Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 18. febrúar 2003, kl. 17:36:37 (3967)

2003-02-18 17:36:37# 128. lþ. 81.10 fundur 601. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (hlutabréfasjóðir) frv. 21/2003, fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 128. lþ.

[17:36]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, á þskj. 962.

Eins og rakið er í grg. með frv. þessu er það lagt fram í tengslum við frv. iðn.- og viðskrh. til laga um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, sbr. þskj. 859. Í frv., sem reyndar er einungis eitt bráðabirgðaákvæði, eru lagðar til nokkrar breytingar og taka þær til manna sem eiga hlutabréf í hlutabréfasjóðum sem er slitið. Breytingarnar hafa það markmið að almenningi verði unnt án skattalegra afleiðinga að færa fjármagn sitt úr hlutabréfasjóði yfir í verðbréfasjóð eða fjárfestingarsjóð sem tekur við verðbréfaeign hlutabréfasjóðsins þegar slíkum sjóði er slitið þar sem verðbréfasjóðum er gert að uppfylla ströng skilyrði til að fá starfsleyfi stjórnvalda á meðan hlutabréfasjóðir þurfa þess ekki. Að óbreyttum lögum mundu skattareglur í reynd standa því í vegi að markmið nefnds frv. viðskrh. er lúta að neytendavernd næðu fram að ganga. Það helgast fyrst og fremst af því að afhending á hlutdeildarskírteinum í stað hlutabréfa við slit á hlutabréfasjóðum yrði skattlögð sem tekjur hjá viðkomandi einstaklingi og væri því mikið óhagræði af því að þurfa að innleysa skattkvöðina áður en til raunverulegrar sölu eða innlausnar kæmi.

Í frv. er því kveðið á um að maður sem þannig fær afhent hlutdeildarskírteini þurfi ekki að gera upp hugsanlega skattkvöð á því tímamarki heldur greiðist þá fyrst fjármagnstekjuskattur af hlutdeildarskírteininu er hann innleysir eða selur það. Hér er því í reynd aðeins um skattfrestun að ræða. Þá er og kveðið á um að hafi maður fengið frádrátt vegna hlutabréfakaupa í félagi með sameiginlega fjárfestingu skuli ekki litið á það sem rof á eignarhaldi að hann fái hlutdeildarskírteini í stað hlutabréfanna. Einnig er í frv. kveðið á um að stofnverð hlutdeildarskírteinis skuli nema upphaflegu kaupverði bréfanna. Að síðustu skal nefna að við sölu eða innlausn á hlutdeildarskírteinum þannig til komnum hefur verið tekið tillit til sérstakra reglna í tekjuskattslögum um hlutabréf svo sem um frítekjumörk o.fl. og þær aðlagaðar að framangreindum hlutdeildarskírteinum.

Ég legg til, herra forseti, að að þessari umræðu lokinni verði frv. vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.