Stjórnarskipunarlög

Þriðjudaginn 18. febrúar 2003, kl. 18:29:23 (3981)

2003-02-18 18:29:23# 128. lþ. 81.21 fundur 207. mál: #A stjórnarskipunarlög# (landið eitt kjördæmi) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 128. lþ.

[18:29]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel af og frá að þetta fyrirkomulag mundi veikja þingið. Það mundi hins vegar geta breytt eðli þess og það mundi kannski veikja þingmenn sem telja sitt helsta hlutverk að vera einhver framlenging á framkvæmdarvaldinu og standa í kjördæmapoti eða veseni vegna einstaklinga eða fyrirtækja í kjördæmi sínu.

Ég benti hins vegar á það áðan að auðvitað geta menn látið fara fram prófkjör og skoðanakannanir á sínum landsvæðum til að velja fulltrúa. Ég tel að það sé hlutverk flokkanna, ef landið verður gert að einu kjördæmi, að sjá til þess að fólkið hafi sem mest um það að segja á hverju svæði hver þeirra fulltrúi er. Ég tel ekki að menn séu að útiloka það með neinum hætti að inn í þessa kjördæmaskipan komi einhvers konar fyrirkomulag sem geri kjósendum kleift að hafa jafnvel einhvers konar áhrif á sjálfan kjördaginn. Það er einfaldlega ekki komin niðurstaða í það mál með þessu frv. Ég tel að það sé full ástæða til að ræða þau mál í hörgul ef menn velja þá leið að gera landið að einu kjördæmi.