Skráning skipa

Mánudaginn 17. febrúar 2003, kl. 16:06:13 (3889)

2003-02-17 16:06:13# 128. lþ. 80.17 fundur 157. mál: #A skráning skipa# (þurrleiguskráning fiskiskipa) frv. 10/2003, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 128. lþ.

[16:06]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. samgrh. sagði að sér væri kunnugt um að sjómenn hefðu ákveðnar efasemdir um þetta frv. Hér er talað af mjög mikilli hógværð, reyndar svo mjög að ég leyfi mér að fullyrða að þetta orðalag gefur alranga mynd. Staðreyndin er sú að öll helstu samtök sjómanna hafa harðlega fordæmt frv. og vísa ég þar í Farmanna- og fiskimannasambandið, Vélstjórafélagið, Sjómannasamtökin, Félag smábátaeigenda og Alþýðusamband Íslands. Við þekkjum öll baráttu t.d. Sjómannafélags Reykjavíkur gegn hentifánastefnunni þannig að þetta er rangt hjá hæstv. ráðherra. Staðreyndin er sú að íslenskir sjómenn ásaka ríkisstjórnina fyrir að ganga erinda útgerðarmanna í þessu efni.

Það sem verið er að gera með þessu frv. er að auðvelda undirboð á kjörum sjómanna á heimshöfunum. Um það snýst þetta mál enda kom fram í máli fulltrúa útgerðarinnar sem komu fyrir samgn. þingsins að kjarasamningar íslenskra sjómanna leiddu til svo mikils launakostnaðar að trauðla væri rekstrargrundvöllur fyrir sókn á fjarlæg fiskimið undir íslenskum fána og íslenskum kjarasamningum. Hér kom fram hjá hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni að það væri mótsagnakennt þegar þetta kæmi fram annars vegar og hins vegar fullyrðingar eða a.m.k. getgátur um að líklegt væri að íslenskar áhafnir mundu fara á þessi fjarlægu mið. Síðan kemur hæstv. ráðherra og segir að þetta fyrirkomulag muni verða til þess að styrkja kjaralega stöðu íslenskra sjómanna. Allt er þetta ein bullandi mótsögn. Staðreyndin er sú að hér er á ferðinni frv. þar sem ríkisstjórnin gengur erinda útgerðarinnar á kostnað íslenskra sjómanna.