Milliliðalaust lýðræði

Þriðjudaginn 18. febrúar 2003, kl. 16:21:32 (3948)

2003-02-18 16:21:32# 128. lþ. 81.20 fundur 577. mál: #A milliliðalaust lýðræði# þál., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 128. lþ.

[16:21]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst það merkileg yfirlýsing hjá manni sem nú ætlar að bjóða sig fram til Alþingis fyrir Vestmannaeyinga og fyrir íbúa á Höfn í Hornafirði að telja að það sé vel staðið að því að greiða einungis atkvæði um það í Reykjavík hvar sá flugvöllur skuli staðsettur sem á að þjóna öllu landinu, líka landsbyggðinni.

Ég las það í ræðu sem fyrrverandi borgarstjóri flutti í Borgarnesi að hún kallaði þessa atkvæðagreiðslu allsherjaratkvæðagreiðslu. Mér þótti það vel valið orð með hliðsjón af því að það eru áreiðanlega fleiri Akureyringar, Egilsstaðabúar, Vestmannaeyingar, Ísfirðingar, íbúar á Höfn í Hornafirði, Skagfirðingar eða Grímseyingar sem fljúga um þennan flugvöll en Reykvíkingar. Þess vegna þótti mér merkilegt að taka sér í munn orðið allsherjaratkvæðagreiðsla í því sambandi.

Ég heyri, herra forseti, að þessi hv. þm. sem ætlar að bjóða sig fram fyrir Vestmannaeyinga og Austur-Skaftfellinga er mjög ánægður yfir því að þeir skuli ekkert hafa um það að segja hvort flugvöllur verði áfram rekinn í Reykjavík.