþjóðasamskiptum þjóðarinnar, getur umræðan nú engu að síður varla orðið nema til góðs. Eitt er víst, þ.e. að að svo miklu leyti sem hægt væri að skýra línur og eyða óvissu um stöðu landsins og tilhögun framtíðarsamskipta þess við nágrannaríki, bandalög og blokkir, þá væri það auðvitað af hinu góða. Óvissan ein og sér er slæm og það er ekki neinu landi til framdráttar að um framgöngu þess á alþjóðavettangi geisi hatrammar innanríkispólitískar deilur. Það er engu ríki til framdráttar að stjórnsýsla, viðskiptalíf og stjórnmálalíf sé í mikilli óvissu, þ.e. hvernig hlutunum verði fyrir komið dag frá degi eða mánuð frá mánðuði, ári til árs. Því meiri festa sem er í stefnunni og þeim mun fastara land sem menn hafa undir fótum hvað varðar samskipti og viðskipti sín, þeim mun betra.

Viðhorf okkar er að að svo miklu leyti sem pólitískar aðstæður eru fyrir hendi til þess að skýra línur í þessum efnum, t.d. til nokkurra ára í senn eins og í tilviki samskipta okkar við Evrópusambandið, væri það tvímælalaust af hinu góða og skynsamlegt. Því ber sérstaklega að fagna í því samhengi að nú bendir allt til að til starfa taki á nýjan leik stjórnskipuð nefnd með fulltrúum allra flokka til að ræða um fyrirkomulag samskipta okkar við önnur Evrópuríki.

Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég svo til að tillögunni verði vísað til síðari umr. og hv. utanrmn.