Framboð á leiguhúsnæði

Þriðjudaginn 18. febrúar 2003, kl. 14:37:08 (3926)

2003-02-18 14:37:08# 128. lþ. 81.17 fundur 512. mál: #A framboð á leiguhúsnæði# þál., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 128. lþ.

[14:37]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þær undirtektir sem komu fram hjá síðasta ræðumanni og koma þær ekki á óvart því að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur vissulega borið hag þessa fólks fyrir brjósti og lagt til að gert verði sérstakt átak í þessum málum, þannig að ég hygg að við eigum samleið hér.

Ég tek undir með hv. þm. að gera þarf sérstakt átak að því er varðar námsmenn sem ég nefndi sérstaklega í framsögu minni áðan. Mjög mikið er um það og stór hópur af þeim sem eru á biðlistum eru einmitt námsmenn sem koma utan af landi og eru að leita fyrir sér hér til að fá húsnæði á hóflegum kjörum. Þarna fer því ekkert á milli mála að leiðir okkar liggja saman í þessu máli.

Í sambandi við rekstrarformið sem hér hefur verið tekið upp hvað varðar félagsíbúðir, þá finnst mér það ekki skipta meginmáli, heldur er það grundvallaratriði að gæði íbúðanna breytist ekki og að leigukjör þeirra sem sækja í þetta húsnæði og þurfa á því að halda, breytist ekki. Það er grundvallaratriði.

Ég er ekki sammála hv. þm. um það að vegna þess að rekstrarforminu hafi verið breytt t.d. í Reykjavík, ég þekki nú ekki vel hvernig það er annars staðar, að þá hafi leigan hækkað. Ástæðan fyrir því að leigan hefur hækkað og að fara þurfti út í 12% hækkun á leigunni sem náði yfir allan leigustokkinn hjá Reykjavíkurborg var sú mikla hækkun, sem ég gerði mjög að umtalsefni hjá ríkisstjórninni, á lánskjörum til leiguíbúða sem hafa hækkað úr 1% í allt að 4,9%. Það var ástæðan fyrir því að Reykjavíkurborg þurfti að fara út í ákveðnar jafnaðargreiðslur eða hækkun á leigunni, og það er miður. En ég rek það ekki til breytinga á rekstrarformi, herra forseti, heldur til þeirrar hækkunar á vöxtum sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir.