Framboð á leiguhúsnæði

Þriðjudaginn 18. febrúar 2003, kl. 15:07:17 (3935)

2003-02-18 15:07:17# 128. lþ. 81.17 fundur 512. mál: #A framboð á leiguhúsnæði# þál., KPál
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 128. lþ.

[15:07]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. þingmönnum Samfylkingarinnar fyrir að vera með tillögur um það hvernig megi ná betri tökum á húsnæðiskerfinu. Ég vil nú samt sem stjórnarmaður í Íbúðalánasjóði segja að á vegum Íbúðalánasjóðs og stjórnvalda er mikið átak í gangi og er búið að vera sl. tvö ár til þess að auka framboð leiguhúsnæðis. Bara á þessu og síðasta ári er verið að byggja um 700 leiguíbúðir fyrir yfir 8 milljarða kr. og ýmis kjör eru í gangi. Farið var af stað með sérstakt átak með lífeyrisjóðunum m.a. Þetta átak er þrískipt, getum við sagt, þ.e. leiguíbúðir sem eru með 3,5% vexti, leiguíbúðir með 4,5% og svo eru leiguíbúðir með 4,9%. Þetta átak gerði ráð fyrir því að byggðar yrðu um 400 íbúðir á ári í fjögur ár, eða um 1.600 íbúðir. Við úthlutun á íbúðum í þessum flokkum hafa allir fengið það sem þeir báðu um, sérstaklega þá í þessum föstu vaxtaflokkum, þ.e. í 3,5% og 4,5% Þar hafa nánast allir fengið sem rétt áttu og þessi flokkur hefur að því er virðist þjónað tilgangi sínum.

Ég sé að flutningsmenn gera ráð fyrir því að leigukostnaður megi ekki fara yfir ákveðið hámark og talað er um 6% af stofnkostnaði eða stofnverði íbúðar. Ef við lítum nú á leiguíbúð sem kostar 7 millj. með 3,5% vöxtum þá erum við að tala þar um að afborganir og vextir, þ.e. greiðslubyrði af íbúð með 7 millj. kr. láni, sé um 24.000 kr. á mánuði. Ef við gerum ráð fyrir því að þetta sé 100% lán þá eru 6% af þeirri tölu yfir 40.000. Ég get því ekki séð annað en að þessi 3,5% flokkur fullnægi þeim kröfum sem hv. flutningsmenn gera ráð fyrir að ná með þessu frv., að kostnaður við leigugreiðslur verði ekki yfir 6% af stofnverði íbúðar.

Auðvitað fer þetta svo eftir vöxtum. Það eru ekki allir sem fá þessa vexti. En þessi 3,5% vaxtaflokkur er niðurgreiddur af ríkinu og 4,5% flokkurinn líka.

Það hefur verið ágætissamkomulag við lífeyrissjóði um það hvernig ætti að fjármagna þetta dæmi og í sjálfu sér er ekkert vandamál að fjármagna það. Síðan er spurningin hvað lífeyrissjóðirnir vilja yfirleitt koma mikið inn í þetta. Þegar lífeyrissjóðirnir komu inn í þetta átak þá kröfðust þeir t.d. þess að fá fyrsta veðrétt í öllum íbúðunum. Það var út af fyrir sig dálítið sérstakt að lífeyrissjóðirnir skyldu krefjast þess að fá fyrsta veðrétt þegar um er að ræða leiguíbúðir og ekki hægt að ætla annað en þarna séu allir jafnréttháir og kostnaður allur í lágmarki þannig að veðin sem slík væru ekki í neinni hættu. En látum það nú vera.

Ég lít svo á að átakið sem er í gangi sé að mestu leyti að metta þann leigumarkað sem er núna til og biðlista sem verið er að tala um að séu hérna inni. Það er verið að tala um biðlista síðan í apríl árið 2000. Ég get ekki séð annað en að verið sé að eyða þeim biðlistum mjög hratt. Nú er reyndar komið árið 2003 þannig að við getum ímyndað okkur að þessar 700 íbúðir sem voru í byggingu í fyrra og aðrar 700 á þessu ári muni fara langt í að eyða þeim og svo þeirri þörf sem hefur bæst við.

Herra forseti. Ég vildi aðeins koma þessu að vegna þess að ég tel nausðynlegt að í þessari umræðu sé því til skila haldið sem komið hefur verið af stað af hæstv. félmrh. og ríkisstjórn þó menn fagni því að sjálfsögðu þegar nýjar hugmyndir koma um það hvernig eigi að leysa þetta öðruvísi og ef þær tillögur eru betri geri ég fastlega ráð fyrir því að menn séu tilbúnir til að skoða þær í fullri alvöru.