Milliliðalaust lýðræði

Þriðjudaginn 18. febrúar 2003, kl. 16:05:48 (3945)

2003-02-18 16:05:48# 128. lþ. 81.20 fundur 577. mál: #A milliliðalaust lýðræði# þál., Flm. BjörgvS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 128. lþ.

[16:05]

Flm. (Björgvin G. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég mæli í annað sinn fyrir till. til þál. um milliliðalaust lýðræði. Flutningsmenn auk mín eru hv. alþingismenn Össur Skarphéðinsson, Einar Már Sigurðarson, Karl V. Matthíasson, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Guðrún Ögmundsdóttir og Gísli S. Einarsson.

Í tillögunni segir:

,,Alþingi ályktar að setja á stofn nefnd sem kanni möguleika á að þróa milliliðalaust lýðræði og kosti rafrænna aðferða við framkvæmd þess. Nefndin kanni einnig hvernig hægt er að nota netið til að þróa milliliðalaust lýðræði og hafi þar að leiðarljósi öfluga persónuvernd við framkvæmd kosninga og þjóðaratkvæðagreiðslna á netinu.

Nefndin skal skipuð fulltrúa Háskóla Íslands, Neytendasamtakanna, háskólaráðs Háskóla Íslands, Alþýðusambands Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga, stúdentaráðs Háskóla Íslands, Alþingis Íslendinga og fulltrúum allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi.

Nefndin kanni jafnframt hvaða áhrif milliliðalaust lýðræði hefði á samfélagið, efnahagslega, félagslega og stjórnmálalega, sérstaklega með tilliti til sveitarstjórna og sveitarfélaganna þar sem auðvelt og byltingarkennt gæti verið að nota milliliðalaust lýðræði í miklum mæli.`` --- Þ.e. að leiða ýmis af stærri álitamálum samfélagsins til lykta og skal þar vísað til umræðna og pólitískrar þróunar íbúalýðræðisins sem ég kem að síðar. --- ,,Nefndin skili greinargerð eigi síðar en eftir sex mánuði.``

Markmiðið með tillögunni er að þróa lýðræðið áfram í ljósi aukinnar menntunar og betri aðgangs að upplýsingum um hin ýmsu málefni heldur en var nokkurn tíma áður og því eðlilegt samkvæmt mati, áliti og skoðunum flutningsmanna þáltill. að íbúar komi mun meira að stjórnun sinna daglegu mála. Þær miklu breytingar sem orðið hafa á félagslegum og efnahagslegum aðstæðum á Vesturlöndum síðustu áratugi kalla á breytingar á lýðræðisfyrirkomulaginu. Almenn og góð menntun, mikil tölvueign, meiri frítími en nokkurn tíma áður kallar á að almenningur hafi miklu meira um hagi sína að segja en áður. Sá tími á að vera liðinn að fulltrúar almennings taki allar ákvarðanir og tímabært að færa valdið í ríkari mæli til fólksins. Fulltrúalýðræðið í óbreyttri mynd er að okkar mati fyrirbæri fortíðar og mikilvægt framfaramál fyrir almenning að milliliðalaust lýðræði verði eflt og það tekið upp hvort heldur er á sveitarstjórnarstiginu og kannski sérstaklega þar, þar sem það á mun betur heima en á landsmálavettvanginum og eðlilegt að þar leiði íbúar einstakra sveitarfélaga ýmis mál til lykta í gegnum íbúaþing og í sumum tilfellum verði gengið til beinnar atkvæðagreiðslu um viðkomandi mál. Slíkar tilraunir hafa verið gerðar á undanförnum árum í nokkrum sveitarfélögum, þ.e. hvað varðar íbúaþingin sjálf, og hefur það gefist mjög vel hvort heldur er í Garðabæ, Kjalarnesi, Reykjavík, sveitarfélaginu Árborg, þar sem til stendur að halda slíkt íbúaþing, og víðar og víðar. Þar á þetta milliliðalausa lýðræði langbest heima og miklu auðveldara og ódýrara að færa það þar í framkvæmd en á vettvangi landsstjórnmálanna þó svo að þar eigi það stundum við eins og ég kem að síðar í ræðu minni.

Brýnt er að hafa það að leiðarljósi við stefnumörkun um beint lýðræði að hlutverk sveitarfélaganna verður æ mikilvægara eftir því sem þau stækka og verkefnum þeirra fjölgar. Valddreifingunni frá ríki til sveitarfélaga á að fylgja aukið milliliðalaust lýðræði þar sem valdið er um leið fært frá Alþingi til nærþjónustunnar í sveitarfélögunum.

Það fyrirkomulag sem viðgengist hefur síðustu tvær aldirnar í formi fulltrúalýðræðisins hefur að mörgu leyti runnið sitt skeið þó svo að því fari fjarri að tími fulltrúalýðræðis sé á enda eða að fulltrúar eigi ekki að fara með lagasetningu og löggjafarvaldið í landinu, heldur erum við hér fyrst og fremst að leggja áherslu á að mikilvægt er að þróa beina og milliliðalausa lýðræðið áfram þannig að sum meginmál samfélagsins verði færð til beinnar atkvæðsgreiðslu atkvæðisbærra borgara Íslands. Alls ekki öll mál, og ég tel ekki, herra forseti, að það eigi að ganga svo langt sem gengið hefur verið í Sviss og í mörgum fylkjum Bandaríkjanna að óhófleg notkun á milliliðalausu og beinu lýðræði verði viðhaft því að það skaðar, veldur pólitískum leiða og fólk hættir að ganga til atkvæða þegar það er gert of oft. Það þarf því að velja sérstaklega vel málin sem farið er með í beina atkvæðagreiðslu og ígrunda það sérstaklega vel hvenær og hvernig það er gert.

Þessu máli til stuðnings vil ég, með leyfi forseta, vitna í ritstjórnargrein Morgunblaðsins frá því sunnudaginn 16. febr. sl. Morgunblaðið hefur um árabil beitt sér sérstaklega og með eftirtektarverðum hætti fyrir umræðu um milliliðalaust lýðræði. Blaðið hefur lagt þar ýmis þung lóð á vogarskálarnar og sérstaklega með útgáfu á sérstöku sérriti þar sem Morgunblaðið birti þýdda umfjöllun breska ritsins The Economist um beint lýðræði. Var þessi grein The Economist, þýðing og birting Morgunblaðsins, umræðunni um beint lýðræði til mikils framdráttar og hleypti lífi í hana og gaf okkur áhugamönnum um lýðræðisþróun og lýðræðisferli ýmis rök upp í hendurnar, bæði um kosti og galla beins lýðræðis og notkun netatkvæðagreiðslna við framkvæmd þess, eins og þeir geta sérstaklega um að hafi verið gert í prófkjörum demókrataflokksins í Arisóna með ágætum árangri og við nokkur önnur slík tilefni.

En í Morgunblaðinu segir, með leyfi forseta:

,,Þótt kjörnir fulltrúar séu mikilvægir þurfa þeir ekki að vera milliliðir í öllum málum og það mundi ekki draga úr mikilvægi þeirra, þótt ákvörðunum um einstök mál yrði vísað beint til fólksins.``

Undir þetta tek ég heils hugar og þetta er kjarni málsins.

Síðar í sömu grein segir, með leyfi forseta:

,,Ef komist yrði að niðurstöðu um ákveðin álitamál í almennum atkvæðagreiðslum, hvort sem er á sveitarstjórnarstigi eða í landsmálum, yrði það niðurstaða, sem fólk hlyti að sætta sig við. Lengra er ekki hægt að komast í lýðræðislegum stjórnarháttum en að fólkið sjálft taki ákvarðanir.

Það eru allar forsendur fyrir hendi til þess að gera þetta hér á Íslandi. Fámennið auðveldar okkur alla framkvæmd.``

Þarna dregur Morgunblaðið í ritstjórnargrein sinni fram kjarna þessa máls þó að á því séu að sjálfsögðu margar hliðar sem er vert að ræða á næstu vikum og missirum í þeirri umræðu sem nú á sér stað í samfélaginu um milliliðalaust lýðræði sem vaknar alltaf öðru hvoru.

Breytt hlutverk sveitarstjórna kallar á nýjar reglur við allar stórar ákvarðanatökur innan þeirra. Íbúalýðræði felur í sér ágæta lausn á því. Þar eru íbúar sveitarfélagsins kallaðir til leiks, fengnir til samráðs um lausnir og skipulag. Enginn veit betur en fólkið sjálft hverjar þarfirnar eru og hvernig íbúar hvers sveitarfélags vilja forgangsraða fjármunum þess í eigin þágu og annarra íbúa. Samráðsvettvangur íbúalýðræðisins felur það einnig sjálfkrafa í sér að deilur og átök minnka til muna og stjórnmálin verða heilbrigðari fyrir vikið. Samræður um sameiginleg mál í stað hatrammra deilna sem eiga sér jafnvel engan farveg nema þá á fjögurra ára fresti rétt fyrir kosningar.

Sveitarfélögin eiga að koma sér upp formlegum farvegi fyrir íbúana, íbúaþingi, um öll meginmál samfélagsins. Þannig stjórnum við með fólkinu og í þess þágu þar sem viðhorf þess og skoðanir eru hafðar til hliðsjónar allt ákvarðanatökuferlið.

[16:15]

Hlutverk sveitarstjórna hefur breyst verulega á síðustu missirum og tímabært að breyta einnig stjórnarháttum innan sveitarfélaganna. Verkefnunum hefur fjölgað mikið og samstarf þeirra við einkageirann hefur að sama skapi aukist í formi ýmiss konar þjónustusamninga. Á næstu árum er því fyrirsjáanlegt að þetta hlutverk breytist enn frekar eftir því sem valddreifing eykst í samfélaginu og fleiri hlutverk eru færð frá ríki til sveitarfélaga. Ákvarðanir á að taka sem allra næst fólkinu og með fólkinu. En til nánari upplýsinga um íbúalýðræði og kosti þess og galla vísa ég í frv. hv. alþm. Margrétar Frímannsdóttur um íbúalýðræði sem lagt var fram hér á haustdögum.

Hættan er sú að tíðar atkvæðagreiðslur, eins og ég gat um áðan, valdi því að fólk verði leitt á því að taka þátt í þeim, nenni ekki að ómaka sig á kjörstað oft og mörgum sinnum á ári. Lausnin á því liggur að hluta til í því að velja sérstaklega og af gaumgæfni og hófsemd þau mál sem farið er með fyrir íbúana til umræðu og atkvæðagreiðslu og ofgera ekki kostum beins og milliliðalauss lýðræðis eins og færa má sterk rök fyrir að gert hafi verið í Sviss og í ýmsum fylkjum Bandaríkjanna. Hættan er að það verði of daglegt brauð ef oft er gengið til atkvæða og fólkið nenni einfaldlega ekki að taka þátt, sérstaklega þar sem horft er til minnkandi kjörsóknar til þing- og sveitarstjórnarkosninga víða í rótgrónustu lýðræðisríkjum Vestur-Evrópu, ég tala ekki um í Bandaríkjunum.

Til að greiða atkvæði um mörg mál og kannski ekki síst innan sveitarfélaga verður hægt að notast við netkosningar í framtíðinni. En gæta skal þess að áfram verði viðhafðar hefðbundnar atkvæðagreiðslur til hliðar við netkosningarnar til að tryggja að allir, jafnvel það fólk sem er þjakað af fátækt, elli eða vegna annarra aðstæðna, geti tekið þátt í kosningunum en verði ekki utan veltu þar sem það hafi ekki aðgang að netinu. Tölur sýna að þátttaka fólks sem er fátækt og lítið menntað er minni en annarra í þjóðaratkvæðagreiðslum, sérstaklega í netatkvæðagreiðslum hvers konar. Skoða þarf sérstaklega hvernig tryggja eigi kjör og aðgengi tiltekinna minnihlutahópa að allri ákvarðanatöku í samfélaginu og að aðgengi þeirra og aðkoma versni ekki við aukna notkun á beinu og milliliðalausu lýðræði.

Meginviðfangsefni stjórnmálastarfsins er að komast að því hvaða lausnir flestir telja vera bestar og til mestra hagsbóta. Því er einfaldast að spyrja fólkið beint í stað þess að fela nokkrum fulltrúum þess viðfangsefni allra mála samfélagsins. Þá má benda á það og það vegur ekki hvað léttast að beint lýðræði upprætir óhófleg áhrif fjársterkra aðila í samfélaginu og á kjörna fulltrúa flokkanna, ekki síst þegar litið er til þess að víða á Íslandi er bókhald flokkanna lokað. Í þessu efni vísum við flm. í frv. hv. alþm. Jóhönnu Sigurðardóttur um fjárreiður flokkanna. Það er miklu erfiðara að hafa áhrif á kosningu heillar þjóðar eða heilu sveitarfélaganna og sýna rannsóknir bæði frá Bandaríkjunum og Sviss að áhrif fjársterkra hagsmunaaðila mega sín mun minna í þjóðaratkvæðagreiðslum en í almennum kosningum. Fjölmiðlar og borgarar landsins eiga skýlausa kröfu á að vita hvernig sá aðgangur er og því er hann svo miklu augljósari og svo miklu minni í beinu og milliliðalausu lýðræði.

Þegar litið er til framþróunar lýðræðisins er gagnlegt að vitna til orða Jóns Baldvins Hannibalssonar, sendiherra og fyrrum alþingismanns jafnaðarmanna. Með leyfi forseta, þá segir Jón í Morgunblaðinu 25. apríl 1997:

,,Íslendingar ættu að geta hugsað sér að verða tilraunastofa í frekari þróun lýðræðislegra stjórnarhátta vegna lýðræðishefðar okkar, menntunarstigs og fámennis þjóðarinnar sem ætti að auðvelda að láta tilraunina heppnast. Lýðræði okkar er í grundvallaratriðum vanburðugt og ófullkomið vegna þess að við höfum aldrei í lýðveldissögunni notið þeirra grundvallarmannréttinda sem felast í jöfnum atkvæðisrétti, einn maður eitt atkvæði, né heldur notið þess að geta ráðið persónuvali í kosningum. Af þessum sökum er vafalaust kominn tími til að endurmeta reynsluna og hugsa stærra. Hugmyndir um að nýta upplýsingatækni og miðlun í tilraunum með þjóðaratkvæðagreiðslur og beina þátttöku almennings, með minna vægi fulltrúalýðræðisins, eru fyllilega tímabærar og mjög áhugaverðar. Tilgangurinn er auðvitað að auka ábyrgð og sjálfsaga kjósenda, þeir yrðu að taka beina ábyrgð á afleiðingum gerða sinna með slíku vali. Það væri verið að styrkja þá sem stoð lýðræðisins sem byggist ekki aðeins á réttindum heldur líka skyldum.``