Sýslur

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 16:55:59 (3873)

2003-02-13 16:55:59# 128. lþ. 79.6 fundur 214. mál: #A sýslur# þál., Flm. ÞBack (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[16:55]

Flm. (Þuríður Backman):

Herra forseti. Ég flyt þáltill. um sýslur. Flm. auk mín er hv. þm. Jón Bjarnason. Tillagan hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að skipa nefnd sem hafi það verkefni að fjalla um stöðu sýslna í íslenskri löggjöf, landfræðileg mörk þeirra og hvort festa skuli þau í sessi með löggjöf. Að starfi nefndarinnar loknu leggi ráðherra málið fyrir Alþingi til upplýsinga og ákvörðunar um framtíðarstöðu sýslna.``

Greinargerð með þessari þáltill. er svohljóðandi:

Tillaga þessi var flutt á 123. löggjafarþingi 1999 af Hjörleifi Guttormssyni en þá náðist ekki að mæla fyrir henni. Tillagan var endurflutt á 126. löggjafarþingi af sömu flutningsmönnum og endurflytja hana nú. Þau fylgiskjöl sem fylgdu tillögunni þegar hún var fyrst flutt fylgja hér einnig með. Það eru þó nokkur fylgiskjöl og ítarefni, og mun ég gera grein fyrir þeim að hluta.

Eftir breytingu á sveitarstjórnarlögum 1986 (lög nr. 8/1986) og aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði með lögum nr. 92/1989 heyra sýslur í íslenskri stjórnsýslu að mestu eða öllu leyti sögunni til. Orðið sýslumaður vísar ekki lengur til landfræðilegs umdæmis og fylgja stjórnsýsluumdæmi þeirra nú ekki þeim mörkum sem áður voru hefðbundin sýslumörk heldur miðast við mörk og heiti sveitarfélaga. Um þetta vísast til skriflegs svars dómsmálaráðherra við fyrirspurn um sýslur á 122. löggjafarþingi, 668. máli, sem birt er sem fylgiskjal I með tillögunni. Stjórnskipuleg staða einstakra sýslna er þar sögð mismunandi eftir því hvort mörk þeirra falla saman við mörk stjórnsýsluumdæmis einstaks sýslumanns.

Almenningur er almennt ekki meðvitaður um þessar breytingar á stöðu sýslna og jafnvel embættismenn og stjórnmálamenn velkjast í vafa um stöðu þeirra. Um það vísast meðal annars til fyrrgreinds svars ráðherra á Alþingi og til auglýsinga ráðuneyta, samanber meðfylgjandi frásögn úr Morgunblaðinu 9. maí 1996 í fylgiskjali II. Skýrt dæmi um þetta er að finna í nýlegum bæklingi, Um hálendi Íslands -- fjársjóður þjóðarinnar, gefnum út af ríkisstjórn Íslands. Þar er birtur uppdráttur af Íslandi sem í texta er sagður sýna sýslumörk en í skýringum kemur fram að um er að ræða umdæmamörk sýslumanna.

Í máli almennings, handbókum og kennsluefni fyrir skóla og víðar lifa sýslur áfram góðu lífi. Þá er í lögum enn vísað til sýslna í nokkrum tilvikum. Sýslumörk eru hins vegar farin á flot í meðförum manna, eins og að framan greinir, þar eð ruglað er saman umdæmum sýslumanna og sýslum sem landfræðilegum einingum. Að mati flutningsmanna er full ástæða til að varpa ljósi á þetta samhengi og að Alþingi taki síðan afstöðu til stöðu sýslna framvegis. Þetta er bæði menningarsögulegt og hagnýtt viðfangsefni. Það sýnir sig að þörf er á stærri landfræðilegum einingum að vísa til en sveitarfélögum. Þótt þau fari stækkandi með sameiningu getur orðið bið á að þau fylli út í sýslurnar í landfræðilegum skilningi og með öllu óvíst að mörk yrðu hin sömu. Allt eru þetta rök fyrir því að rýna þurfi í málið af vísum mönnum.

Um tilurð og þróun sýslna hérlendis má meðal annars vísa í fróðlega ritgerð Axels Kristinssonar, Embættismenn konungs fyrir 1400 (Saga XXXVI (1998), bls. 113--152), þar sem nefndar eru ýmsar heimildir. Í ritgerð þessari segir m.a. (bls. 121--122):

,,Á síðari tímum hafa sýslur verið fastar landfræðilegar einingar með ákveðin nöfn. Þannig var það ekki á miðöldum. Sýsla merkti þá það svæði sem embættismaður hafði til yfirsóknar. Áherslan var á embættismanninn en ekki landsvæðið. Sýsluheitið var heldur ekki einskorðað við veraldlega valdsmenn því oft var talað um sýslur biskupa framan af. Sýsla var embætti valdsmannsins og það svæði sem hann stjórnaði, hversu stórt eða lítið sem það var. Flest bendir til að stærð sýslna og mörk þeirra hafi verið mjög á reiki og farið mest eftir því samkomulagi sem hver sýslumaður náði við konung eða hirðstjóra.

Landshættir hafa þó oft sett sýslum eðlileg mörk sem gátu haldist þótt nýir sýslumenn kæmu til. Einnig hafði þinga- og fjórðungaskipanin áhrif á sýsluskiptinguna og smám saman mynduðust hefðir um það hvar sýslumörk skyldu vera. Það er þó ekki fyrr en eftir lok miðalda að sýslurnar verða að föstum landfræðilegum einingum. Þetta sést vel á því að sýslunöfn þau sem við þekkjum koma ekki til sögunnar fyrr en á 16. öld, þau elstu eru frá fyrri hluta aldarinnar en flest birtast ekki í heimildum fyrr en um miðja öldina þegar konungsvald var mjög að eflast og má þannig setja þau í samband við skilvirkara stjórnkerfi konungs á þeim tíma.``

Eðlilegt þykir að forsætisráðherra skipi þá nefnd sem tillagan gerir ráð fyrir þar eð málið er ekki sérstaklega á borði dómsmálaráðherra og varðar stjórnsýslu og menningarsögu í víðu samhengi. Vonandi verður tillagan til þess að óvissu um mörk og stöðu sýslna verði eytt og staða þeirra verði lýðum ljós.

Það skal tekið fram vegna svars dómsmálaráðherra við fyrirspurn Hjörleifs Guttormssonar um sýslur, samanber fylgiskjal I með máli þessu, að skv. 2. gr. núgildandi laga um framkvæmdarvald ríkisins í héraði, nr. 92/1989, skiptist landið í 25 stjórnsýsluumdæmi auk Reykjavíkurumdæmis, sem nær yfir Reykjavíkurborg, samanber einnig reglugerð nr. 102/2001, um breyting á reglugerð um stjórnsýsluumdæmi sýslumanna, nr. 57/1992. Þá skal jafnframt tekið fram að nöfn á sýslum og sýslumörk er ekki lengur að finna í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, né lögum um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, nú lög um framkvæmdarvald ríkisins í héraði, nr. 92/1989.

[17:00]

Herra forseti. Hér er birt með þingsályktunartillögunni svar dómsmrh. við fyrirspurn Hjörleifs Guttormssonar um sýslur. Ég ætla að leyfa mér að grípa hér aðeins niður í fyrsta fylgiskjalið. Þá er spurningin þessi:

,,Hver er stjórnskipuleg staða sýslna samkvæmt gildandi lögum?

Orðið sýslumaður í 10. gr. laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, nr. 92/ 1989, vísar ekki til landfræðilegs umdæmis heldur til þeirra athafna sem sýslumaður hefur með höndum. Sýslumenn fara hver í sínu umdæmi með stjórnsýslu ríkisins eftir því sem lög og reglugerðir kveða á um. Skv. 11. gr. i.f. laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði skiptist landið í 26 stjórnsýsluumdæmi auk Reykjavíkurumdæmis og mörk umdæma sýslumanna eru ákveðin með reglugerð, sbr. reglugerð nr. 57/1992, um stjórnsýsluumdæmi sýslumanna, sbr. og reglugerðir nr. 500/1996 og 74/1998. Mörk og heiti sveitarfélaga eru þar notuð til að skilgreina stjórnsýsluumdæmi sýslumanna. Stjórnskipuleg staða einstakra sýslna er því mismunandi eftir því hvort mörk þeirra falla saman við mörk stjórnsýsluumdæmis einstaks sýslumanns.``

Herra forseti. Ég er búsett austur á Egilsstöðum og sýslumaðurinn er staðsettur á Seyðisfirði með útibú á Egilsstöðum. En enn tölum við um Norður- og Suður-Múlasýslu og flestir eru vel meðvitaðir um hvaða svæði þau gömlu sýslumörk náðu yfir. Enn er þetta nokkuð á reiki, þ.e. hvað varðar starfssvæði sýslumanna og gömlu sýslumörkin. Þetta fer ekki saman.

En ég ætla að nefna nokkur lög í lagasafni okkar þar sem sýslur eru enn nefndar. Þessi lög ná aftur til Jónsbókar eða ársins 1281.

Sýslur eru nefndar í lögum um verkfall opinberra starfsmanna, lögum um einkaleyfi handa Háskóla Íslands til útgáfu almanaks, vatnalögum, lögum um samgöngubætur og fyrirhleðslur á vatnasvæði Þverár og Markarfljóts, í jarðalögum, lögum um tekjuskatt og eignarskatt, um afréttarmálefni, fjallskil o.fl., lögum um jarðasjóð og búnaðarlögum. Hugsanlega er hægt að finna sýslur nefndar í fleiri lögum en þetta kemur upp ef maður slær inn orðið sýslur. Þá koma öll þessi lagaheiti upp.

Það er full ástæða til að skoða þetta og gera þetta skýrara. Þetta er eitt af mörgum málum sem okkur hættir til að leggja til hliðar. Það skiptir okkur kannski ekki meginmáli á líðandi stundu, sem sjá má af því að málið var fyrst flutt 1999 og fékkst þá ekki afgreitt og eins á 126. löggjafarþingi en fékkst ekki afgreitt þá heldur. Hjörleifur Guttormsson náði á sínum tíma ekki að tala fyrir þessari þáltill.

Þetta er mál sem gott væri að setja nefnd í, koma til hæstv. forsrh. til skoðunar og gefa sér tíma til að skoða málið vel.