Skipulag og framkvæmd löggæslu

Mánudaginn 17. febrúar 2003, kl. 17:17:23 (3910)

2003-02-17 17:17:23# 128. lþ. 80.21 fundur 195. mál: #A skipulag og framkvæmd löggæslu# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 128. lþ.

[17:17]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem við þingmenn ræðum löggæslumál. Oftast nær er verið að togast á um stöðu mála í einstökum byggðarlögum eða þær breytingar sem hafa verið gerðar á löggæslumálunum. Hv. þm. Samfylkingarinnar Jóhanna Sigurðardóttir, framsögumaður í þessu máli, og Guðmundur Árni Stefánsson, hafa farið ágætlega yfir það hvernig þessum málum er háttað og hvaða þróun hefur orðið í íslensku samfélagi og því umhverfi sem kallar á öfluga og markvissa löggæslu. Við sem komum úr nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur höfum oft flutt inn í þennan sal upplýsingar um það neyðarástand sem hefur komið upp hvað eftir annað í bæjunum í kringum Reykjavík og ákall á okkur þingmenn í þingmannaheimsóknum okkar um að gera úrbætur í þessum sveitarfélögum.

Það er skemmst frá því að segja að oftar en ekki snúast þessar umræður upp í karp á milli stjórnarliða og stjórnarandstæðinga þegar í þingsal er komið. Það eru, eins og við heyrum, ekki sömu frásagnirnar af heimsóknum þingmanna í sveitarfélögin þegar komið er í þennan sal og á að fara að ræða t.d. löggæslumálin. Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson fór einmitt yfir að það hafa orðið miklar breytingar á skipulagi lögreglunnar í Reykjavík og löggæslumálanna. Embætti lögreglustjóra hefur orðið mjög viðamikið á þessum tíma og það er engin leið fyrir okkur, þingmenn sem um fjöllum, að leggja mat á það hvort þessi breyting varð til góðs eða ekki. Það sem við sjáum eru gífurlegir fjármunaflutningar frá lögreglustöðvum og til þessa nýja embættis en aftur á móti höfum við ekki fengið neinar þær upplýsingar sem sannfæra okkur um að breytingin hafi orðið til góðs eða að skýringar séu á því að það hefur dregið mjög úr löggæslunni, ekki síst í höfuðborginni og bæjunum í kring.

Þess vegna er mjög mikilvægt að þessi tillaga komist til framkvæmdar, að skipuð verði nefnd sem kanni breytingar á skipulagi lögreglumála og taki þá tillit til krafnanna um lágmarksþjónustu og lágmarksfjölda lögreglumanna í hverju umdæmi, kosti þess og galla að flytja verkefni lögreglu til sveitarfélaga og að sjálfsögðu að líta til menntunar. Þetta er mjög mikilvægt og þetta er eina leiðin til þess að við getum lagt heiðarlegt mat á stöðu löggæslumálanna og unnið úr þessum málum.

Því er ekki að neita að þegar stjórnarandstaðan kemur upp með gagnrýni út af breytingum sem orðið hafa, t.d. gagnrýni á löggæslumálin eins og þau hafa þróast, er svo einfalt og auðvelt fyrir stjórnarliðana að gefa til kynna að stjórnarandstaðan sé með yfirboð, vilji bara fjölga lögreglumönnum hér og þar og þetta sé bara partur af því hvernig stjórnarandstaðan eða flokkur eins og Samfylkingin muni leggjast í eyðslu og útgjöld komist slíkur flokkur til valda.

Þetta snýst hins vegar ekki um það að fjölga alls staðar. Þetta snýst um að skipuleggja málin þannig að löggæslan verði markviss. Og það kemur fram hér í þessari tillögu hvernig menn hafa verið að taka á þessum málum á Norðurlöndunum. Í Noregi hafa orðið breytingar á skipulagi lögregluembætta, í Svíþjóð og Finnlandi er unnið að slíkri breytingu á fækkun embætta og í Danmörku eru þessi mál í skoðun. Það kemur líka fram að lögreglumönnum eða lögreglustöðvum hefur ekki fækkað, heldur hefur fyrst og fremst skipulaginu verið breytt og stjórnun orðið markvissari.

Hér er líka komið inn á hlutverk ríkis og sveitarfélaga við stjórn og framkvæmd löggæslu. Það er auðvitað óviðunandi, þó að hugsunin á bak við það sé að sveitarfélög taki þátt núna í framkvæmd löggæslu, að það hefur gerst að sveitarfélögin hafa verið beðin um að leggja til eða það hefur orðið niðurstaða að sveitarfélög legðu til stöðugildi. T.d. í mínum heimabæ, Kópavogi, kostar bæjarsjóður eitt stöðugildi þar sem unnið er að forvörnum og fíkniefnamálum. Þetta er þróun sem hefur orðið víðar. Af því að það eru ekki til úrræði eða mannskapur til að sinna málum af þessu tagi hlaupa sveitarfélögin undir bagga. Þetta er enn einn þáttur þess að það er farið inn á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga með ómarkvissum hætti og af því að sveitarfélögin þekkja best hvar brennur á láta þau það yfir sig ganga að koma inn með þátttöku í slíkum verkefnum. Þau eru svo brýn og þýðingarmikil og það eru svona verkefni sem fólkið í sveitarfélögunum vill að tekið sé á.

Í apríl í fyrra ályktaði Landssamband lögreglumanna að það væri óviðunandi ástand á mörgum stöðum, tók sérstaklega fram ástand löggæslumála í Kópavogi og óviðunandi fjölda lögreglumanna þar. Síðan hefur það gerst að umferðardeild hefur verið flutt frá Reykjavík til Kópavogs, ekki með frekari skipulagsbreytingu á löggæslunni eða löggæslu umferðarmála, heldur einfaldlega flytja flotann og það sem snýr að honum undir Kópavog, án nokkurra annarra breytinga. Að sjálfsögðu eru menn því að vinna áfram á sama hátt og áður en stöðugildafjöldinn er skyndilega orðinn miklu meiri á þessum stað en áður hefur verið.

Ég kem hins vegar ekki hingað, virðulegi forseti, til þess að tala um löggæslu í mínu bæjarfélagi þó að ég hafi í pappírum mínum bunka af skjölum um álit stjórnar Lögreglufélags Kópavogs á nauðsyn á fjölgun lögreglumanna í lögregluliði. Ég gæti bent á mjög marga staði í Reykjaneskjördæminu þar sem menn hafa kallað eftir úrbótum og kvartað undan því að þær breytingar sem hafa orðið hafi dregið úr þjónustu. Við í Samfylkingunni viljum að farið verði í fagleg vinnubrögð á þessu sviði. Því er það lagt til hér að úttekt verði gerð á skipulagi og framkvæmd löggæslu, að nefnd fari ofan í þessi mál og hafi útgangspunkt í því að hvergi sé þjónusta undir því lágmarki sem gerð er krafa um og að lágmarksfjöldi lögreglumanna sé í hverju umdæmi.

Virðulegi forseti. Ég treysti því að þessi tillaga fái góðar undirtektir og að þingmenn sameinist um að skipa þessum málum og leggja upp með verkefni sem geti breytt skipulagi þeirra til góðs.