Stjórnarskipunarlög

Þriðjudaginn 18. febrúar 2003, kl. 18:14:27 (3975)

2003-02-18 18:14:27# 128. lþ. 81.21 fundur 207. mál: #A stjórnarskipunarlög# (landið eitt kjördæmi) frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 128. lþ.

[18:14]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Í þessari lagagrein segir, með leyfi forseta:

,,Í lögum um kosningar til Alþingis skal kveðið á um úthlutun þingsæta og þess gætt að hver samtök fái þingmannatölu í samræmi við heildaratkvæðatölu sína.``

Hvað er nákvæmlega átt við með þessum orðum? Nú hefur þetta verið mismunandi á mismunandi stöðum. Ég man eftir því hver var afstaða Alþýðuflokksins t.d. þegar kosningalögum var breytt árið 1983. Þá vildu alþýðuflokksmenn ekki fallast á þessa svokölluðu d'Hondt-reglu sem hefur viðgengist, var tekin upp algjörlega síðast þegar kosningunum var breytt og við höfum yfirleitt notast við hér á landi. Þá var stefna Alþýðuflokksins að þeir vildu miða við hina stærstu leið. Nú veit ég ekki hvort Alþýðuflokkurinn hefur skipt um skoðun í þeim efnum en fróðlegt væri að fá að vita hvers vegna ekki er slegið föstu hér í þessari lagagrein hvaða aðferð skuli höfð í því sambandi.

Ég mun í ræðu minni á eftir að öðru leyti svara því sem hv. þm. sagði um það hvernig Alþýðuflokkurinn eða Samfylkingin hygðist velja sína menn úti á landi. Gaf hv. þm. í skyn að Samfylkingin mundi með einhverjum hætti tryggja að menn frá vissum landsvæðum yrðu fulltrúar á heildarlista þeirra á þessum og þessum tíma? Ég hygg að hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson geti ekkert um það fullyrt. Það er auðvitað út í hött að fullyrða slíka hluti hér, hvort sem í hlut á hv. þm. Karl V. Matthíasson sem ekki nýtur náðarinnar nú eða einhver annar.