Skipulag og framkvæmd löggæslu

Mánudaginn 17. febrúar 2003, kl. 17:05:12 (3908)

2003-02-17 17:05:12# 128. lþ. 80.21 fundur 195. mál: #A skipulag og framkvæmd löggæslu# þál., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 128. lþ.

[17:05]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Í þessari till. til þál. er hreyft mikilvægu og veigaþungu máli. Ég held að ekki sé ofsagt að þessi málaflokkur, þ.e. skipulag og framkvæmd löggæslu hafi á því kjörtímabili sem nú er senn á enda runnið, hafi verið eitt af þeim stóru málum sem uppi hafa verið og menn með réttu bent á tilteknar ákveðnar veilur í skipulagi löggæslu og þeirri þjónustu sem borgararnir eiga rétt á þegar kemur að vernd lögreglunnar.

Það er kannski óþarfi að rifja það upp en þó geri ég það að strax í upphafi þessa kjörtímabils fór fljótlega í þann farveg að hæstv. núv. dómsmrh. lenti strax upp á kant við löggæsluna í Reykjavík, þá af ástæðum sem lutu að kjaramálum og ýmsum réttindamálum. Það verður að segjast eins og er að allt þetta kjörtímabil hafa þau mál þróast öll á þann veginn og við erum kannski fjær sáttum um skipulag, umgjörð og styrkleika lögreglunnar nú en var í upphafi kjörtímabils.

Það er líka óþarfi að rifja það upp fyrir hv. þingmönnum að hér í þessum sal hafa menn oftar en einu sinni og oftar en tvisvar hafið umræðu og farið í gegnum umræðu um veikleika í löggæslu í Reykjavík, á höfuðborgarsvæðinu, í nágrannabyggðum, ég nefni Mosfellsbæ og Kópavog. Við getum farið víðar um land þar sem hv. þm., sem þekkja til í sinni heimabyggð, hafa bent á með dæmum hvernig löggæslu hefur hrakað á hinum ýmsu stöðum. Þessum jákvæðu ábendingum hefur hæstv. ráðherra gjarnan svarað með talsverðri stirfni og forðast það eins og heitan eldinn að fara í málefnalega og uppbyggilega umræðu um hvernig styrkja megi þennan mikilvæga þjónustuþátt í samfélagi okkar, hefur fremur viljað berja höfðinu við steininn og neita þeim staðreyndum sem við okkur blasa.

Staðreyndirnar eru auðvitað þær, herra forseti, að skipulag löggæslumála hefur þróast á þann veg eins og kunnugt er að ríkislögreglustjóri hefur frá einum tíma til annars fengið vaxandi hlutverk og stærri hluta þeirra fjárframlaga sem til staðar eru og gegnt æ stærra hlutverki í löggæslunni. Það þarf svo sem út af fyrir sig ekki endilega að vera slæm þróun ef annað og meira fylgir, nefnilega það að menn tryggi að nærlöggæslu, grenndarlöggæslu, hverfislöggæslu sé haldið til haga á sama tíma. Það hefur hins vegar ekki gerst. Þessi styrking miðstjórnarvaldsins í formi ríkislögreglustjóra hefur þýtt það að dregið hefur úr hinni almennu þjónustu á vettvangi og löggæslan hefur því miður ekki verið eins sýnileg og nauðsyn væri á. Lögreglumönnum á vettvangi, lögreglumönnum á ferðinni hefur því miður fækkað í hinni almennu þjónustu og það er öfugþróun og við því verður að bregðast.

Þess vegna er svo mikilvægt að tillaga af þeim toga sem hér er kynnt nái fram að ganga og menn fari yfir þessi mál frá a til ö og geri þær betrumbætur sem kallað er eftir. Ég held nefnilega að hægt sé að segja það með nokkurri vissu að borgarar landsins, borgarar á höfuðborgarsvæðinu þar sem margmennið er nú hvað mest, finna til ákveðins óöryggis af þessum sökum. Borgararnir finna ekki til þess öryggis sem þeir eiga rétt á, að löggæslan sé á næstu grösum og sé öflug og hafi til þess mannafla, tól og tæki til þess að sinna þeim þörfum sem eftir er kallað. Á sama hátt er löggæslan sjálf og lögreglumennirnir sjálfir ósáttir við stöðu mála, að geta ekki sinnt þeirri þjónustu sem þeir vilja og öll efni eiga að standa til.

Ég rifja upp í þessu samhengi eitt dæmi á yfirstandandi kjörtímabili þar sem ég leitaði eftir því hjá hæstv. dómsmrh. hver væri viðbragðsflýtir lögreglunnar í Reykjavík. Það kom í ljós að hann var auðvitað miklu minni en hægt var að búa við og í einstaka tilfellum skipti það fjörutíu og eitthvað mínútum. Það var að vísu eitt einstakt tilfelli sem ég hafði spurnir af, en hættan er sú að eitt einstakt tilfelli geti breyst í fleiri og hafi gert það í undantekningartilfellum. Það er við slíkar aðstæður sem við getum ekki búið.

En staðreynd málsins er sú að okkur hefur því miður ekki tekist að nálgast kjarnaatriði í þessari umræðu, atriði á borð við þau sem nefnd eru í tillögunni, hvort skynsamlegt sé að tilteknir þættir löggæslunnar fari heim í hérað, verði með öðrum orðum á hendi sveitarfélaga. Mér er kunnugt um að margir sveitarstjórnarmenn eru efins um ágæti þess, fyrst og síðast á grundvelli fjárhagslegra samskipta við ríkisvaldið fyrr og síðar og eru ekki vissir um að nægilegt fjármagn fylgi. Og lögreglumennirnir sjálfir, a.m.k. margir af eldri kynslóðinni, vísa til þess að á árum áður þegar sú skipan var fyrir hendi að sveitarfélögin héldu utan um ákveðna þætti löggæslunnar þá hafi gengið á ýmsu en blankheit hafi verið talsverð og sveitarfélögin hafi ekki verið í stakk búin á þeim tíma, mörg hver, til að standa undir þeirri lágmarksþjónustu sem þörf er á.

Ég held að í þessum efnum hafi orðið gjörbreyting og sveitarfélögin víðast hvar séu nægilega sterk til þess að axla þessa ábyrgð. Þá er hugmynd mín sú að menn horfi til þeirra þátta sem lúta að grenndarþjónustu, hverfislöggæslu, umferðarstjórnun og þeim málum sem ber og skynsamlegast er að leysa og finna lausn á heima í héraði, á vettvangi, þar sem staðarþekking er algert grundvallaratriði. Ég hef áhyggjur af því að við séum að tapa henni í stórauknum mæli og við því þarf að bregðast hið allra fyrsta.

Ég er ekki með neinar patentlausnir á hendi, herra forseti, í þessum efnum og ætla mér ekki að reyna að útlista mál með þeim hætti en ljóst er að við þeirri öfugþróun sem orðið hefur í löggæslumálum þjóðarinnar þarf að bregðast. Þessi till. til þál. er eitt lóðið á þær vogarskálar. Um hinar stóru spurningar, um stöðu og framtíð löggæslunnar í landinu, verður auðvitað líka vélað í þeim kosningum sem styttist í með degi hverjum og mínútu hverri. Þar munu borgarar landsins kveða upp sína dóma, m.a. á þessum vettvangi, hvort þeim finnist að haldið sé nægilega þétt og vel utan um lög og reglu í landinu. Mín tilfinning er sú að þeim hafi farið fjölgandi sem telja að svo hafi því miður ekki verið.