Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 17. febrúar 2003, kl. 16:21:01 (3897)

2003-02-17 16:21:01# 128. lþ. 80.20 fundur 602. mál: #A stjórn fiskveiða# (meðafli) frv. 75/2003, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 128. lþ.

[16:21]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég fagna þessu frv. hæstv. ráðherra og vil segja að allar líkur eru til þess að sú breyting sem gerð var á lögunum sem hér um ræðir hafi mjög jákvæð áhrif. Hæstv. ráðherra lýsti því yfir að verulegur afli hefur komið á land vegna þessa ákvæðis og má ætla að a.m.k. hluti hans hefði aldrei komið að landi ef þetta ákvæði hefði ekki verið tekið upp.

Ég held að þetta sé kannski eitt af því skynsamlegasta sem gert hefur verið til að reyna að draga úr og koma í veg fyrir brottkast. Það eru að vísu æðimörg ár frá því að fyrst voru flutt frv. hér á Alþingi um að gera tilraun með ákvæði af þessu tagi en það bar ekki árangur fyrr en þetta var gert og ber að þakka það sem skynsamlegt og gott er gert og ég geri það hér með.

Mér fannst það hins vegar dálítið skemmtileg tilviljun að við vorum á fundi í sjútvn. á þriðjudaginn var og þá voru mættir fulltrúar frá bæði Fiskistofu og ráðuneytinu. Þar var það einmitt til umræðu að þetta ákvæði mundi renna út næsta haust og það þyrfti að bregðast hratt við ef það ætti ekki að falla úr gildi við upphaf næsta fiskveiðiárs. Ráðherrann hefur annaðhvort brugðist við svo hratt sem raun ber vitni núna eða þá að hann hefur fyrir tilviljun verið tilbúinn með frv. sitt því frv. var dreift í þinginu líklega daginn eftir. Hvort sem hefur verið þá vissu starfsmenn ráðuneytisins sem þarna voru ekki um stöðu málsins. En hvað um það, það skiptir ekki öllu máli í þessu.

Ég lýsi yfir stuðningi við frv. eins og það er lagt hér fram þó svo ég hafi allan tímann sagt að ég vildi ganga lengra en þarna er gert. En ég get vel fallist á að á þurfi að halda reynslu hvað þetta ákvæði varðar. Það hefur nú þegar komið fram að fiskeftirlitsmennirnir telja að þetta ákvæði hafi hjálpað þeim við starf sitt þar sem þeir hafi þá jákvæðari stöðu gagnvart þeim sem þeir eiga við í sambandi við brottkast, að geta bent þeim á þessa leið. Kynning á þessu ákvæði hefur raunverulega tekið töluverðan tíma. Fram hefur komið og kom fram í nefndinni að fiskeftirlitsmennirnir hafa eytt töluverðum tíma í að kynna þetta ákvæði fyrir útgerðarmönnum og sjómönnum og full ástæða er til að halda að það verði ekki minna notað, líkast til meira í framtíðinni en verið hefur fram að þessu. En það er greinilegt að ákvæðið virkar og það virkar í jákvæða átt.