Framboð á leiguhúsnæði

Þriðjudaginn 18. febrúar 2003, kl. 14:35:00 (3925)

2003-02-18 14:35:00# 128. lþ. 81.17 fundur 512. mál: #A framboð á leiguhúsnæði# þál., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 128. lþ.

[14:35]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get í sjálfu sér tekið undir flest af því sem stendur í þessari þáltill. Ég held að mjög nauðsynlegt sé að taka heildstætt á húsnæðisvanda fólks og þá ekki síst í höfuðborginni.

En mig langar til að spyrja hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur hvort hún telji --- það er nú einn liðurinn í öllum þessum málum að sveitarfélögin hafa verið að breyta um rekstrarform á leiguíbúðum sínum eins og gert hefur verið t.d. í Reykjavík með félagsíbúðir sem leiddi til hækkunar í annan endann og aukinna framlaga í hinn endann --- að markaðsvæðing leiguíbúðanna að hluta til, má segja, hafi verið réttar aðgerðir.

Það sem stendur upp úr er að mörg önnur sveitarfélög hafa fetað í fótsporin eða eru að taka leiguíbúðir sínar út og stofna um þær fyrirtæki sem síðan leigir þær út. Í flestum tilfellum hefur það leitt til mjög hækkandi leigu vegna þess að hún er látin lúta markaðslögmálum en ekki beinum inngripum borgar- eða bæjaryfirvalda til þess að hækka leigu eins og þeim sýnist og þá er það náttúrlega inni í borgar- og bæjarreikningi. Ég tel því að þetta séu hlutir sem þurfi að skoða alvarlega og hvaða form menn sjái fyrir sér á þessu. En ég tek heils hugar undir innihald þáltill. Ég held að skoða þurfi öll þessi mál og þá ekki síst stöðu námsmanna, og ég hef lýst því áður að það væri kannski auðveldasta leiðin að stórauka framboð á íbúðum stúdenta til þess að létta á hinum almenna markaði.