Innflutningur dýra

Þriðjudaginn 18. febrúar 2003, kl. 17:08:01 (3960)

2003-02-18 17:08:01# 128. lþ. 81.22 fundur 249. mál: #A innflutningur dýra# (rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva) frv., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 128. lþ.

[17:08]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Örstutt um þetta frv. sem hér er fram komið.

Mér finnst gæta talsverðs misskilnings í framsetningu máls og hefði fundist heiðarlegast og eðlilegast að flutningsmenn hefðu hér sagt hið sanna í málinu og vísað til þess að fyrir réttum tveimur árum síðan var efnislega nákvæmlega samhljóða tillaga á ferðinni frá undirrituðum og hv. 9. þm. Reykn., Sigríði Jóhannesdóttur, þar sem tekin voru af öll tvímæli um að geðþótti landbrh. ætti ekki að ráða för í því hverjum væri heimilt að opna slíkar sóttvarnarstöðvar og hverjum ekki, og auðvitað var grundvallaratriðið alltaf að uppfylltu skilyrði. Heiðarlegast og eðlilegast hefði nú verið að framsögumaður máls og aðrir hv. þm. hefðu einfaldlega sagt: ,,Við höfðum rangt fyrir okkur. Þið höfðuð rétt fyrir ykkur. Við hefðum betur samþykkt ykkar tilögu hér fyrir tveimur árum síðan.``

Ég lét grafa það upp á skrifstofu þingsins, og það kemur auðvitað í ljós sem mig grunaði, að hv. framsögumaður, hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, studdi ekki það mál. Hún sat að vísu hjá og er það nú skárra en um aðra má segja sem eru með henni á þessari tillögu, flokkssystkini hennar á borð við hv. þm. Ástu Möller sem greiddi bókstaflega atkvæði gegn tillögu okkar. En hún er nú orðinn einn flutningsmanna málsins. Hv. þingmenn samstarfsflokksins í ríkisstjórn, hv. þm. Jónína Bjartmarz og hv. þm. Hjálmar Árnason greiddu atkvæði gegn málinu. Þau eru nú með málinu. Hv. þm. Árni R. Árnason var fjarstaddur. Ég held hann hafi nú haft leyfi frá þingstörfum á þeim tíma. Og hv. þm. Gunnar Birgisson, sem er nú félagi hv. þm. í Suðvesturkjördæmi, var heldur ekki viðstaddur.

Ég segi nú bara eins og er, herra forseti: Seint koma sumir en koma þó og komi þeir þá fagnandi. En mér hefði þótt eðlilegt að þeir væru þá menn að meiru og segðu hér eins og sjálfsagt væri: ,,Við sjáum eftir því að hafa ekki stutt þessi mál á sínum tíma. Við hefðum betur gert það.`` Auðvitað ber það keim af dálítilli sýndarmennsku, núna innan mánaðar fyrir þinglok, 80 dögum fyrir kosningar, að koma með málið vitandi að sennilega eru litlar sem engar líkur á því að hið háa Alþingi hafi tök og ráð til þess að afgreiða það úr nefnd og nota það síðan svona sem undanskot og undanhlaup að kannski megi nú svo fara að ráðherrann grípi til þeirra ráða sem núgildandi lög heimila honum og hann opni á rekstur fleiri aðila.

Þá spyr ég: Ef einhver von er til þess, hvers vegna þá þetta frumvarp? Í þessum málflutningi rekst því hvað á annars horn og ekkert gengur upp. Það er kjarni málsins.

Mest er um vert, herra forseti, að menn eru að koma hér til byggða þó seint sé. En þá finnst mér líka meiri mannsbragur að því að menn horfi framan í félaga sína á hinu háa Alþingi, aðra hv. þm. sem héldu þessum málflutningi mjög stíft og stöðugt fram og segja eins og er: ,,Þið höfðuð rétt fyrir ykkur. Já, við áttum að vera með ykkur í málinu fyrir tveimur árum síðan. Þá væri málum öðruvísi og betur komið.`` En hér er farin sú leið að reyna að stela glæpnum, gefa til kynna að hægt sé að bjarga málinu núna á síðustu dögum þingsins með því að gera betur. Það er ekkert mikill stæll á því, herra forseti. Og hvað ráðherra vildi og vildi ekki fyrir tveimur árum síðan, það var þó blindur maður og heyrnarlaus sem áttaði sig ekki á því að hæstv. landbrh., Guðni Ágústsson, hafði engan vilja til þess að opna á rekstur fleiri stöðva hér. Hann sagði það í hverri þingræðunni á fætur annarri og væri hægt að lesa upp úr því hér og fá það útskrifað.

Mér finnst það því dálítið billeg afsökun að menn hafi trúað hinu besta, en annað hafi komið í ljós og nú verði hið háa Alþingi að grípa í taumana.

Ef eitthvert sannleikskorn er í því að hv. þingmenn sem nú eru að flytja þetta mál vegna þess að ráðherrann hafi ekki skilað því sem hann gaf fyrirheit um kannski einhvers staðar annars staðar, utan þingsalar --- ég veit ekki um það. Ég veit ekki hvernig þessi kaup gerast á eyrinni innan ríkisstjórnarflokkanna --- en þá vil ég spyrja hv. þm.: Er hún að halda því fram að hæstv. landbrh. hafi gengið á bak orða sinna, hafi gefið fyrirheit um annað, hafi lofað stjórnarliðum öðru en raun ber vitni? Er hún með öðrum orðum að halda því fram að Guðni Ágústsson, hæstv. landbrh., hafi svikið gefin loforð? Er það það sem hv. þm. er að segja?

Málið er svona. Við skulum tala tæpitungulaust um það. Ég hef látið hér liggja á milli hluta efnisatriði máls því ég finn það og skynja að nú sem fyrr erum við hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sammála um efni máls. En hún var bara ekki til í slaginn fyrir tveimur árum síðan. Það er ekkert mjög stórmannlegt að laumast núna hér á síðustu dögum þingsins og ætla að bjarga sér fyrir horn og segja: ,,Ja, ég var í andanum alltaf mikill talsmaður málsins en hæstv. landbrh. plataði mig o.s.frv.``

Veruleikinn er þessi: Hv. þingmaður og aðrir stjórnarliðar felldu tillögu sem er nákvæmlega samhljóða þeirri tillögu sem þeir sjálfir eru að flytja núna. Það er kjarni málsins.