Aðgangur landsmanna að GSM-farsímakerfinu

Þriðjudaginn 18. febrúar 2003, kl. 15:42:38 (3943)

2003-02-18 15:42:38# 128. lþ. 81.19 fundur 546. mál: #A aðgangur landsmanna að GSM-farsímakerfinu# þál., Flm. JB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 128. lþ.

[15:42]

Flm. (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um aðgang allra landsmanna að GSM-farsímakerfinu. Flutningsmenn auk mín eru hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson og hv. þm. Þuríður Backman.

Tillögugreinin hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að beita sér í krafti eignarhluta ríkisins í Landssíma Íslands fyrir því að fyrirtækið setji sér það markmið og hefjist þegar handa um að tryggja öllum landsmönnum aðgang að GSM-farsímakerfinu. Jafnframt felur Alþingi ráðherra að undirbúa og leggja fram frumvarp til breytinga á fjarskiptalögum þess efnis að GSM-farsímakerfið verði skilgreint sem öryggis- og neyðarkerfi í byggð og á aðalþjóðvegum landsins.``

Með þessari till. til þál. fylgir greinargerð sem ég ætla einnig að gera grein fyrir:

Þess er skemmst að minnast að að morgni jóladags á nýliðnu ári olli þrumuveður á Austfjörðum því að GSM-kerfi Landssímans á Fáskrúðsfirði datt út. Kerfið lá niðri til klukkan fjögur síðdegis. Sú kerfisbilun sem þarna varð hafði að sjálfsögðu óþægindi í för með sér og má hrósa happi að afleiðingar urðu ekki grafalvarlegar. Kerfið er notað til að kalla út lögreglu, slökkvilið og björgunarsveitir og því ljóst að illa hefði getað farið ef slys eða eldsvoða hefði borið að höndum. Nefna má fleiri hliðstæð dæmi úr flestum héruðum landsins.

[15:45]

Virðulegi forseti. Framangreint dæmi sýnir hversu mikilvægt það er að fjarskipti séu traust. GSM-kerfið hefur vaxið jafnt og þétt á undanförnum árum og almenningur sem og opinberir aðilar treysta á það í æ ríkari mæli. Nokkuð vantar þó upp á að kerfið nái til allra landsmanna. Þá er það algjörlega undir símrekanda komið hversu hratt brugðist er við bilunum í kerfinu en slíkt getur haft verulega þýðingu í öryggistilliti. Í því tilviki sem hér var nefnt og kom upp á Fáskrúðsfirði var það til að mynda gagnrýnt hversu seint Landssíminn brást við biluninni þótt ekki verði lagt mat á það hér hvort sú gagnrýni eigi við rök að styðjast.

Það er hins vegar alveg ljóst að samkeppnishæfni búsetu og atvinnulífs er mjög háð nútímafjarskiptum. Notkun GSM-farsíma hefur breiðst hratt út, einkum meðal ungs fólks og í viðskiptalífinu. Samkvæmt upplýsingum Póst- og fjarskiptastofnunar eru nú um 235 þús. GSM-farsímanúmer í notkun hér á landi. Það að svæði í byggð séu í GSM-símasambandi er í huga fjölmargra einn af mælikvörðum á það hvort nútíminn hafi haldið þar innreið sína. GSM-símasamband er afar mikilvægt fyrir eflingu ferðaþjónustu og viðskipta í hinum dreifðu byggðum landsins. Ferðafólk og vegfarendur vítt og breitt um landið treysta á að í byggð og á helstu þjóðvegum sé GSM-símasamband. Það er því gríðarlegt hagsmunamál fyrir atvinnulífið og alla íbúa þessa lands að eiga greiðan og öruggan aðgang að nútímafjarskiptum. Annað felur í sér hreina mismunun. Gagnvart svo mikilvægri almannaþjónustu sem GSM-símafjarskipti eru nú orðin eiga íbúar landsins alls að búa við jafnrétti óháð búsetu hvað varðar aðgengi að þessari þjónustu. Í þessu samhengi verður jafnframt að leggja áherslu á að ekki verði slegið slöku við í að efla gæði og öryggi annarrar fjarskiptaþjónustu, svo sem í almenna símkerfinu og NMT-farsímakerfinu.

Ljóst er að talsverður kostnaður fylgir því að tryggja öllum landsmönnum aðgang að GSM-kerfinu og því augljóst að víða verður það ekki rekið á viðskiptagrunni frekar en mörg önnur almannaþjónusta vítt og breitt um landið. Því er nauðsynlegt og eðlilegt að gera þá kröfu að ríkisvaldið tryggi öllum íbúum þjóðarinnar jafnt aðgengi að þessari þjónustu.

Unnt er að tryggja hámarksöryggi og útbreiðslu GSM-farsímakerfisins með ýmsum hætti. Nærtækast er einfaldlega að fela Landssíma Íslands, sem er að nær öllu leyti í eigu þjóðarinnar, að ráðast í verkefnið. Með því t.d. að lækka arðsemiskröfuna sem gerð er til fyrirtækisins má ná markmiðinu án þess að veita til þess fé úr ríkissjóði. Hvað varðar aðra hluthafa í félaginu þarf að vera tryggt að þeir eigi innlausnarrétt á hendur ríkinu á sínum hlutum.

Hugnist mönnum ekki sú leið sem að framan greinir má tryggja útbreiðslu kerfisins með alþjónustukvöðum en slíkar kvaðir falla að uppbyggingu þeirra fjarskiptalaga sem nú eru í gildi. Verði sú leið farin hlýtur að teljast eðlilegt að fela Landssímanum að sjá um að uppfylla slíkar kvaðir enda rekur fyrirtækið stærstan hluta þess fjarskiptakerfis sem fyrir er í landinu.

Skilgreining GSM-farsímakerfisins sem öryggis- og neyðarkerfis í fjarskiptalögum leiðir sjálfkrafa til þess að tryggja verður þjónustuna, annaðhvort með því að fela Landssímanum að sjá um hana eða með alþjónustukvöðum sem jafnframt yrðu að öllum líkindum lagðar á Landssímann.

Virðulegi forseti. Ég hef hér gert grein fyrir þessari þáltill. og grg. sem henni fylgir. Ég vil árétta að ekki liggur fyrir nein skilgreind áætlun um uppbyggingu á GSM-fjarskiptakerfinu í landinu. Í svari frá hæstv. samgrh. við fsp. frá Guðmundi Árna Stefánssyni fyrr í vetur sagði ráðherra, með leyfi forseta:

,,Landssími Íslands gefur ekki upp, frekar en hin fjarskiptafyrirtækin, neinar áætlanir um stórbætt skilyrði GSM-farsímanotenda enda nær dreifikerfið yfir það stóran hluta landsins að erfitt er að finna möguleika til stækkunar kerfisins sem líklegt er að skili fyrirtækinu fullnægjandi arðsemi, eins og sagði í svari fyrirtækisins.``

Það er því ljóst að það sem stendur hér í vegi fyrir frekari og hraðari útbreiðslu á GSM-farsímakerfinu er arðsemiskrafa Landsímans, arðsemiskrafan sem ríkisvaldið gerir á hendur Landssímanum til starfsemi sinnar til að fá af henni aukinn arð. Því er hér lagt til að arðsemiskröfuna megi lækka en jafnframt setja þessar alþjónustukvaðir eða kvaðir á Landssímann að byggja upp farsímakerfið.

Það kom einnig fram í umræðum um fjarskiptamál fyrr í vetur að NMT-farsímakerfið er í óvissu og framtíð þess, bæði hvað varðar þróun og endurnýjun.

Í viðtali við forstjóra Landssímans, Brynjólf Bjarnason, sem birtist sunnudaginn 12. janúar í Morgunblaðinu segir hann um NMT-kerfið þegar hann var spurður hvort verið sé að leggja það kerfi niður í öðrum löndum, með leyfi forseta:

,,Það er erfitt að svara því nú hvað NMT-kerfið lifir lengi. Síminn er með rekstrarleyfi til ársins 2007. Við eigum orðið í vanda með að fá ný NMT-símtæki og í haust auglýstum við í Finnlandi eftir notuðum tækjum. Framleiðsla á NMT-símum fer minnkandi. Það er ekki hægt að svara því nú hvað tekur við af NMT-kerfinu, hvort það verður örbylgja eða Tetra-kerfið.``

Þess vegna er alveg ljóst, herra forseti, að það verður að taka stefnumörkun varðandi þessi farsímakerfi. GSM-símkerfið hefur nú þegar náð gríðarlegri útbreiðslu, eins og ég hef hér rakið, og það liggur því beint við nú að gera það hluta af alþjónustukvöðum í þjónustu fjarskipta og vinna framkvæmdaáætlun sem miðar að því að GSM-farsímakerfið verði tiltækt í byggð og á aðalþjóðvegum landsins.

Herra forseti. Þetta er orðið svo inngreypt í þjóðarsálina má segja hvað varðar GSM-farsímakerfið að allir búast við því eða mjög stór hluti þjóðarinnar býst við því að hann eigi aðgang að því. Meira að segja neyðarkerfið býst við því.

Ég get sagt litla sögu. Norður á Ströndum þar sem ekki er GSM-farsímakerfi varð bílslys og var farið heim á næsta bæ til þess að tilkynna til Neyðarlínunnar að slys hefði orðið. Sá sem svaraði í Neyðarlínunni sagði: ,,Við viljum helst að það sé hringt úr GSM-síma, geturðu ekki hringt úr GSM-síma?`` --- ,,Ja, það er bara ekkert GSM-símasamband hér.`` --- ,,Já, en við viljum helst að það sé hringt úr GSM-síma því að þá getum við staðsett viðkomandi. Ef þú hringir úr svona venjulegan síma getum við ekki staðsett hann.``

Meira að segja í þessu neyðarkerfi sem er til að svara er svo fullkomlega gengið út frá því að GSM-símkerfið sé til staðar og ekki einu sinni þar átta menn sig alltaf á að svo er ekki.

Herra forseti. Meginrök fyrir þessari þáltill. eru þau að fjarskiptakerfi eins og GSM-kerfi skiptir miklu máli hvað varðar jafnrétti til búsetu og viðskipta hvar sem er á landinu. Þetta er einn mikilvægasti þátturinn í að styrkja og efla atvinnu- og viðskiptalíf um allt land og er jafnframt hluti af öryggis- og viðvörunarkerfi í byggð og á aðalþjóðvegum landsins.

Það vill svo vel til, herra forseti, að fyrir þinginu liggur tillaga, einnig frá okkur þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, um breiðbandsvæðingu landsins þar sem við leggjum áherslu á að að leggja breiðband um allt land og að Landssímanum verði einnig falið það verkefni. Það er þá hluti af þeirri sömu heild að tryggja öflugt og gott fjarskiptakerfi sem allir landsmenn eigi aðgang að.

Fyrir nokkrum dögum var mælt fyrir stjfrv. um breytingu á lögum um fjarskipti. Þær lagabreytingar eru nú í hv. samgn. til meðferðar og þar gefst einmitt tækifæri til að taka þetta mál, GSM-farsímakerfið, GSM-þjónustuna, inn í þau lög og gera þau að hluta af alþjónustuskyldu. Við setjum okkur það markmið að GSM-farsímaþjónusta standi innan skamms til boða og verði aðgengileg fyrir alla íbúa landsins í byggð og á aðalþjóðvegunum.

Virðulegi forseti. Ég legg svo til að að umræðu lokinni verði þessari tillögu vísað til hv. samgn.