Skipulag og framkvæmd löggæslu

Mánudaginn 17. febrúar 2003, kl. 17:13:19 (3909)

2003-02-17 17:13:19# 128. lþ. 80.21 fundur 195. mál: #A skipulag og framkvæmd löggæslu# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 128. lþ.

[17:13]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég er einn af meðflm. þessarar þáltill. um að fela dómsmrh. að skipa nefnd sem skilgreini, meti og geri tillögur um skipulag og framkvæmd löggæslumála í landinu og móti reglur um lágmarksþjónustu og lágmarksfjölda lögreglumanna í hverju umdæmi.

Hv. 1. flm. Jóhanna Sigurðardóttir fór vel yfir efni málsins og ég get ekki bætt þar um betur að fara að rekja það. Ég vil eingöngu vekja athygli á því að bifreiðaeign landsmanna hefur aukist mikið og umferðarþungi aukist sem því nemur og það hefur margt breyst í þjóðfélagi okkar á seinni árum og að mörgu að hyggja. Þess vegna er full ástæða til að kanna sérstaklega kosti og galla þess að færa tiltekna þjónustu til sveitarfélaganna og kanna hvaða hagkvæmni getur falist í því. Hins vegar þarf að tryggja að við slíka tilfærslu fái sveitarfélögin tekjur sem nemi þeirri tilfærslu. Því miður hefur það oft gerst á undanförnum árum að þegar tilfærsla hefur orðið á verkefnum til sveitarfélaganna frá ríkinu hefur iðulega þurft að þvarga um það hér hvaða tekjustofnar ættu að fylgja og sveitarfélögin að mörgu leyti borið þar skaða af um einhvern tíma og orðið að leggja í talsverða vinnu við það að tryggja tekjustreymi til sveitarfélaganna sem eðlilegt mætti teljast miðað við þau verkefni sem þau taka við. Það er auðvitað nauðsynlegt að allir þættir þessa máls séu skoðaðir gaumgæfilega og gerð úttekt eins og hér er lagt til með það að markmiði að auka hagkvæmni jafnframt því að bæta þjónustu við íbúana.

Tillagan hefur að megintilgangi að kanna það hvað megi til betri vegar horfa að þessu leyti og því er lagt til að skipuð verði sérstök nefnd sem fari yfir þessi mál í heild sinni og kanni gaumgæfilega hvaða leiðir séu skynsamlegar til að auka hagkvæmni, skilvirkni og þjónustu við íbúana og tryggja öryggi þeirra ekki síst.

Eins og ég sagði áðan hefur orðið mikil breyting á þjóðfélagi okkar á umliðnum árum og ýmsar hættur steðja í auknum mæli að fólki, sérstaklega ungu fólki, varðandi fíkniefni og annað slíkt sem þarf að huga að. Ég held að þessi tillaga komi fram á réttum tíma og það eigi mjög vel við að skoða þessi mál upp á nýtt. Það er auðvitað von okkar flutningsmanna að tillagan geti orðið víðtæk sátt um þessi málefni og verði til þess að hér verði betur að málum staðið í framtíðinni og annar er ekki tilgangur málsins en að reyna að bæta það sem við höfum og gera betur, bæði í menntun og störfum lögreglunnar sem og í öryggi og vörnum íbúanna.