Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 17. febrúar 2003, kl. 16:42:12 (3903)

2003-02-17 16:42:12# 128. lþ. 80.20 fundur 602. mál: #A stjórn fiskveiða# (meðafli) frv. 75/2003, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 128. lþ.

[16:42]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Við fjöllum um frv. til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta frv., virðulegi forseti. Ég vil bara að það komi fram hér að við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði styðjum það. Þessi 5%-meðaflaregla sem nú hefur verið keyrð á tímabilinu frá 1. febrúar 2002 fer fram úr björtustu vonum. Komnar eru á land 800 lestir. Í peningum eru það um 70 millj. kr. þannig að ég held að allir séu sammála um að vel hafi til tekist. Framlenging í þeim dúr sem nú er lögð til í frv. er því hið besta mál.

Ég vil taka undir bollaleggingar eða spurningar hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar um hvort ekki séu efni til þess að heimila ráðherra að hækka heimildirnar. Við verðum að skoða það í nefnd. Ég held að það sé hið besta mál og umhugsunar virði.

Ég vil líka taka undir bollaleggingar hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar um síldina. Þannig vill til að ég hafði frumkvæði núna í haust að sérstökum fundi í sjútvn. um málefni síldarinnar fyrir austan. Það verður að segjast eins og er að sjómenn og skipstjórnendur segja hrollvekjandi sögur um þennan veiðiskap. Ég held að við verðum að fara gaumgæfilega ofan í það. Menn eru að tala um hundruð og jafnvel þúsundir tonna í meðafla, enda er veiðiskapurinn kannski í öðrum dúr en fyrst var lagt upp með. Þegar þessi 20 skip sem núna eru á flottrolli fyrir austan fengu leyfi til þess að nota flottroll var hugsun manna sú að þeir ættu hreinlega að dýfa trollinu ofan í flekkinn og taka upp úr síldarflekknum þar sem síldin óð ekki. Staðreyndin er samt sú að veiðiskapurinn er orðinn allt annars eðlis vegna þess að í raun er verið að trolla síldina. Menn eru að toga í fleiri klukkutíma og það gefur augaleið að ef veiðiskapurinn hefur þróast í þá áttina kemur mikill meðafli. Um það eru miklar sögur og taka verður mark á því. Margir sjómenn taka svo djúpt í árinni að segja að hér sé um hundruð eða þúsundir tonna að ræða. Þá erum við með gríðarlegt meðaflavandamál ef á að leyfa þennan veiðiskap í þessu formi áfram.

Ég vil gera töluvert úr því máli. Ég held að við verðum að skoða það í nefndinni alveg sérstaklega og í ráðuneytinu þarf náttúrlega að skoða þennan veiðiskap, þ.e. hvernig á að halda á málum þar og hvort við erum á réttri braut.

Ég hef í sjálfu sér ekki fleira um frv. að segja. Við styðjum það. Við teljum að vel hafi tekist til. Ég geri mér grein fyrir því að skoða þarf heilt ár eða e.t.v. lengra tímabil til þess að velta fyrir sér möguleikum á því að hækka heimildir. Ég held að það sé góðra gjalda vert að skoða þau mál.