Aðgerðir til að draga úr ofbeldisdýrkun og framboði ofbeldisefnis

Mánudaginn 17. febrúar 2003, kl. 18:08:39 (3917)

2003-02-17 18:08:39# 128. lþ. 80.27 fundur 486. mál: #A aðgerðir til að draga úr ofbeldisdýrkun og framboði ofbeldisefnis# þál., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 128. lþ.

[18:08]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að andsvör geti falið í sér skoðanaskipti milli ræðumanns og þeirra sem þau veita.

Ég held að hv. þm. hafi einmitt komið hér inn á mjög mikilsverðan hlut sem er auðvitað viðskiptahliðin á þessum málum. Þetta er að verða einhver stærsti iðnaður nútímans og mér er sagt að mesti hagnaður í gervöllum rafeindaiðnaðinum og tölvuiðnaðinum sé núna í tölvuleikjum. Þar af leiðandi er mikið lagt undir og við þurfum ekkert að fara í grafgötur um það að þar sem er hagnaðarvon verða einhverjir til þess að reyna að nýta sér þá möguleika í viðskiptum. Það er að hluta til auðvitað verið að spila inn á trúgirni og spennufíkn barna og unglinga. Það er alveg ljóst.

Við þekkjum við hvað er að glíma á netinu þar sem auðvitað er háð erfið, ég segi ekki vonlaus, en a.m.k. mjög erfið barátta gegn því gríðarlega flóði ofbeldisefnis og kláms sem þar er á ferðinni og er ákaflega erfitt kannski að koma að öllu leyti í veg fyrir að sé aðgengilegt milljónum barna úti um allan heim við heimilistölvurnar í dag.

Ég held við þurfum ekkert annað en bara minna okkur á þá staðreynd að sölumenn eiturlyfja eru orðnir daglegir gestir utan við suma af grunnskólum landsins. Úr því að menn hika ekki einu sinni við að gera grunnskólabörn að markhópi við sölu á eiturlyfjum þurfum við varla að vænta þess að einhverjum verði flökurt af því að pranga inn á þau ofbeldisefni og nýta sér trúgirni þeirra gagnvart slíkum hlutum. Ég held að við verðum bara að horfast í augu við það að þarna verður að reyna að koma einhverjum vörnum við. Samfélagið verður að setja sér einhverjar reglur og hafa einhverja meðvitaða stefnu uppi í þessum efnum ef við ætlum ekki að fljóta algjörlega sofandi að feigðarósi.