ESA og samningar við Alcoa

Mánudaginn 17. febrúar 2003, kl. 15:06:28 (3879)

2003-02-17 15:06:28# 128. lþ. 80.91 fundur 434#B ESA og samningar við Alcoa# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 128. lþ.

[15:06]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég tek undir að ástæða er til þess að fara fram á það hér að öll gögn sem lúta að þessum þætti málsins liggi opin fyrir Alþingi. Það geta varla verið nein ríkisleyndarmál sem fjalla um það hvað hæstv. ríkisstjórn lítur á sem opinberan stuðning við þetta verkefni, beinan og óbeinan. Hversu umfangsmikill er hann og til hvaða þátta tekur hann? Hvað er þar talið með í reikninginn og gæti átt eftir að bætast við þann lista ef betur er að gáð? Hvað með t.d. rekstraröryggi þessa fyrirtækis, ef reist verður og háð orku frá þessari einu virkjun, varaafl og annað í þeim dúr, hugsanlega línulagnir og fleira sem þessu gæti tengst, verður það allt samviskusamlega fram talið og tíundað? Ég held, herra forseti, að það sé ástæða til að fara fram á það að þessi gögn verði látin fylgja með greinargerð eða nefndarálitum þingnefnda til þingmanna þannig að þetta liggi fyrir og opið uppi á borðum. Það væri ákaflega fróðlegt að sjá t.d. upplýsingar ríkisstjórnarinnar til ESA um það hvað ríkið telji beina aðstoð og það er út af fyrir sig fróðlegt að heyra það viðurkennt hér, sem hefur verið hálfgert feimnismál, að um beinan ríkisstuðning sé að ræða í formi auðvitað margs konar framlaga á undirbúningsstigi, í formi ábyrgðar, beinnar ríkisábyrgðar og eigendaábyrgðar ríkisins, í formi ókeypis mengunarlosunarkvóta og fleiri slíkra hluta. Það kann líka að vera svo, herra forseti, að umhverfið hafi að þessu leyti breyst frá því að hin miklu minni framkvæmd var á döfinni á Grundartanga þar sem að mörgu leyti voru alls ekki sambærilegir hlutir á ferð og t.d. engin niðurstaða komin þá í sambandi við Kyoto og mengunarkvóta.

Sömuleiðis væri fróðlegt að sjá viðbótargögn hæstv. ríkisstjórnar því að eitthvað hefur erindið verið illa útbúið úr því að ESA sá sig knúið til að biðja um frekari gögn.