Framboð á leiguhúsnæði

Þriðjudaginn 18. febrúar 2003, kl. 14:51:56 (3930)

2003-02-18 14:51:56# 128. lþ. 81.17 fundur 512. mál: #A framboð á leiguhúsnæði# þál., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 128. lþ.

[14:51]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Árið 1998 var gerð grundvallarbreyting á húsnæðislöggjöfinni á Íslandi. Þetta var gert þvert á mótmæli gjörvallrar verkalýðshreyfingarinnar og stjórnarandstöðunnar á Alþingi. Það myndaðist reyndar mjög breið samstaða í þessum efnum. Við vöruðum við því að þær breytingar sem hér voru knúðar í gegn mundu hafa mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér, auka og hækka húsnæðiskostnað hjá láglaunafólki þannig að sá vandi sem þá blasti við yrði sýnu verri þegar fram liðu stundir. Allt þetta hefur því miður gengið eftir.

Í hverju fólust þessar breytingar á húsnæðiskerfinu? Þær fólust fyrst og fremst í því að hverfa frá félagslegum lausnum. Við höfum búið við margs konar kerfi í þessum efnum, verkamannabústaði og síðan kaupleigufyrirkomulag með ýmsum afbrigðum. En stuðningurinn frá hinu opinbera hefur yfirleitt verið í því formi að vaxtagreiðslur hafa verið lágar. Fjármagn sem hefur komið frá ríkinu hefur verið á viðráðanlegum vaxtakjörum. Einmitt í þessu fólst breytingin sem gerð var 1998, þ.e. að fara með vextina í húsnæðiskerfinu yfir á markaðskjör. Þetta átti ekki aðeins að gilda um þá einstaklinga sem voru að kaupa húsnæði heldur einnig um hina sem sjá skjólstæðingum sínum fyrir leiguhúsnæði. Þar er ég að vísa í félagslega leigukerfið. Að því standa margir aðilar, námsmannahreyfingar, Öryrkjabandalagið, Sjálfsbjörg og Reykjavíkurborg svo að dæmi séu tekin. Þessir aðilar hafa fengið lánsfjármagn á lágum vöxtum, 1%. Nú er stefnt að því að fara með þessa vexti upp í markaðsvexti. Þetta er gert í áföngum. Síðast voru þeir hækkaðir úr 1% upp í 3,5%.

Hvað þýddi þetta? Hvað þýddi þetta fyrir skjólstæðinga þessara samtaka, Öryrkjabandalagsins, Sjálfsbjargar, námsmannahreyfingarinnar? Þetta þýddi 25% hækkun á húsaleigu. Þetta eru afleiðingarnar. (RG: Orðin miklu hærri.) Og orðið meira. En þessi hækkun ein hafði þessa breytingu í för með sér.

Hvað skal gera? Hér hefur verið lögð fram tillaga um úrbætur og mér finnst hún vera ágæt. Ég hef ekki skoðað í þaula allar þær leiðir sem hér eru lagðar til en ég er ekki í vafa um að menn geti náð saman um tæknilegar útfærslur í þessum málum.

Á sínum tíma kom fram hugmynd innan Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um að lífeyrissjóðirnir kæmu á virkari hátt að húsnæðiskerfinu en verið hefur. Hvernig geta þeir gert það? Okkar hugmyndir voru af tvennum toga. Annars vegar væri það skylda lífeyrissjóðanna, og ekki óeðlilegt að ætlast til þess að þeir gæfu um það skuldbindandi yfirlýsingu, að halda uppi stöðugri eftirspurn á húsbréfum. Þegar afföll húsbréfanna ruku upp úr öllu valdi eitt sumarið, 2001 frekar en 2000, var það vegna þess að fjármagnseigendur voru í miklum spekúlasjónum á markaði. Þetta var sumarið sem gengisbraskið var sem mest og þá dró úr eftirspurn eftir húsbréfum. Þegar lífeyrissjóðirnir komu síðan af fullum krafti inn á þennan markað og keyptu húsbréf varð grundvallarbreyting þarna á. Þetta ber lífeyrissjóðunum að gera að mínum dómi, og að okkar dómi.

Hitt sem lífeyrissjóðirnir hljóta að taka til íhugunar er að koma með beinum hætti inn í húsnæðiskerfið. Hið endanlega takmark ætti að vera að lífeyrissjóðirnir yrðu virkur og beinn eignaraðili að félagslegum íbúðum. Slíkt fyrirkomulag þekkist í Hollandi og Þýskalandi svo að dæmi séu tekin. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar að það eigi að gerast í áföngum og ekki er hægt að ætlast til þess að lífeyrissjóðirnir komi að eignaraðild fyrr en til eru orðnir stöndugir aðilar sem reki þetta kerfi. Fram að því geta lífeyrissjóðirnir engu að síður komið inn með fjármagn til þess að byggja kerfið upp og þar held ég að hugmyndir okkar fari nokkuð saman, að þar sé eðlilegt að ríkið standi að baki sem ábyrgðaraðili að þessu fjármagni, ríkið veiti ríkisábyrgð á lánsfjármagni gegn því að lífeyrissjóðirnir haldi vöxtunum niðri, lágir vextir verði framlag lífeyrissjóðanna en framlag ríkisins verði hins vegar ábyrgð á lánunum. Þá ætti dæmið að geta gengið upp. Fyrir lífeyrissjóðina er þetta ekki slæmur kostur. Lífeyrissjóðirnir hafa verið á ótryggum hlutabréfamarkaði og verðbréfamarkaði, ekki aðeins á Íslandi heldur víðs vegar um heiminn, og ekki alltaf vegnað vel. Þegar sveiflur hafa orðið á verðbréfamarkaði og gengi bréfa farið niður í öldudalinn hafa lífeyrissjóðirnir tapað. Þarna yrði hins vegar um trygga stöðuga ávöxtun að ræða. Þótt hún væri ekki ýkja mikil væri hún traust og stöðug og hitt kæmi þarna einnig til sögunnar, þ.e. að lífeyrissjóðirnir tækju þátt í félagslega mikilvægu uppbyggingarstarfi í þjóðfélaginu og að sjálfsögðu á að beina lífeyrissparnaði landsmanna inn á slíkar brautir.

Tími minn er senn á þrotum. Ég vek athygli á því að verkalýðshreyfingin hefur látið sig þessi mál miklu skipta. Hér var vísað í ályktanir og samþykktir Alþýðusambands Íslands. Ég vek athygli á mjög ítarlegum tillögum sem komið hafa frá BSRB. BSRB ályktaði um húsnæðismálin um miðjan nóvember og sendi ályktunina öllum stjórnmálaflokkum til skoðunar og það má vel vera að ég geri nánar grein fyrir þeim í ræðu hér á eftir ef umræðan verður lengri.