Stjórnarskipunarlög

Þriðjudaginn 18. febrúar 2003, kl. 18:12:13 (3974)

2003-02-18 18:12:13# 128. lþ. 81.21 fundur 207. mál: #A stjórnarskipunarlög# (landið eitt kjördæmi) frv., Flm. GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 128. lþ.

[18:12]

Flm. (Guðmundur Árni Stefánsson) (andsvar):

Herra forseti. Þær athugasemdir sem hv. þm. gerði við ræðu mína eiga ekki við rök að styðjast. Ég ræddi það alveg sérstaklega hvort ástæða væri til að ætla að á því yrðu einhverjar grundvallarbreytingar hvernig einstaklingar skipuðust hér til verka og kjörnir yrðu til verka á hinu háa Alþingi, hvort þessi breyting mundi sjálfkrafa leiða til þess að hér yrðu þeir allir valdir frá suðvesturhorninu. Þvert á móti fór ég yfir það og reyndi að skjóta rökum undir þann málflutning minn að flokkarnir sjálfir mundu eðlilega gæta þess að sækja sér öfluga einstaklinga sem hafa staðarþekkingu vítt og breitt um landið. Ég veit að a.m.k. í mínum flokki yrði þannig staðið að verki, með öðrum orðum að áfram yrðu til staðar í þingflokki Samfylkingarinnar menn með staðarþekkingu á borð við hv. þm. Kristján Möller, Einar Má Sigurðarson, Jóhann Ársælsson, Karl V. Matthíasson svo ég nefni nokkra af handahófi sem eru öflugir og sterkir þingmenn dreifbýlisins og hafa mjög öfluga staðarþekkingu. Ég bara neita að gangast undir það að á þessu verði einhver grundvallarbreyting og mér finnst það segja meira um gagnrýnendur sjálfa ef þeir gefa sér það.

Í þessu samhengi er auðvitað afskaplega fróðlegt að velta því dálítið fyrir sér hver afstaða þeirra þingmanna og þeirra gagnrýnenda sem halda þessum málflutningi á lofti er til þeirrar kjördæmaskipunar sem við notum í dag og við kjósum eftir núna á vordögum. Halda þeir því fram að þær breytingar horfi einnig til þessa meinta verri vegar og að einasta leiðin til þess að viðhalda hinum meintu einstaklingum sem voru og hétu sé að ganga aftur til ársins 1959 og gera landið að fjölmörgum einmenningskjördæmum. Ber að skilja málflutning hv. þingmanns með þeim hætti?