Innflutningur dýra

Þriðjudaginn 18. febrúar 2003, kl. 16:46:31 (3954)

2003-02-18 16:46:31# 128. lþ. 81.22 fundur 249. mál: #A innflutningur dýra# (rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva) frv., Flm. ÞKG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 128. lþ.

[16:46]

Flm. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um innflutning dýra, nr. 54/1990, með síðari breytingum.

Flm. ásamt mér eru hv. þm. Hjálmar Árnason, Jónína Bjartmarz, Árni Ragnar Árnason, Gunnar Birgisson og Ásta Möller.

Ég vil benda hv. þingheimi á meginbreytinguna sem er falin í 2. mgr. 1. gr. en þar segir, með leyfi forseta:

,,Ef umsækjandi um rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðvar uppfyllir allar kröfur og skilyrði sem gerð eru til útbúnaðar og reksturs sóttvarna- og einangrunarstöðva samkvæmt lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim skal landbúnaðarráðherra gefa út rekstrarleyfi.``

Þarna er orðið ,,skal`` komið inn í stað heimildarákvæðis sem áður var.

Í greinargerðinni segir síðan, með leyfi forseta:

Frumvarp þetta var flutt á 127. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga og er nú lagt fram óbreytt. Frumvarpið var sent til umsagnar og þau svör sem bárust voru mjög jákvæð.

Með frumvarpi þessu er lagt til að einstaklingum, fyrirtækjum og félagasamtökum verði heimilt að starfrækja sóttvarna- og einangrunarstöðvar að uppfylltum þeim kröfum sem gerðar eru til útbúnaðar og reksturs slíkra stöðva. Ef umsækjandi um rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðvar uppfyllir allar kröfur --- allar kröfur --- og skilyrði sem gerð eru til útbúnaðar og reksturs sóttvarna- og einangrunarstöðva samkvæmt lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim skal landbúnaðarráðherra gefa út rekstrarleyfi. Samkvæmt gildandi lögum um innflutning dýra, nr. 54/1990, með síðari breytingum, er hins vegar einungis kveðið á um að landbúnaðarráðherra geti falið einstaklingum, fyrirtækjum og félagasamtökum rekstur stöðvanna. --- Eins og ég gat um áðan er heimildarákvæði í núgildandi lögum en þetta frv. felur í sér að ráðherra verði skyldaður til þess að veita þessum einstaklingum, fyrirtækjum eða félagasamtökum heimild til reksturs einangrunarstöðva ef þeir uppfylla öll skilyrði laganna.

Landbúnaðarráðuneytið stofnsetti sóttvarnastöð fyrir nautgripi í Hrísey árið 1973 og sá embætti yfirdýralæknis um rekstur hennar í umboði ráðuneytisins. Sóttvarnastöðin var leigð Landssambandi kúabænda l. janúar 1994 sem síðan hefur annast rekstur hennar undir eftirliti yfirdýralæknis. Árið 1993 var Svínaræktarfélagi Íslands heimilað að reisa sóttvarnastöð fyrir svín í Hrísey og hefur félagið sjálft annast rekstur stöðvarinnar undir eftirliti yfirdýralæknis. Árið 1990 stofnsetti landbúnaðarráðuneytið einangrunarstöð fyrir hunda, ketti og önnur gæludýr í Hrísey. Fyrstu árin annaðist embætti yfirdýralæknis rekstur stöðvarinnar í umboði ráðuneytisins en síðari ár hefur reksturinn verið í höndum einkaaðila undir eftirliti yfirdýralæknis samkvæmt sérstökum samningi. Mér skilst að síðan þetta frv. var lagt fram hér á þingi hafi staðið til að aftur yrðu breytingar á rekstrarforminu. Fram til þessa hefur verið unnið prýðilegt starf í Hrísey og þeir aðilar sem hafa rekið þetta hafa gert það með miklum sóma.

Á 126. löggjafarþingi var lögum um innflutning dýra breytt á þann hátt að ákvæði laganna voru aðlöguð þeirri framkvæmd á rekstri sóttvarna- og einangrunarstöðva sem komist hefur á, eins og rakið var hér að framan, og samkvæmt því getur landbúnaðarráðherra falið einstaklingum, fyrirtækjum eða félagasamtökum rekstur þeirra undir eftirliti yfirdýralæknis. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 175/2000 kemur m.a. fram að áhersla er lögð á að með þeirri breytingu væri á engan hátt slakað á kröfum um sóttvarnir sem gildandi lög kveða á um. Og það á ekki heldur við um þetta frv., síður en svo.

Að mati flutningsmanna er framangreind heimild ráðherra hins vegar of matskennd og tryggir ekki að aðilum sem eru í stakk búnir til að reka sóttvarna- og einangrunarstöðvar og uppfylla öll skilyrði laganna verði veitt rekstrarleyfi. Það segir m.a. í umsögnum sem komu frá landbrn. að ætlunin væri að koma fram með reglugerð sem mundi heimila fleiri aðilum en þeim í Hrísey að reka einangrunarstöðvar, þ.e. að víkka út þetta frelsi sem heimild landbrh. kvað á um í síðustu breytingum. Þessi reglugerð átti að koma síðasta haust en henni hefur einhverra hluta vegna seinkað og er enn ekki komin. Því skiptir miklu máli að ef þessi reglugerð birtist ekki innan tíðar frá ráðuneytinu afgreiði hv. landbn. þetta mál hið snarasta þannig að hægt verði að reka fleiri einangrunarstöðvar sem uppfylli þessi ströngu skilyrði laganna á öðrum stað en fyrir norðan. Því er hér lagt til að kveðið verði skýrt á um það í lögunum að ef umsækjendur um starfrækslu slíkra stöðva uppfylla þær kröfur og skilyrði sem lögin og reglur settar samkvæmt þeim setja skuli ráðherra veita rekstrarleyfi. Rétt er að leggja áherslu á að með frumvarpinu er á engan hátt slakað á þeim kröfum sem gera skal til þeirra sem reka sóttvarna- og einangrunarstöðvar. Hins vegar þykir eðlilegt út frá jafnræðissjónarmiðum að allir sitji við sama borð þegar kemur að rekstri framangreindra stöðva. Enn fremur má benda á sjónarmið um atvinnufrelsi, sbr. 75. gr. stjórnarskrárinnar þar sem fram kemur sú grundvallarregla að öllum sé frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa nema lög setji atvinnufrelsinu skorður sökum almannahagsmuna. Það hefur þegar sýnt sig í framkvæmd að einkaaðilum --- eins og þeim í Hrísey --- er fyllilega treystandi til að sjá um rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva og það sjónarmið hefur löggjafinn viðurkennt, sbr. lög nr. 175/2000. Því er með frumvarpinu lagt til að ráðherra skuli veita rekstrarleyfi að öllum skilyrðum uppfylltum í stað þess að honum sé það heimilt samkvæmt gildandi lögum.

Á þeim rúmu tveimur árum sem liðin eru frá því að þessi lög voru sett hefur ráðherra ekki nýtt heimildina til að setja þessa reglugerð og til að víkka út heimildina til að reka einangrunarstöð. Þá er í rauninni komið að, má segja, eftirlitshlutverki þingsins að ýta á ráðherra til að uppfylla þessa skyldu sína til að veita einstaklingum, m.a. á grundvelli jafnræðissjónarmiða, annars staðar á landinu en fyrir norðan heimild til að reka slíka stöð.

Ég undirstrika enn og aftur að þetta er að uppfylltum öllum þeim skilyrðum sem sett eru í löggjöfinni varðandi rekstur sóttvarnastöðva. Hægt er að benda á mýmörg dæmi frá Evrópu þar sem einangrunarstöðvar eru inni í borgum og á fleiri stöðum, bara svo lengi sem þær uppfylla skilyrðin sem viðkomandi lög setja. Ég hvet, herra forseti, þá sem eru í hv. landbn. til að veita þessu máli brautargengi og hið fyrsta ef þessi reglugerð sýnir sig ekki á borðum ráðherra.