Aðgerðir til að draga úr ofbeldisdýrkun og framboði ofbeldisefnis

Mánudaginn 17. febrúar 2003, kl. 18:07:00 (3915)

2003-02-17 18:07:00# 128. lþ. 80.27 fundur 486. mál: #A aðgerðir til að draga úr ofbeldisdýrkun og framboði ofbeldisefnis# þál., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 128. lþ.

[18:07]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þarf ekki að bæta miklu við það sem ég hef þegar sagt um þessa tillögu. Vegna þess að Steingrímur J. Sigfússon rifjaði upp auglýsingatillögu sína og afgreiðslu Jóns Sigurðssonar, þáv. viðskrh., á henni finnst mér það eiga erindi inn í þessa umræðu nákvæmlega þetta sem hann orðaði, að það er verið að nýta sér trúgirni og áhrif á börn. Það er oft talað um það í auglýsingaheiminum að börn séu orðin einhver þýðingarmesti markhópurinn að beina auglýsingum að, líka þegar á að ná til foreldranna. Þá samt er markhópurinn börn af því að þau eru móttækileg og hafa sína skoðun á vöruvali og beina skoðun sinni til foreldranna og hafa mótandi áhrif.

Þetta er þekkt en ef auglýsingaheimurinn er svo meðvitaður um að börnin séu móttækileg, ef hann er svo meðvitaður um trúgirni barna og að unnt sé að hafa áhrif á þau, undirstrikar það mjög að svona efni nær vel til barna og að þau eru viðkvæm fyrir þessu áreiti, hvort heldur er myndefni eða texti sem beint er til þeirra beinlínis til að hafa áhrif.