Framboð á leiguhúsnæði

Þriðjudaginn 18. febrúar 2003, kl. 14:39:23 (3927)

2003-02-18 14:39:23# 128. lþ. 81.17 fundur 512. mál: #A framboð á leiguhúsnæði# þál., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 128. lþ.

[14:39]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held reyndar að fullt tilefni sé til þess að velta fyrir sér rekstrarforminu vegna þess að inngrip sveitarfélaganna af því tagi sem ég lýsti, að breyta um rekstrarform, byggjast náttúrlega á þeirri grunnhugsun að sveitarsjóðir komi betur út úr þessum málum þannig að þetta er spurning um hvar er niðurgreitt, hvar hjálpin er veitt. Er það á sveitarstjórnarstigi eða er það á ríkisplani? Auðvitað skarast þetta því að ríkisvaldið er með ýmsum hætti, eins og hv. þm. kom inn á, með ákvörðunum um vaxtakjör og því um líkt að grípa verulega inn í. En rekstrarformið eða það hver léttir undir með þeim sem minna mega sín, hvort það er borgar- og bæjarsjóður eða hvort það er ríkissjóður, um það snýst umræðan líka. Það var að margra dómi mjög röng aðferð að fara yfir í að hluta til markaðsvæðingu félagslegra íbúða af hálfu borgar- og bæjarfélaga í stað þess að hafa fullt umboð til þess að stýra aðstoðinni með ákvörðunum um lága leigu.

Ég vildi spyrja hv. þm. einmitt um þetta og fá innstillingu til. Reyndar kom fram í andsvari hv. þm. að hún telur að það skipti ekki meginmáli. En ég held að það skipti töluverðu máli. Návígið við notandann sem þarf á aðstoð að halda er miklu meira að mínu mati hjá borg og bæ og þess vegna held ég að slík bein aðstoð leiði til þess að lausnirnar verði jákvæðari fyrir þá sem minna mega sín og þurfa á slíkri aðstoð að halda.