Innflutningur dýra

Þriðjudaginn 18. febrúar 2003, kl. 17:18:37 (3963)

2003-02-18 17:18:37# 128. lþ. 81.22 fundur 249. mál: #A innflutningur dýra# (rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva) frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 128. lþ.

[17:18]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég hef hugsað mér að stinga inn orði í þessa umræðu þó að ég hafi ekki sterkar meiningar á málinu. Engu að síður er frv. þess eðlis að það er fyllsta ástæða til þess að inna flm. eftir því hvernig beri að skilja einstök ákvæði frv. í ljósi laganna um innflutning dýra almennt.

Ég vek athygli á því að lögin eru þannig uppbyggð að það er meginatriðið að þeim sem hyggjast flytja inn dýr og erfðaefni er gert skylt að fara með dýrin eða efnið inn á sóttvarnastöð til að tryggja eins og hægt er að ekki berist hingað til landsins sjúkdómar og annað sem við viljum ekki að komi með innflutningnum. Það er nauðsynlegt að menn hafi í huga að þessi ferill er ákveðinn og ekki virðist vera ágreiningur um það, ef ég skil rétt málflutning framsögumanns þessa frv., að menn hafi þann hátt á að kveða skýrt á í lögum um skyldu til þess að fara svona með innflutning.

Í núgildandi 7. gr. laganna, sem hér er lagt til að verði breytt, er kveðið á um það að til þess að koma þessu á skuli starfrækja sóttvarna- og einangrunarstöðvar. Mér sýnist á flm. að þeir geri ekki ágreining um þetta þannig að þeir leggja til að áfram standi sú skylda að starfrækja þessar stöðvar. Breytingin er fólgin í því að flm. vilja tryggja það að hver sem uppfyllir tiltekin skilyrði geti starfrækt sóttvarna- og einangrunarstöð. Það er út af fyrir sig sjónarmið sem við þekkjum úr öðrum atvinnugreinum, að opna fyrir atvinnufrelsi, og er ekkert óeðlilegt við það. Praktískt séð, miðað við stöðuna hér á Íslandi, sýnist mér á þeim upplýsingum sem fyrir liggja að þess sé ekki að vænta að unnt verði að reka margar slíkar stöðvar. Innflutningurinn er ekki það umfangsmikill að líklegt sé að hægt verði að reka margar stöðvar sem keppi þá um viðskiptin sem hlýtur þó að vera. Menn hljóta að ætla sér að innleiða samkeppni í þessa atvinnugrein sem keppi um viðskiptavinina í þessu efni. Þá þurfum við auðvitað að hugsa málið til enda ef við ákveðum að stíga þetta skref, sem ég skal svo sem ekkert segja til um hvort ég tel rétt að stíga eða ekki. Ég áskil mér a.m.k. rétt til að kynna mér málið frekar hvað það varðar. En ef við stígum þetta skref getur komið upp sú staða, vegna samkeppninnar og dreifingarinnar á viðskiptunum, að það verði enginn einn aðili sem á einhverjum tíma treysti sér til að reka einangrunar- eða sóttvarnastöð. Hvað á þá að gera? Það er ekki hægt að skylda einkaaðila til að reka einhverja starfsemi sem þeir tapa á. Það þýðir væntanlega að landbrh. yrði gerður ábyrgur fyrir því og honum gert að tryggja að það væri einhver stöð í rekstri, gæti tekið við dýrunum og erfðaefninu. Hvað segja flm. þessa máls um það? Til hvers ætlast þeir? (SJóh: Allir farnir.)

Ég geri ráð fyrir því, herra forseti, að a.m.k. framsögumaður flm. sé hér til að hlýða á umræðu og svara fyrirspurnum um þetta efni.

(Forseti (HBl): Framsögumaður er ekki í húsinu og enginn flutningsmanna.)

Það þykir mér miður. Ég held að ég ljúki samt, herra forseti, máli mínu. Ég held, þó að segja mætti með réttu að eðlilegt væri að fresta umræðum þar til einhver flm. gæti verið viðstaddur til svara, að ég ljúki bara máli mínu og við sjáum svo hvað setur.

Mig langar að fá svör við því hvernig flm. hugsa sér að leysa úr þeirri stöðu sem þarna gæti komið upp ef enginn aðili treystir sér til að reka þessa stöð.

Í öðru lagi spyr ég vegna 3. mgr. 7. gr.: Úr því að flm. eru á þeirri skoðun að heimila eigi hverjum sem vill að reka þessa starfsemi sem uppfyllir tiltekin skilyrði, hvers vegna setja þeir í lagatextann að landbrh. eigi að setja gjaldskrá? Þar er nákvæmlega tíundað undir hvaða kostnaði gjaldskráin á að standa. Ef menn innleiða samkeppni í einhverja starfsemi geta þeir ekki samtímis lagt til að í lögum standi nákvæm fyrirmæli um gjaldskrána. Hvernig ætla menn að framfylgja samkeppninni við þessi skilyrði þegar sett er ekki bara gólf í gjaldskrána heldur virðist mér líka að sett sé þak í hana? Á hvaða sviðum á þá samkeppnin að fara fram, herra forseti, við þessar aðstæður sem hér er lagt til að verði teknar upp í atvinnugreininni? Mér leikur forvitni á að vita hvernig flm. hugsa sér þetta. Ég hefði haldið að ef menn vildu ganga þessa leið ættu ekki að vera nein ákvæði í lögum um gjaldskrána. Gjaldskráin væri bara einfaldlega frjáls.

Síðan er annað atriði sem ég vek athygli á og er nýtt, er ekki að finna í núgildandi 7. gr. laganna en flm. leggja til að verði tekið inn, og það er 2. mgr. í þessari grein sem hér er lagt til að komi í stað 7. gr. Hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Ef umsækjandi um rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðvar uppfyllir allar kröfur og skilyrði sem gerð eru til útbúnaðar og reksturs sóttvarna- og einangrunarstöðva samkvæmt lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim skal landbúnaðarráðherra gefa út rekstrarleyfi.``

Þetta finnst mér mjög sérstök lagaklásúla. Ef búið er að setja í ákvæði laganna að rekstur stöðva sé heimill einstaklingum, fyrirtækjum og félagasamtökum, eins og lagt er til á undan, og að landbrh. ákveði síðan hvaða faglegu kröfur eigi að setja, hvernig stendur þá á því að flm. setja viðbótarákvæði í frv. sem skyldar ráðherra til að gefa út rekstrarleyfi ef einhver uppfyllir öll skilyrði? Hvað er verið að gefa í skyn með þessu orðalagi? Er verið að gefa það í skyn að við þær aðstæður að menn hefðu fallist á það að rekstur þessara stöðva væri heimill þeim sem uppfylla tiltekin skilyrði mundi ráðherra neita að gefa út leyfi til þeirra sem uppfylltu skilyrðin? Það verður ekki annað ályktað, herra forseti, af þessu ákvæði sem ég las upp, en að það sé meining þeirra sem flytja málið að landbrh. muni ekki fara eftir lögunum. Ég hlýt að spyrja t.d. 1. flm. málsins sem hér mælti fyrir frv.: Hvað hefur flm. fyrir sér í þessum efnum, að leggja þetta til? Ég verð að segja að ég lýsi yfir mikilli undrun á þessu ákvæði. Þeir sem flytja þetta verða að færa rök fyrir því hvers vegna þeir leggja þetta til. Ég held að það sé einsdæmi að sjá svona klásúlu á þingskjali, herra forseti. Ég man ekki eftir því að hafa séð þetta í öðrum lögum, þar sem svipað fyrirkomulag er, og hér er lagt til um einhver almenn skilyrði sem menn þurfa að uppfylla til að fá leyfi til að vera með starfsemi, og að þar sé svo eitthvert sérstakt ákvæði að auki sem segi að ráðherra ,,skuli`` veita leyfi. Auðvitað mun landbrh., hver svo sem hann verður, verði þetta að lögum, hvort sem það er nú eða síðar --- ég treysti hverjum þeim sem verður landbrh., nú eða síðar, til þess að fara að lögum og veita starfsleyfi ef viðkomandi umsækjandi uppfyllir öll skilyrði. Ég tel þetta ákvæði vera þarflaust og ég tel að í því felist ákveðin móðgun í garð landbrh. Ég harma það að framsögumaður málsins skuli ekki hafa ákveðið að vera við umræðuna frekar.

Þetta eru þær athugasemdir, herra forseti, eða spurningar öllu heldur sem vöknuðu við það að lesa þennan texta. Ég hef ekki tekið afstöðu til málsins, og ítreka það, um hvort fara eigi þessa leið eða heimila þetta með þeim hætti sem þarna er lagt til. Ég bendi bara á að það getur fylgt því annmarki og menn þurfa þá að vera búnir að svara því hvernig eigi að leysa úr málinu ef svo muni verða einhvern tíma í framtíðinni að enginn aðili treysti sér til að reka slíka stöð vegna þess að samkeppnin gerir það ómögulegt. Þá verða að liggja fyrir alveg klár svör því að við getum ekki haft það í lausu lofti. Það verður að vera sóttvarna- og einangrunarstöð og það má aldrei verða neinn vafi á því að slík stöð sé fyrir hendi á hverjum tíma til að sinna þeim dýrum sem inn verða flutt í framtíðinni.

En mér sýnist, herra forseti, að þegar öllu er á botninn hvolft snúist málið um það hvort menn starfræki þessa stöð í Hrísey áfram eða hvort hún muni missa rekstrargrundvöll sinn og önnur stöð verða rekin á höfuðborgarsvæðinu. Það er það sem mér sýnist vera hinn efnislegi þráður málsins. Það má vel vera að það verði ofan á og ég mundi þá vilja fá upplýsingar um hvernig þetta er í dag, hvaða óþægindi fylgja því fyrir fólk að þessi stöð sé í Hrísey og hvaða kostnaður. Ég mundi vilja fá að skoða upplýsingar um það. Ég bendi á að flutningsleiðin til landsins er býsna löng frá útlöndum til Íslands þannig að sá leggur sem er innan lands frá flugvelli til Hríseyjar er kannski ekki stóri hlutinn af vegalengdinni og kannski ekki heldur stærsti hlutinn af kostnaðinum.

(Forseti (HBl): Óskar hv. þm. eftir því að þessari umræðu verði slegið á frest?)

Nei, nei.