Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 17. febrúar 2003, kl. 16:37:31 (3900)

2003-02-17 16:37:31# 128. lþ. 80.20 fundur 602. mál: #A stjórn fiskveiða# (meðafli) frv. 75/2003, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 128. lþ.

[16:37]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir stuðning við frv. Ég held að vangaveltur hans um það hvort hækka beri prósentuna séu réttmætar. Ég held hins vegar að við þurfum a.m.k. eitt heilt fiskveiðiár ef ekki tvö til þess að meta hvernig þetta raunverulega virkar. Miðað við það hversu góðan hljómgrunn frv. hefur fengið í þinginu og eins auðvitað upprunalega frv. á sínum tíma verður ekkert vandamál að fá prósentunni breytt þegar við erum komin með nægar upplýsingar byggðar á reynslu. Þar af leiðandi held ég að ekki þurfi sérstaka heimild til ráðherra til þess að hækka hana í lögunum.

Varðandi síðara atriðið sem hv. þm. nefndi, þ.e. meðafla í uppsjávarveiðum og hugsanlega meðafla af bolfiski með uppsjávaraflanum, þá er þetta þekkt vandamál sem ég kannast við. Auðvitað eiga sömu reglur að gilda um allar fiskveiðar. Við eigum ekki að hafa reglurnar þannig að sjómenn séu settir í erfiða stöðu vegna aðstæðna. Ég hef rætt þetta mál við fulltrúa samtaka sjómanna og útvegsmanna og mér skilst að frekar sé fátítt að þetta gerist í miklu magni, það séu frekar einstaka slys, en að öllu jöfnu sé þetta eitthvað sem hægt er að telja á fingrum sér.

Uppi hafa verið hugmyndir, herra forseti, um það hvernig megi leysa þetta með tilteknum skiljum þegar uppsjávaraflanum er dælt niður í lest. En þær athuganir eru ekki komnar lengra en svo að ég get eiginlega ekki sagt meira um það hér.