Kjarasamningar opinberra starfsmanna

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 16:29:05 (3864)

2003-02-13 16:29:05# 128. lþ. 79.11 fundur 298. mál: #A kjarasamningar opinberra starfsmanna# (aðild að stéttarfélagi) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[16:29]

Ögmundur Jónasson (frh.):

Herra forseti. Þetta mál kom til umræðu hér í þingsölum fyrir fáeinum dögum. Ég var þá beðinn um að gera hlé á mínu máli eftir að ég hafði farið nokkrum orðum um frv. Nú skal ræðu minni fram haldið þótt ég verði að játa að ég muni ekki vel hvar ég var staddur. En þetta frv. fjallar um breytingu á lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Frumvarpið sjálft er mjög stutt. Það er gert ráð fyrir að 2. mgr. 7. gr. laganna verði felld brott, og í öðru lagi að lögin öðlist þegar í stað gildi.

Sú lagaklásúla sem tillaga er gerð um að fella niður er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Starfsmaður, sem lög þessi taka til og eigi er innan stéttarfélags samkvæmt lögum þessum, greiði til þess stéttarfélags, sem hann ætti að tilheyra, gjald jafnt því sem honum bæri að greiða væri hann í því, enda fari um laun hans og önnur starfskjör samkvæmt samningum þess samkvæmt nánari ákvörðun fjármálaráðherra eða sveitarstjórnar. Þá ákvörðun skal tilkynna viðkomandi sveitarfélagi.``

[16:30]

Síðan segir í greinargerð hv. flm., Péturs H. Blöndals, með leyfi forseta:

,,Málsgreinin sem lagt er til að felld verði brott á rætur sínar að rekja til laga nr. 29/1976, um kjarasamninga Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, og laga nr. 62/1985, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.``

Síðan heldur áfram, með leyfi forseta:

,,Þetta er í raun dulbúin skylda til aðildar að stéttarfélagi. Það væri mjög óskynsamlegt fyrir starfsmann að njóta ekki allrar þjónustu stéttarfélags með því að gerast félagi, þótt honum væri það þvert um geð, þar sem hann er búinn að greiða fyrir hana. Má þar nefna orlofsheimili sem dæmi.``

Síðan heldur hv. flm. Pétur H. Blöndal áfram og segir að þetta stríði að sínu mati gegn ákvæðum stjórnarskrár Íslands um félagafrelsi m.a. Sú lagagrein sem ég las upp er með allknúsuðum texta en hún segir að kjósi einstaklingur að standa utan stéttarfélags þá skuli hann engu að síður greiða stéttarfélagsgjald til þess félags sem kjör hans grundvallast á, sem hefur gert kjarasamninga, og hann tekur laun og þiggur kjör samkvæmt. (PHB: Ef hann er opinber starfsmaður.) Ef hann er opinber starfsmaður, þetta fjallar um kjarasamning opinberra starfsmanna. Reyndar er rétt að fram komi að nú fer fram endurskoðun á þessum lagabálkum öllum sem snerta opinbera starfsmenn og er verið að skoða ýmsa þætti í þeim efnum. En ég vil lýsa því yfir og ítreka þá skoðun mína að ég er þessu algerlega andvígur og ætla að færa rök fyrir því og er þar ekki einn á báti því að eftir því sem ég kemst næst og fram kemur í grg. með frv. eru allir þeir sem leitað var til andvígir frv. Það eru reyndar hagsmunaaðilar allt saman, Læknafélag Íslands, BSRB, Bandalag háskólamanna, Landssamband lögreglumanna og Starfsmannafélag Reykjavíkur lýsir andstöðu við frv. og vísar til umsagnar BSRB og Alþýðusamband Íslands mælir einnig gegn frv.

Ástæðan fyrir því að ég er andvígur frv. er fyrst og fremst þessi: Jafnvel þótt við gæfum okkur það --- og ég ætla ekki að gefa mér annað en það vaki fyrir hv. þm. að stuðla að félagafrelsi í landinu --- þá er hætt við því að sá ásetningur snúist upp í andstæðu sína þegar á reynir. Hv. þm. vill tryggja eins og fram kemur í frv. að hver og einn geti valið um það í hvaða félag hann gengur og það eigi einnig við um stéttarfélög á vinnumarkaðnum. Það eigi að vera honum í sjálfsvald sett hvað hann gerir. (PHB: Að sjálfsögðu.) Að sjálfsögðu, segir hv. þm. Reyndin hefur hins vegar orðið sú að þar sem lagabreytingar hafa verið gerðar í þessa veru og misjafnt hvað ríki hafa gengið langt í því efni, þá hefur þetta snúist upp í rétt atvinnurekandans til þess að útiloka launamenn frá stéttarfélögunum Þetta hefur verið sérstaklega slæmt á atvinnuleysistímum og margar fréttir um það t.d. í Bretlandi þegar atvinnurekendur á slíkum tímum þegar atvinnuleysi var mikið sögðu við fólk sem var í vinnuleit: ,,Jú, við skulum ráða þig í vinnu en með einu skilyrði: Að þú standir utan stéttarfélaga.`` Þannig voru stéttarfélögin í Bretlandi smám saman brotin niður eða veikt stórlega. Þau eru ekki svipur hjá sjón nú samanborið við reyndina fyrir einum áratug eða svo, að ekki sé minnst á ef farið er lengra aftur í tímann.

Það var ásetningur hjá Thatcher-stjórninni á sínum tíma að brjóta niður stéttarfélögin, að veikja grundvöll þeirra. Það var m.a. gert með lagabreytingum af þessu tagi. Ég hélt sannast sagna að víðtæk samstaða væri að myndast að nýju í þjóðfélaginu um að viðurkenna stéttarfélögin sem mikilvægan póst í lýðræðissamfélaginu. Ef við ætlum að gera það á annað borð og ef við viljum styrkja stéttarfélögin, þá samþykkjum við náttúrlega ekki frv. eins og þetta sem er beinlínis sniðið til þess --- eða verður til þess öllu heldur að veikja grundvöll stéttarfélaganna. Ástæðan er sú að jafnvel góður ásetningur um að tryggja félagafrelsi snýst upp í einhliða rétt atvinnurekandans til að stilla mönnum upp við vegg. Það er ekkert sagt út í loftið vegna þess að reynslan erlendis frá sýnir þetta. Verst var þetta í Bretlandi og við vitum hvernig ástandið er í Bandaríkjunum þar sem stórir vinnustaðir eru ekki með nein stéttarfélög, það eru engin stéttarfélög sem semja fyrir hönd starfsfólksins og öll kjör fólksins eru eftir því. Er það þetta sem við erum að sækjast eftir?

Mér þætti vænt um að heyra frá hv. þm. Pétri H. Blöndal hvort hann telji ekki sannleikskorn í því sem ég er að segja og hvort það sé draumsýn hans að stéttarfélögunum verði hreinlega vikið til hliðar. Við búum í markaðsþjóðfélagi þar sem þeir sem hafa peningana á hendi eða völdin í fyrirtækjunum hafa í rauninni öll ráð yfir þeim sem þar starfa. Stéttarfélögin hafa verið eins konar mótvægi á vinnustaðnum og í þjóðfélaginu almennt gegn atvinnurekendavaldinu og gegn valdi fjármagnsins. Ég held að það sé eftirsóknarvert jafnvægi að koma í veg fyrir að atvinnurekendur og fjármagn geti farið sínu fram hvort sem er á vinnustaðnum eða í þjóðfélaginu almennt. Ég tel að lagafrv. af þessu tagi verði til þess að veikja stéttarfélögin og draga úr mætti þeirra í þjóðfélaginu.