Breytt hlutföll aldurshópa eftir árið 2010

Þriðjudaginn 18. febrúar 2003, kl. 14:11:41 (3923)

2003-02-18 14:11:41# 128. lþ. 81.16 fundur 397. mál: #A breytt hlutföll aldurshópa eftir árið 2010# þál., Flm. ÍGP (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 128. lþ.

[14:11]

Flm. (Ísólfur Gylfi Pálmason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þáltill. um könnun á áhrifum breyttra hlutfalla aldurshópa eftir árið 2010. Flm. auk mín eru hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson, Hjálmar Árnason og Magnús Stefánsson.

Þetta mál hefur verið flutt áður, fyrst árið 1996, og um nokkurt skeið hefur verið talsverð umræða í þjóðfélaginu einmitt um þetta breytta hlutfall aldurshópa þar sem íslenska þjóðin er, eins og reyndar aðrar þjóðir, að eldast. Tillagan gengur út frá því að mæta breytingum sem verða á þjóðfélaginu við það að þjóðin eldist.

Greinargerðin hljóðar í stuttu máli þannig:

Frá árinu 1970 til 1995 fjölgaði Íslendingum 65 ára og eldri úr 5,9% þjóðarinnar í 11,3%. Árið 1970 voru íbúar landsins um 205 þús. manns. Þá voru 65 ára og eldri 18.100. Árið 1995 eru íbúar orðnir 268 þús. og þar af 65 ára og eldri 30.540. Við síðustu áramót, þ.e. 1. desember 2002, voru Íslendingar á bilinu 280--290 þús. Enn fjölgar þeim sem ná háum aldri og við getum glaðst yfir því.

Í spá sem gerð hefur verið um hlutfall þessa aldurshóps til ársins 2030 kemur fram að veruleg fjölgun verður frá árinu 2010, og árið 2030 verður þetta hlutfall orðið 19% þjóðarinnar. Og þá sjáum við, miðað við þær tölur sem ég hef verið að nefna, frá 1970 þegar um 5,9% þjóðarinnar voru 65 ára og eldri, að þetta er gríðarleg fjölgun. Í spá sem Hagstofa Íslands hefur gert fyrir árið 2030 kemur í ljós að gert er ráð fyrir að Íslendingar verði um 320 þús., þar af 60.400 sem verða 65 ára og eldri. Hér er greinilega um miklar breytingar á þjóðfélagsmynstri að ræða.

Þessi fjölgun hefur miklar þjóðfélagsbreytingar í för með sér. Ætla má að kostnaður heilbrigðiskerfisins aukist verulega og útgjöld vegna eftirlauna og lífeyris aukist að sama skapi. Af sjálfu leiðir að færri vinnandi hendur munu standa undir velferðarkerfinu.

Um leið og við gleðjumst yfir því að sífellt fleiri ná háum aldri vegna betri aðbúnaðar og framfara í læknavísindum er umræða nauðsynleg um breytingu á aldurssamsetningu þjóðarinnar og á hvern hátt við eigum að mæta þessari þróun þegar horft er til framtíðar.

[14:15]

Enginn má misskilja þessa þáltill. okkar, þ.e. við erum alls ekki að hnýta í aldraða, síður en svo. Við erum að benda á hve nauðsynlegt það er að búa þjóðfélagið undir þær gríðarlega miklu breytingar sem fram undan eru. Flestir eiga vonandi fyrir höndum að ná háum aldri. Það á væntanlega við um okkur í þessum þingsal, hæstv. forseti, eins og aðra þegna landsins. Við viljum tryggja að við megum áfram búa við eitt besta heilbrigðis- og tryggingakerfi í veröldinni.

Umræðan um framtíðina þarf að miða að því að leita að sameiginlegum lausnum eins og aðrar þjóðir hafa reynt að gera, enda er hér ekki um séríslenskt málefni að ræða heldur málefni sem önnur vestræn ríki hafa skoðað. Það versta er að gera ekki neitt af því að við höldum að við getum ekki gert neitt en það er auðvitað mjög nauðsynlegt að skoða þessi mál.

Sú staðreynd blasir við meðal margra auðugra þjóða að þeir sem komast á eftirlaunaaldur 65 ára geta búist við að lifa áfram í 15--20 ár. Ef heilsan er í lagi er oft og tíðum um skemmtileg og notaleg ár að ræða og við eigum að kappkosta að skapa öldruðum áhyggjulaust ævikvöld. Þess eru sem betur fer mörg dæmi hér á landi að aldraðir lifi góðu lífi og við viljum tryggja að áframhald verði á því.

Eins og horfur eru nú og hefur komið fram víða á Vesturlöndum mun háöldruðum fjölga gríðarlega á næstu árum og áratugum. Af þeim sökum mun kostnaður þjóðfélagsins eðlilega aukast í sambandi við umönnun og þjónustu aldraðra. Nauðsynlegt er að byggja upp samfélag sem eyðir óvissu og eykur öryggi þessara aldurshópa.

Á síðari hluta þessarar aldar hefur verið stefnt að því að lækka eftirlaunaaldurinn og stundum talið eftirsóknarvert að komast á eftirlaun. Á næstu 30--40 árum munu hlutföll aldurshópa breytast æ meir sökum hærri lífaldurs og færri barnsfæðinga. Ekki verður hjá því komist að skoða áhrif þess á eftirlauna- og heilbrigðiskerfi. Reiknað hefur verið út í erlendum rannsóknum að árið 2030 geti aldurssamsetningin verið þannig í iðnvæddum ríkjum að aðeins tveir vinnandi menn verði fyrir hvern eftirlaunaþega. Þetta getur leitt til þess að aldurshópar komi til með að takast á um fjármagn og öll fjármögnun félagslegrar aðstoðar verði erfið. Þegar þess er gætt að íbúar auðugra landa lifa 20--30 árum lengur en fyrir einni öld verður að huga að breytingum á lífeyris- og heilbrigðismálum langt fram í tímann, en forsenda fyrir því að það sé hægt er að sjá áhrifin fyrir fram. Því er lagt til að skora á ríkisstjórnina að koma á fót vinnuhópi sem kanni þessi mál. Og eins og fyrrv. forseti Íslands, frú Vigdís Finnbogadóttir, orðaði það einu sinni sagði hún eitthvað á þá leið að enginn getur séð fyrir um framtíðina en saman getum við haft hönd á stýri fyrir framtíðina og það tel ég mjög nauðsynlegt.

Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar áðan hafa æ fleiri gefið því gaum hve nauðsynlegt er að byggja upp samfélagið með tilliti til þessara aldurshópabreytinga. Það sjáum við í heilbrigðiskerfinu, við sjáum það vítt og breitt um landið hve nauðsynlegt er að vita hversu mörg dvalarheimili við þurfum að byggja, hversu mörg sjúkrahús við þurfum að byggja og á hvern hátt við eigum að móta og bregðast við þeim breytingum sem eiga sér stað í þjóðfélaginu hvað þetta varðar.