Tollalög

Þriðjudaginn 18. febrúar 2003, kl. 17:47:59 (3970)

2003-02-18 17:47:59# 128. lþ. 81.12 fundur 611. mál: #A tollalög# (aðaltollhöfn í Kópavogi) frv. 32/2003, fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 128. lþ.

[17:47]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir litlu frv. til laga um breyting á tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum. Frv. er á þskj. 974.

Í frv. er lagt til að Kópavogshöfn verði gerð að svokallaðri aðaltollhöfn þannig að skip í millilandasiglingum geti fengið þar fyrstu og síðustu tollafgreiðslu hér á landi án sérstaks leyfis tollyfirvalda. Á undanförnum árum hefur orðið töluverð uppbygging við höfnina og aðstaða skapast þar til afgreiðslu stórra skipa í millilandasiglingum.

Tollyfirvöld hafa látið fara fram úttekt á höfninni og er niðurstaða þeirrar úttektar að Kópavogshöfn fullnægi skilyrðum sem sett eru í tollalögum um aðstöðu í aðaltollhöfnum til tolleftirlits og um vörslu á ótollafgreiddum vörum. Því er engin ástæða til annars en sýslumaðurinn í Kópavogi geti með beinum hætti haft lagaheimildir til þess að afgreiða skip sem þarna leggjast að bryggju.

Ég legg til, herra forseti, að máli þessu verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.