Skráning skipa

Mánudaginn 17. febrúar 2003, kl. 15:49:27 (3884)

2003-02-17 15:49:27# 128. lþ. 80.17 fundur 157. mál: #A skráning skipa# (þurrleiguskráning fiskiskipa) frv. 10/2003, samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 128. lþ.

[15:49]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni fyrir þá ræðu sem hann flutti og þau varnaðarorð sem hann hefur haft uppi vegna efnis þessa frv. því að vissulega þurfum við að gæta mjög ríkulega að hagsmunum okkar Íslendinga þegar fjallað er um veiðar, nýtingu stofna og sókn skipa okkar á önnur mið. Það er afar mikilvægt og þess vegna tel ég í fyllsta máta eðlilegt að þingmenn sem hafa svo ríka reynslu og þekkingu á þessum sviðum fari rækilega yfir þessi mál og þau ákvæði sem í frv. felast.

Hv. samgn. hefur farið mjög vandlega yfir þetta mál og kallað eftir umsögnum og viðbrögðum. Vitað er að sjómannasamtökin hafa haft uppi efasemdir. En það er mat mitt og ríkisstjórnarinnar að afar mikilvægt sé að skapa þau skilyrði sem frv. felur í sér um tvískráningu fiskiskipa í þeim tilgangi að auðvelda útgerðarmönnum að nýta skipin og beita sókn þeirra á mið utan efnahagslögsögu okkar, þ.e. innan lögsögu annarra ríkja. Það er þekkt og við vitum að eins og þessu fyrirkomulagi er háttað í dag eru skip seld og þeim er beitt innan lögsögu annarra ríkja í þeim tilgangi að nýta þau. En þá standa menn frammi fyrir þeim vanda að þurfa að selja skipin úr landi og búa þannig um hnúta. Oft og tíðum er það mjög miklum erfiðleikum háð og felur í sér mikinn kostnað.

Þá kemur að þessu sem hv. þm. var að spyrjast fyrir um, þ.e.: Hvernig á að tryggja þetta, að hagsmunum okkar sé til haga haldið?

Þetta kemur mjög glöggt fram í 1. gr. frv. því áður en Siglingastofnun Íslands veitir heimild til þurrleiguskráningar skips skv. 1. mgr. skal liggja fyrir staðfesting sjútvrn. Það er skilgreint síðan nánar í 1. gr. Ég vitna ekki nánar í hana. En þar er fjallað nákvæmlega og mjög rækilega um þau skilyrði sem þarf að uppfylla áður en þurrleiguskráningin er veitt.

Hv. þm. spurði í fyrsta lagi um það hvað fæli í sér þessa hagkvæmni og hvaða dæmi væru um það. Hagkvæmnin felst fyrst og fremst í því, að mínu mati, að viðkomandi útgerð hefur yfirráð yfir skipi sínu og þarf ekki að eiga undir öðrum með það og getur skráð skipið undir öðrum þjóðfána. Samkvæmt upplýsingum okkar og því sem fram kemur í grg. með frv. og þeirri skýrslu sem frv. var byggt á, sem unnin var á vegum samgrn., sjútvrn. og utanrrn., eru þarna býsna miklir hagsmunir á ferðinni, beinir og óbeinir, heilmiklir hagsmunir fyrir útgerðina.

Þegar um er að ræða að beinir og óbeinir hagsmunir felast í því fyrir útgerðina að geta haldið skipum úti gefur það að sjálfsögðu augaleið að það auðveldar útgerðinni að standa betur að málum gagnvart starfsmönnum sínum, sjómönnunum. Þar af leiðandi er alveg ljóst að þarna fara saman hagsmunir því þetta skapar störf og möguleika á því að sjómenn geti fengið verkefni á þeim skipum sem sækja inn í efnahagslögsögu annarra ríkja. Það eru fyrst og fremst þessir hagsmunir sem eru þarna á ferðinni, þ.e. að auðvelda útgerðunum að standa að því að gera skipin út eins og þetta frv. og ákvæði þess fela í sér.

Hv. þm. óskar eftir sérstökum dæmum um þetta. Ég get út af fyrir sig því miður ekki tilgreint einstök dæmi um þessa auknu hagkvæmni. Ég lít fyrst og fremst á þetta sem heildarhagsmunamálefni, þ.e. að þessi heimild styrkir stöðu útgerðanna til að standa að veiðum í lögsögu annarra ríkja. Ég tel að að öðru leyti komi þetta mjög ræklega fram og hafi komið fram í viðræðum í samgn. þannig að það ætti að liggja nokkuð vel fyrir.

Spurt var hvort við getum ekki sótt réttindi með samningum og það nefnt að veiðireynsla í Norður-Atlantshafinu sem aflað er undir fána erlendra þjóða nýtist ekki þeim þjóðum. Það fer að sjálfsögðu eftir þeim reglum sem í gildi eru. Það liggur alveg ljóst fyrir. Grundvallaratriðið í þessu er, og það er svar mitt, að til þess að við getum veitt heimild til þurrleiguskráningarinnar þarf sjútvrh. að fjalla um það mál og meta þessa hagsmuni og að sjálfsögðu eru þeir metnir þá ríkari þegar um er að ræða heildarhagsmuni þjóðarinnar og heildarhagsmuni sjávarútvegsins fremur en að blint og eingöngu sé litið á hagsmuni einstakra útgerða. Ég tel að við verðum að fara afskaplega varlega þarna og gæta þess að heimila ekki tvískráningu ef nokkur vafi leikur á því að við séum að glata einhverjum hagsmunum sem tengjast veiðireynslu. Þetta er svar mitt við því. Sjútvrh. á samkvæmt frv. og verður að sjálfsögðu að meta þetta.

Hv. þm. spurði hvort nokkrar líkur séu á því að sjómenn hafi einhvern ávinning af þessu vegna þess að ekki sé í annað að sækja en mjög lágt launuð störf. Ég ætla ekki að gefa neinar yfirlýsingar um það. Við vitum að kjaramál sjómanna eru víða í öðru fari en við viljum. Við hvetjum Íslendinga að sjálfsögðu til þess að sjómenn hjá öðrum ríkjum hafi réttindi á borð við þau sem við veitum þeim á Íslandi. Ég held að það sé hins vegar alveg ljóst að þessi tvískráningarmöguleiki gefur útvegsmönnum möguleika á að skapa störf og að sjálfsögðu verðum við að gera ráð fyrir því að sjómenn gangi ekki í önnur störf en þau sem þeir eru sæmilega sáttir við í miðað við þau laun sem í boði eru. Við getum að sjálfsögðu ekki ákveðið það hér með löggjöf.

Herra forseti. Að lokum vil ég ítreka að ég tel að það komi skýrt fram í frv. og í greinargerðinni að við erum að leita leiða til þess að auðvelda útvegsmönnum að nýta skip sín. Það er aðalatriði þessa máls. Að sjálfsögðu þarf að tryggja hagsmuni sjómanna í þeim efnum. Ég tel að þeir fyrirvarar og þau skýru og eindregnu ákvæði sem um þetta gilda tryggi hagsmuni okkar. Yfir það er búið að fara mjög vandlega. Hv. samgn. hefur unnið vel að þessu máli og komist að þeirri niðurstöðu sem nál. meiri hlutans felur m.a. í sér. Ég vil ítreka að ég tel eðlilegt að yfir þetta sé rækilega farið. Þetta eru þau svör sem ég veiti á þessari stundu.