Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Þriðjudaginn 18. febrúar 2003, kl. 13:48:51 (3920)

2003-02-18 13:48:51# 128. lþ. 81.15 fundur 325. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (færsla Hafrannsóknastofnunar undir umhverfisráðuneyti) frv., Flm. KHG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 128. lþ.

[13:48]

Flm. (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, nr. 64/1965, með síðari breytingum.

Með frumvarpi þessu er lögð til sú grundvallarbreyting að verkefni sem nú heyrir undir sjávarútvegsráðuneyti verði flutt til umhverfisráðuneytis. Er þar um að ræða hafrannsóknir, friðun og ákvörðun um heildaraflamark úr einstökum fiskstofnum. Samhliða er gert ráð fyrir því að yfirstjórn Hafrannsóknastofnunarinnar verði færð frá sjávarútvegsráðuneyti til umhverfisráðuneytis. Nái þessi breyting fram að ganga mun umhverfisráðuneyti ákvarða heildaraflamark ár hvert, hafa umsjón með rannsóknum og gera tillögur varðandi almennt skipulag veiða innan efnahagslögsögunnar, ekki síst þær er tengjast hafsbotninum. Þá mun ráðuneytið veita ráðgjöf um friðunaraðgerðir og notkun veiðarfæra, jafnframt því að setja almennar reglur um notkun veiðarfæra. Sjávarútvegsráðuneyti mun eftir sem áður annast stjórn veiðanna innan framangreindra marka og hafa yfirumsjón með eftirliti með veiðum og mati á sjávarafurðum.

Nauðsynlegt þykir að gera umrædda breytingu og leggja þannig ríkari áherslu en verið hefur á umhverfisþátt rannsókna og stjórn á álagi við hagnýtingu auðlindanna. Þetta er ítrekað með því að færa mikilvægar ákvarðanir og tillögugerð úr höndum beinna hagsmunaaðila til umhverfisráðuneytis. Ekki er eðlilegt að hagsmunaaðilar geti ráðið miklu um ákvörðun sem þá varðar miklu fjárhagslega þegar í húfi eru náttúruauðlindir sem þjóðin byggir afkomu sína á í svo ríkum mæli sem raun ber vitni. Það skiptir miklu máli að við ákvarðanir um hagnýtingu auðlindar sé litið til langs tíma og þjóðarhags.

Ekki er eðlilegt að hagsmunaaðilar geti haft áhrif á tillögugerð í þessum efnum og fullkomlega er það fráleitt að stórútgerðarmenn sitji í stjórn Hafrannsóknastofnunar og ráði þar um tillögur stofnunarinnar um veiðar úr einstökum stofnum. Eitt er víst að ekki hafa hagsmunaaðilar, t.d. útgerðarmenn sóst eftir því að sitja í stjórn stofnunarinnar til þess að hafa engin áhrif.

Í sjávarútvegi eru fleiri hagsmunir en hagsmunir stórútgerðarmanna og LÍÚ og fræði- og vísindastofnun verður að geta skilið sig frá einstökum hagsmunahópum. Æ sér gjöf til gjalda, segir gamalt máltæki og það skyldi enginn láta sér detta í hug að Kristján Ragnarsson og félagar hans hjá LÍÚ skattleggi sjálfa sig um liðlega 1 milljarð kr. til þess að gefa Hafrannsóknastofnun nýtt og fullkomið skip án þess að ætla sér að fá eitthvað í staðinn.

Herra forseti. Frumvarpið er fjórar greinar. Í 1. gr. er lögð til breyting á 10. gr. gildandi laga þess efnis að: ,,Í stað orðsins ,,sjávarútvegsráðuneytið`` í 10. gr. laganna kemur: umhverfisráðuneytið.``

Í 2. gr. frv. er lagt til að gera breytingar á stjórn Hafrannsóknastofnunarinnar. Í henni ,,skulu vera fimm menn, skipaðir af umhverfisráðherra til fjögurra ára í senn, þar af þrír án tilnefningar, einn tilnefndur af Fiskifélagi Íslands og einn tilnefndur af starfsmönnum stofnunarinnar.`` Er sú breyting þá gerð að fulltrúar hagsmunaaðila fara úr stjórninni.

Í 3. gr. frv. eru gerðar breytingar á viðeigandi stöðum í þessum lagabálki í samræmi við efni frv. sem skiptir út orðinu ,,sjávarútvegsráðherra`` og setur inn á réttum stöðum orðið umhverfisráðherra.

Verði frv. þetta samþykkt er rétt í framhaldinu að breyta viðeigandi ákvæðum reglugerðar um Stjórnarráð Íslands sem fjallar um skiptingu verkefna á milli einstakra ráðuneyta. Lagt er til að frv. þetta verði þegar að lögum og þegar það hefur gerst verði skipuð ný stjórn stofnunarinnar.

Ég hygg að ekki þurfi að hafa mörg orð til viðbótar til að rökstyðja efni frv. Það er orðin almenn stefna í þjóðfélaginu að skipa málum með þeim hætti að losa í sundur hagsmunatengsl þannig að hagsmunaaðilar geti ekki hlutast til um mál er varða þá sjálfa þegar í hlut eiga aðstæður innan stjórnsýslunnar og þessi breyting hlýtur að teljast eðlileg í ljósi þeirrar þróunar.

Í öðru lagi verður að telja það eðlilega breytingu að færa rannsóknaþáttinn og starfsemi Hafrannsóknastofnunar til umhvrn. til að undirstrika að um er að ræða fyrst og fremst umhverfismál, hvernig staða fiskstofna er og hvernig veiðar leika lífríki hafsins, botn og annað sem þar kemur við.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. umhvn. og vil geta þess að efni þessa frv. hefur áður verið flutt á 122. löggjafarþingi. Þá var þetta hluti af frv. sem ég flutti ásamt þáv. hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni og frv. var þá vísað til hv. umhvn.

Sem dæmi um áhrif hagsmunaaðila á ákvarðanir, t.d. um heildaraflamark, vil ég rifja upp tvær ákvarðanir sem nýlega hafa verið teknar um breytingu á leyfilegum heildarafla í nokkrum fisktegundum. Í desember 2001 ákvað sjútvrh. að breyta leyfilegum aflaheimildum í fjórum tegundum, ýsu, ufsa, skarkola og steinbít og auka aflaheimildir í þeim tegundum töluvert; á ýsu úr 30 þús. tonnum í 41 þús., ufsa úr 30 þús. tonnum í 37 þús., skarkola úr 4 þús. tonnum í 5 þús. og steinbít úr 13 þús. tonnum í 16.100. Þarna er um að ræða miklar breytingar til hækkunar á leyfilegum heildarafla þessara fjögurra tegunda sem teknar eru þegar aðeins eru liðnir tæplega fjórir mánuðir af fiskveiðiárinu. Þegar maður les rökstuðning ráðuneytisins fyrir þessari breytingu í fréttatilkynningu sem gefin var út 21. desember 2001 er hann sá að þessar breytingar í þorskígildum séu ríflega 33 þús. þorskígildistonn sem er heldur meira en nam skerðingunni í þorski í upphafi þess fiskveiðiárs sem var 30 þús. tonn. Í öðru lagi er rökstuðningurinn sá að aflaverðmæti aukist við þessa breytingu um 3 milljarða kr.

Mjög athyglisvert er að röksemdirnar fyrir aukningunni skuli vera annars vegar að aukningin eigi að vega upp á móti samdrætti í þorskveiðum og hins vegar að það auki aflaverðmæti útflutningstekna sjávarafurða. Í þeim rökstuðningi er hvergi vikið að því sem ætti auðvitað að vera eðlilegast að koma inn á, ástand fiskstofnanna og að ákvörðun um heildaraflamark sé tekin með hliðsjón af því.

Í öðru lagi vil ég nefna breytingu sem varð á fjórum tegundum, aflamarki þeirra fyrir skömmu í janúar sem var í ufsa, sandkola, kolmunna og úthafsrækju, og þar eru sömu röksemdir færðar fram í fréttatilkynningu sjútvrn. Annars vegar er þess getið að breytingarnar til hækkunar á leyfðum heildarafla í þessum tegundum séu í þorskígildum meiri en nam samdrætti í leyfðum þorskafla í upphafi yfirstandandi fiskveiðiárs eða aukningin sé í þessum fjórum tegundum sem nemur 12 þús. þorskígildistonnum en samdrátturinn í þorski hafi verið 11 þús. tonn.

Í öðru lagi er þess getið að þessi hækkun á heildarafla auki útflutningsverðmæti sjávarafurða um 2,5--2,8 milljarða kr. Það eru því alveg sömu röksemdir færðar fram í báðum tilvikum fyrir þessari breytingu sem gerð er á miðju fiskveiðiári og tæplega það. Ég er þeirrar skoðunar að þegar búið er að taka ákvörðun um leyfilegan heildarafla til eins árs, þá sé það svo stuttur tími að menn eigi ekki að vera að taka það upp á miðju fiskveiðiári. Ef aðstæður á þeim tíma eru eitthvað betri en menn ætluðu að mundu verða, þá ætti það væntanlega að koma uppbyggingu fiskstofnanna til góða og menn ættu því ekki að vera að auka leyfðan afla. Og ef menn eru að taka upp ákvarðanir á miðju tímabili, þá hljóta menn líka að þurfa að skoða breytingar á hinn veginn þar sem ástæða væri til að draga úr leyfðum heildarafla því að ekki geta menn búist við því að það að taka upp ákvörðun um leyfðan heildarafla leiði ævinlega til þess að menn auki hann. Ég er miklu frekar á þeirri skoðun og hallast æ meira að því sem var töluvert rætt í upphafi fiskveiðistjórnar af þessu tagi að menn ákvörðuðu svonefndan jafnstöðuafla sem væri þá ákvörðun til lengri tíma en eins árs í senn. Það skapar meiri stöðugleika í útgerð og er vænlegra að mínu viti til þess að tryggja samræmi í veiði og uppbyggingu fiskstofna eða því markmiði sem menn setja sér í þeim efnum. Ég hefði því talið eðlilegra að fara þá frekar hina leiðina, að hafa ákvörðunina um leyfilegt aflamark til lengri tíma heldur en hafa hana til skemmri tíma eins og þessi tvö dæmi bera með sér.

Þegar maður skoðar rökstuðninginn hjá sjútvrh. í báðum þessum tilvikum er ljóst að hann er að bregðast við þrýstingi um að auka veiðar í þessum tegundum og sá þrýstingur kemur m.a. vegna þess að dregnar hafa verið saman aflaheimildir í þorski. Þarna eru því tvö dæmi sem benda mjög sterkt á það að sjútvrh. er að gera breytingar og taka ákvörðun um leyfilegt heildaraflamark út frá þrýstingi sem á hann er settur eins og rökstuðningurinn í raun ber með sér en síður út frá því hvað niðurstöður Hafrannsóknastofnunar gefa til kynna um hvað rétt sé að veiða úr stofnunum því að í sumum þessum tilvikum er farið gegn tillögu Hafrannsóknastofnunar um aukningu í veiðinni. Þessi tvö dæmi draga það í raun og veru fram hve sterkur þrýstingur er á sjútvrh. frá hagsmunaaðilum við ákvörðun á heildaraflamarki og eru þar af leiðandi enn frekari rökstuðningur fyrir því en fram hefur komið í ræðu minni fyrr, að færa þetta ákvörðunarvald úr höndum þess ráðherra sem fer með málefni atvinnugreinarinnar yfir í umhvrn.