Milliliðalaust lýðræði

Þriðjudaginn 18. febrúar 2003, kl. 16:36:19 (3952)

2003-02-18 16:36:19# 128. lþ. 81.20 fundur 577. mál: #A milliliðalaust lýðræði# þál., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 128. lþ.

[16:36]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég fagna þeirri till. til þál. sem hér hefur verið mælt fyrir og fengið talsvert mikla umræðu í samfélaginu í fjölmiðlum og nánast hvarvetna verið tekið með jákvæðum hætti. Menn vilja feta þá slóð sem hér er mælt fyrir um hægt en þó örugglega, varlega og með yfirvegun, en þó markvisst. Hv. 3. þm. Suðurl. Björgvin G. Sigurðsson gerði í mjög ítarlegri og yfirgripsmikilli ræðu grein fyrir þeim kostum sem þessu fylgir og kjósendur og almenningur hefur í vaxandi mæli sýnt aukinn áhuga.

Við þekkjum það auðvitað frá gamalli tíð og ekki síst þeir sem hafa starfað í sveitarstjórnum að hinu beina og milliliðalausa lýðræði, þ.e. beinum kosningum um tiltekin mál var einkum og sér í lagi beint að, ja, sem við í seinni tíð getum kallað smámál. Það þótti öllum sjálfsagt að greiða atkvæði um það í heimabyggð hvort leyfa ætti hundahald eða banna og það þótti öllum líka mjög sjálfsagt að nota þetta beina lýðræði þegar menn voru að vega það og meta hvort ætti að opna áfengisverslanir á viðkomandi stað eður ei. Það var auðvitað allt gott og blessað, en vissulega var það þannig að margir söknuðu þess að þessu skyldi ekki beitt í ríkari mæli.

Það er því sérstaklega athygli vert þegar forustumaður Sjálfstfl. í þinginu og talsmaður flokksins í vaxandi mæli þegar kemur að því að fjalla um málefni landsbyggðarinnar, lítur á þessa tillögu um milliliðalaust lýðræði sem sérstaka árás á landsbyggðina. Satt að segja, herra forseti, er með ólíkindum hvernig hægt er að hafa endaskipti á hlutum. Það er með öðrum orðum orðin beinlínis árás á landsbyggðina að borgarstjórnin í Reykjavík tekur um það ákvarðanir með lýðræðislegum hætti vissulega gefa kjósendum í Reykjavík kost á að lýsa viðhorfum sínum til tiltekinna skipulagsmála, þá er það orðin beinlínis árás á sveitarstjórnir og fólk út um hinar dreifðari byggðir.

Þetta er auðvitað fjarri öllu lagi og en er í samræmi við viðbrögð Sjálfstfl. til þeirrar nýju stöðu sem við horfum framan í í íslenskum stjórnmálum þar sem jafnaðarmenn hafa í vaxandi mæli náð eyrum fólks og að því er virðist samkvæmt skoðanakönnunum stuðningi þess. Þá eru viðbrögð Sjálfstfl. auðvitað á þann veg sem ég hygg að hv. þm. og vafalaust og vonandi fleiri hafi heyrt hér og séð fyrir nokkrum mínútum þegar hv. þm. Halldór Blöndal fór hér mikinn og fann því allt til foráttu að gefa almenningi kost á því að lýsa viðhorfum sínum til mála í vaxandi mæli. Með öðrum orðum að tilgangurinn helgaði meðalið af því þetta kom frá hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni sem er fulltrúi okkar jafnaðarmanna hér á þinginu, þá hlyti þetta að vera slæmt, þá hlyti þetta að vera algerlega ómögulegt. Og af því að nafns Jóns Baldvins Hannibalssonar var getið í greinargerð með tillögunni, þá hlyti það líka að vera alslæmt. Að vísu fór hv. þm. hratt yfir sögu þegar kom að þætti Morgunblaðsins í máli þessu, því þess var getið hér með réttu að Morgunblaðið hefur verið mjög öflugur og ötull talsmaður þess að mæta vaxandi vilja og eftirspurn eftir þessu beina lýðræði. Öðruvísi mér áður brá að hv. þm. Halldór Blöndal, fyrrum blaðamaður á Morgunblaðinu, léti þess algerlega ógetið hvaða afstöðu Morgunblaðið hefði í þessu stóra máli, en kannski kemur hann hér á eftir og fer yfir afstöðu Morgunblaðsins og lætur okkur hv. þm. vita og aðra þá sem með fylgjast á hvaða villigötum Morgunblaðið er þegar það styður hið beina og milliliðalausa lýðræði sem er auðvitað ekkert annað en það að kalla eftir aukinni þátttöku fólks í umræðu og ákvarðanatöku um hin stóru mál.

Það var líka athygli vert að tilgangurinn helgaði meðalið hjá hv. þm. Halldóri Blöndal þegar hann með óbeinum hætti tók undir tillögu þingmanna Vinstri grænna um þjóðaratkvæðagreiðslu um Kárahnjúkavirkjun, það var sérstaklega athygli vert. Það á eftir að taka afstöðu til þess máls, en það var ekki annað að heyra en að hv. þm., 1. þm. Norðurl. e., ókrýndur forustumaður Sjálfstfl. í hinum dreifðari byggðum, oddviti stærsta kjördæmisins úti á landi, taldi það allrar athygli vert að ráðast nú í þjóðaratkvæðagreiðslu um Kárahnjúkavirkjun. Það er hins vegar önnur umræða sem við tökum. Kjarni málsins er sá að þessi tillaga snýst ekki um flugvöll, hún snýst ekki um hvort menn vilja hafa flugvöll í Vatnsmýrinni eða í Keflavík eða hvar sem er, hún snýst heldur ekki um hvort menn séu með eða á móti Kárahnjúkavirkjun, hún snýst hins vegar m.a. um það hvernig leiða má slík mál til lykta í næstu og lengri framtíð. Það er kjarni málsins. Og hún snýst ekki um hvort menn ætli að ganga til þeirra verka núna að gera landið allt að einu kjördæmi.

Hér er því hrært saman algjörlega óskyldum hlutum. En menn eru svo sem ýmsu vanir þegar kemur að ræðuhöldum þessa hv. þm., einkum og sér í lagi nú í seinni tíð, því hann virðist algerlega vera að missa sig vegna þeirrar veiku stöðu sem flokkur hans er kominn í.