Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 18. febrúar 2003, kl. 17:42:36 (3969)

2003-02-18 17:42:36# 128. lþ. 81.11 fundur 610. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (lækkun gjalds) frv. 19/2003, ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 128. lþ.

[17:42]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Um leið og ég lýsi yfir stuðningi við það frv. sem hér liggur fyrir vil ég nota það tækifæri sem gefst við breytingar á aðflutningsgjöldum bifreiða að koma á framfæri máli, sem þó er óskylt því sem hér liggur fyrir í einstökum liðum frv., en það varðar aðflutningsgjöld á fornbílum. Ég vil koma þeim hugmyndum og tillögum á framfæri við þetta tilefni að aðflutningsgjöld af bifreiðum sem eru eldri en 40 ára verði felld niður. Ég vil leyfa mér, virðulegi forseti, að færa fyrir því nokkur rök.

Allt frá stofnun Fornbílaklúbbs Íslands fyrir 25 árum hafa aðflutningsgjöld hamlað innflutningi fornbíla til landsins og því hefur gengið erfiðlega að endurvekja bíla sem hafa menningarsögulegt gildi fyrir Íslendinga. Annars staðar á Norðurlöndunum hafa aðflutningsgjöld verið felld niður að öllu leyti af fornbílum sem eru 30 ára og eldri, óháð því hvaðan þeir eru fluttir inn. Sá liður sem hamlar hvað mest við núverandi aðflutningsgjöld hingað til lands er vörugjaldið sem er 45% af bílum sem hafa stærri vélar en 2.000 rúmsentímetra, en fullyrða má að 90% þeirra fornbíla sem fluttir eru til landsins falli undir þennan flokk.

Fornbílar sem fluttir eru til landsins eru fyrst og fremst notaðir sem safn- og sýningargripir í tengslum við Fornbílaklúbb Íslands en ekki sem brúksbílar, þ.e. bílar til almennrar notkunar. Aldur fornbíla í dag er miðaður við 25 ár en sá aldur er í sjálfu sér ekki hár fyrir vandaða bíla sem eflaust má nota áfram sem brúksbíla þó að þeir hafi náð þessum 25 ára aldri. Af þeim sökum er ekki óeðlilegt að miða niðurfellingu aðflutningsgjalds við 40 ár en þannig er algerlega tryggt, að ég tel, að einungis sé verið að flytja inn safn- og sýningargripi sem útilokað er að verði teknir til almennrar notkunar.

[17:45]

Í dag eru örfáir fornbílar fluttir árlega til Íslands og tekjur ríkissjóðs af þeim innflutningi er verulega takmarkaður. Ef vörugjaldið yrði algjörlega fellt niður má búast við nokkurri fjölgun slíkra bíla, enda vantar töluvert af eldri bílum í fornbílaflóru landsmanna. Á það sérstaklega við um bíla sem eru framleiddir á tímabilinu 1930--1950. Virðisaukaskattstekjur ríkissjóðs af fornbílum gætu þá jafnvel hækkað að einhverju leyti en samanlagðar tekjur af vörugjaldi og virðisauka eru í dag þar til samanburðar.

Fornbílaklúbbur Íslands undirbýr byggingu fornbílasafns í Reykjavík sem á að glæða áhuga þjóðarinnar á samgöngusögu hennar auk þess sem slíkt safn er gjaldeyrisskapandi einkum ef litið er til áhuga útlendinga á slíkum söfnum. Ef tryggt er að einstaklingar innan Fornbílaklúbbsins geti án verulegra útgjalda flutt inn bíla sem hafa menningarsögulegt gildi fyrir þjóðina er viðgangur slíks safns tryggður um nokkuð langa framtíð.

Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að koma þessum hugmyndum á framfæri við þetta tækifæri og bið um að þær hugmyndir og tillögur verði teknar til athugunar í nefndinni sem um málið mun fjalla. Ég geri það í sjálfu sér ekki að úrslitaefni í þessu sambandi hvort bílarnir eiga að vera 40 ára eða 45 ára. Það er ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er að hjálpa þeim sem við þetta fást að koma bílunum hingað til landsins.

Ég vil sömuleiðis bæta því við, virðulegi forseti, að þeir bílar sem koma til landsins og eru þetta gamlir eru yfirleitt í mjög bágu ástandi og þurfa verulegrar endurbyggingar við og viðgerða. Hér er því ekki um almennan bílainnflutning að ræða.