Framboð á leiguhúsnæði

Þriðjudaginn 18. febrúar 2003, kl. 14:43:51 (3929)

2003-02-18 14:43:51# 128. lþ. 81.17 fundur 512. mál: #A framboð á leiguhúsnæði# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 128. lþ.

[14:43]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Tillaga Samfylkingarinnar um átak til að auka framboð á leiguhúsnæði er að mínu viti bæði skynsamleg og hófsöm. Þar er leitað leiða til að taka á þeim vanda sem búinn er að blasa við um þriggja, fjögurra ára skeið og sem ljóst var að mundi skapast við þær breytingar sem voru gerðar á húsnæðiskerfinu á sínum tíma.

[14:45]

Í tillögu okkar er lagt til að leitað verði samstarfs við sveitarfélög, verkalýðshreyfingu og félagasamtök og að gerð verði fjögurra ára áætlun til að leysa þann húsnæðisvanda sem svo brýnt er að leysa. Það er tillaga um að veita 95% lán til sveitarfélaga og félagasamtaka, að stofna til sérstaks lánaflokks hjá Íbúðalánasjóði, að vaxtaendurgreiðslur og/eða stofnstyrkir, svo og húsaleigubætur, tryggi að leigukjör fari ekki yfir 6% af stofnverði íbúðar, og, virðulegi forseti, að stimpilgjöld falli niður hjá framkvæmdaraðilum leiguíbúða. Það er mál sem Samfylkingin hefur aftur og aftur vakið athygli á og flutt tillögur um, nú síðast við fjárlagagerð ríkisins, að breyta ákvæðum um stimpilgjöldin sem eru afar þung byrði hjá venjulegum íbúðareigendum og litlum fyrirtækjum. Ég vil minna á það líka að það litla skref sem ríkisstjórnin hafði ákveðið að taka í þeim efnum við fjárlagagerðina, að veita um 900 millj. kr. til þess að lækka stimpilgjöldin, var hætt við að stíga á síðustu stundu þegar menn voru búnir að fara yfir dekurverkefnin og sáu hvaða útgjöld blöstu við.

Flestir á biðlistum eru einstæðir foreldrar, lífeyrisþegar, námsmenn og fjölskyldur með mjög lágar tekjur. Eins og kom fram í framsöguræðu hafa vextir á þessum íbúðum hækkað úr 1% frá árinu 1998 upp í tæp 5% og viðbótarlán sem áttu að vera ígildi félagslegra lána til eignaríbúða fyrir fólk sem býr við erfiðar aðstæður hafa hækkað úr 2,4% í 5,7%. 1%-lánaflokkur til leiguíbúða sem lagður var af hefur verið í raun og veru við lýði afskaplega lengi og var grundvöllur þess að hér væri hægt að bjóða upp á þokkaleg kjör á leigumarkaði fyrir þá sem minnst hafa.

Skýrsla nefndar sem hér hefur verið gerð að umræðuefni benti á afleiðingar þess að gera þær breytingar sem gerðar voru á húsaleigumarkaðnum og taldi að 60 fermetra íbúð sem kostaði um 7,6 millj. mundi hækka í leigu úr 24.800 kr. í liðlega 41 þús. kr. eftir greiðslu húsaleigubóta, þ.e. um rúmar 16 þús. kr. á mánuði, og eru það gífurlegar fjárhæðir á ársgrunni. Þessi spá nefndarinnar sem félmrh. skipaði á sínum tíma hefur gengið eftir. Og af því að hér urðu orðaskipti fyrir nokkrum mínútum á milli tveggja þingmanna um fyrirkomulag leiguhúsnæðis hjá Reykjavíkurborg langar mig að taka dæmi sem var sett fyrir mig núna um helgina af einstæðri móður sem hefur fengið íbúð til leigu í Kópavogi. Þar er allt annað rekstrarform heldur en hjá Félagsbústöðum í Reykjavík. Kópavogsbær er með hefðbundið fyrirkomulag á leiguíbúðum sem bærinn hefur verið að kaupa og leigja. En það sem er líkt alls staðar er að verið er að reyna að láta leiguna standa undir kostnaði við rekstur íbúðanna. Hér er um að ræða einstæða móður með eitt barn. Hún hefur verið atvinnulaus um sinn og fær í atvinnuleysisbætur 64 þús. kr. Hún fær líka meðlag með barni sínu. Það er 15 þús. kr. Hún fær barnabætur en þá mánuði sem hún fær ekki barnabætur á hún möguleika á að fá framfærslu þannig að heildartekjur nái 100 þús. kr. Ef hún fær barnabætur fær hún ekki framfærsluframlag vegna þess að mörkin í Kópavogi eru 100 þús. Hún hefur fengið tveggja herbergja íbúð á leigu hjá Kópavogsbæ vegna þess að hún er í þeirri félagslegu aðstöðu og hún þarf að borga fyrir þá íbúð 61.400 kr. á mánuði, 61.400 kr. fyrir tveggja herbergja íbúð. Þetta er einstæð móðir með barn. Mér skilst að miðað við fjölskylduaðstæður hennar fái hún hæstu húsaleigubætur miðað við tekjur og leigu en þær nema 19.500 kr. 61.400 kr. og 19.500 kr. í húsaleigubætur, 64 þús. í atvinnuleysisbætur. Húsaleiga, barnagæsla. Ætli barnagæslan taki ekki nokkurn veginn meðlagið? Svo er það framfærsla og önnur útgjöld. Allir sjá að jafnvel þegar um eitt barn er að ræða nást endar ekki saman. Þetta er íbúð í leigukerfi Kópavogsbæjar. Ég geri mér alveg grein fyrir því að þar er ekki verið að leggja meira á húsaleiguna en sem nemur rekstrarkostnaðinum á íbúðinni. Á hefðbundnum leigumarkaði eru aðrar tölur. Þar erum við að tala um allt upp í 70--90 þús. kr.

Þegar verið var að reikna út þessar breytingar á sínum tíma var talað um að leiguverð á tveggja og þriggja herbergja íbúðum væri 25--30 þús. kr. Þetta hefur farið miklu meira úr böndunum en nokkurn óraði fyrir. Húsnæðiskostnaður fólks er langstærsti liðurinn í framfærslukostnaði. Há leiga er afskaplega þung byrði fyrir fólk með lágar bætur eða lágar tekjur.

Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en minnt á að á sínum tíma, þegar þessar breytingar voru gerðar hjá ríkisstjórninni, var bent á það aftur og aftur að óráðlegt væri að gera þessar breytingar svona hratt og án þess að neitt kæmi í staðinn vegna þess að t.d. sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu höfðu byggt fleiri hundruð íbúðir árlega. Við erum enn að kljást við eftirköstin af því að hætt var að byggja þær íbúðir og ekkert kom í staðinn.