Skráning skipa

Mánudaginn 17. febrúar 2003, kl. 16:16:34 (3895)

2003-02-17 16:16:34# 128. lþ. 80.17 fundur 157. mál: #A skráning skipa# (þurrleiguskráning fiskiskipa) frv. 10/2003, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 128. lþ.

[16:16]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst fullmikill hroki í þessu svari. Það kunna fleiri að fiska en Íslendingar. Það eru til ágætisútgerðir í fleiri löndum en á Íslandi og ég tel að í þeim löndum geti vel verið útgerðarmenn sem gætu hugsað sér að gera út á Íslandsmiðum og þeim finnist það svolítið undarlegt ef þjóðir þeirra skrifi upp á það að flagga megi út skipum til þeirra, en að þeir megi ekki flagga út upp á Íslandsmið. Þannig held ég að menn geti alveg látið sér detta í hug að líta á málin.

Mér finnst að í þessu sé töluverður tvískinnungur af hálfu Íslendinga að ætla að fara að sækjast eftir réttindum af þessu tagi í þeirri stöðu sem menn eru og fyrir fram ákveðnir í því að gagnkvæm réttindi komi ekki til greina. Ég gæti ímyndað mér að sumum þætti það heldur harðir kostir ef þeim væri boðið upp á þau býti. Ekki er ég að leggja til að þetta frv. verði samþykkt en ég tel að verið sé að bjóða upp á umræðu um það að hleypa erlendum skipum inn í lögsöguna hér með því að samþykkja það.