Stjórnarskipunarlög

Þriðjudaginn 18. febrúar 2003, kl. 18:30:54 (3982)

2003-02-18 18:30:54# 128. lþ. 81.21 fundur 207. mál: #A stjórnarskipunarlög# (landið eitt kjördæmi) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 128. lþ.

[18:30]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jóhann Ársælsson nefndi það í þessari umræðu að það væri mjög mikilvægt að þróunin yrði sú að sveitarfélögin yrðu stór og öflug og fengju til sín fleiri mikilvæg verkefni, og að við fengjum óháðara Alþingi sem væri að fást við löggjöf.

Þessi tvö málefni setur Samfylkingin mjög í öndvegi og það er hárrétt hjá þingmanninum að við erum með þau vandamál, ef menn vilja einblína á það, sem mundu jafnframt fylgja ,,landið eitt kjördæmi`` í þeirri breyttu kjördæmaskipan sem við erum með en við erum ekki með kostina. Það er grundvallaratriði, við erum ekki með kostina en við erum þegar með vandamálin. Ég tel að mjög margir hafi fallist á þá breytingu sem nú er orðin á kjördæmaskipaninni af því að þeir litu á hana sem skref í átt að ,,landið eitt kjördæmi``.

Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson flutti hérna góða framsögu og dró fram meginatriðin, og meginkosti þess að landið yrði eitt kjördæmi. Ég er fullkomlega ósammála hv. þm. Halldóri Blöndal sem bar brigður á þau meginatriði sem sett eru fram á bls. 2. í grg. Það er að sjálfsögðu enn þá misvægi atkvæða sem verður ekki ef landið verður eitt kjördæmi. Það er hægt að nefna að það er helmingsmunur á vægi atkvæða í kjördæmunum okkar, annars vegar því kjördæmi sem við hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson erum í, Suðvesturkjördæmi, og hins vegar því kjördæmi sem hv. þm. Jóhann Ársælsson er í, Norðvesturkjördæmi, og ég gæti eins nefnt hæstv. sjútvrh. og samgrh. í því efni. Það er helmingsmunur á vægi atkvæða á milli þessara tveggja kjördæma.

Það er auðvitað í ríkari mæli þannig að þingmenn skoða verkin á þinginu með heildarhagsmuni að leiðarljósi en ekki þröng kjördæmasjónarmið. Við eigum að stefna þangað. Þess vegna er það hárrétt sem hérna hefur verið tekið fram.

Ég kvaddi mér þó hljóðs til að draga fram einn af þeim þáttum sem mjög margar konur nefna til sögu, og það eru jafnréttismálin, þ.e. með hvaða hætti ,,landið eitt kjördæmi`` og listar settir fram við slíkar kosningar birtist konum --- ég nefni konur, ég gæti sagt jafnrétti kynjanna og hvernig það birtist kynjunum en af því að það eru konur sem eiga undir högg að sækja og eru miklu færri en karlar á þingi snýr þetta að þeim. Auðvitað ætlum við að sækja fram þannig að sjálfsagt verði að konur verði með tíð og tíma helmingur þingmanna. Það er bara eðlilegt og sjálfsagt, hvort kynið um sig á að eiga helming fulltrúa á Alþingi Íslendinga þótt það geti eitthvað hreyfst til hvort það er einum eða tveimur fleiri á annan hvorn veginn við hinar og þessar kosningar. Þangað ætlum við að sækja. Það var mjög mikilvægur áfangi þegar konur náðu því að verða þriðjungur þingmanna.

Það er viðurkennt í öllum úttektum og rannsóknum um hvort það skipti máli að bæði kynin taki þátt í verkum sem þessum að það hefur veruleg áhrif á umræðuna, og vonandi vinnubrögð, þegar konur eða það kynið sem á undir högg að sækja nær 30% í hópi. Rannsóknir hafa staðfest þetta og þetta höfum við konurnar fundið líka hér eftir að konum fór að fjölga í þinginu og eftir að þær breytingar urðu í þingflokkum að kynin stóðu jafnara. Ég ætla að halda því fram að meðan kvennabaráttan stóð sem hæst á áttunda áratugnum hefðum við konur aldrei trúað því að ferðin sæktist svo seint, t.d. á þessum vettvangi, að við værum ekki komnar lengra í jafnréttismálunum og ekki orðnar fleiri á Alþingi Íslendinga en raun ber vitni --- þó að ég sé ánægð með það að við séum komnar þetta langt og komnar yfir þriðjunginn.

Ég hafði samt afskaplega gaman af því, virðulegi forseti, hvaða tökum hv. þm. Halldór Blöndal tók þessa umræðu, sérstaklega þessum athugasemdum hans um öðruvísi menn. Ég hlýt að taka það þannig að það verði öðruvísi menn þegar komnar verða miklu fleiri konur, það er alveg hárrétt. Hins vegar finnst mér það umhugsunarefni fyrir félaga hans í flokknum að hann skuli tala um öðruvísi menn og nafnleysingja úr Reykjavík vegna þess að mér finnst hann þar með veitast að sínum eigin hópi og þeim hópi karla sem nú mun sækja inn á Alþingi Íslendinga í kjölfar prófkjörsins í Reykjavík.

Ég hef líka gaman af því hvernig tökum hv. þm. Halldór Blöndal tekur þetta mál. Ég hef nefnilega svo oft tekið Sjálfstfl. sem dæmi. Ég hef tekið Sjálfstfl. sem dæmi um þær gífurlegu breytingar sem yrðu við að gera landið að einu kjördæmi. Þessi mál ber mjög oft á góma á jafnréttisráðstefnum og víðar þar sem verið er að tala um hvað skiptir máli fyrir konur, ekki síst konur í pólitík. Ég hef tekið dæmi af því að Sjálfstfl. stillti upp lista og efstu 26 væru þau sæti sem fólk mundi horfa á --- ég hef auðvitað hingað til notað töluna 26 af því að Sjálfstfl. hefur verið svo ótvírætt og óumdeilanlega stærstur að maður hefur ekkert gert sér það í hugarlund að mjög verulegar sveiflur yrðu á stærð þess þingflokks. En ég hef spurt: Telja menn að þessi flokkur mundi voga sér það, núna á 21. öldinni, að setja fram lista þar sem í 26 fyrstu sætunum væri ekki jafnræði milli kvenna og karla? Og ég hef tekið mér það bessaleyfi að svara því fyrir hönd Sjálfstfl. að vitanlega mundi hann ekki leyfa sér að setja fram lista 26 nafna --- ef kjósendur breyta ekki um sæti yrðu það þeir 26 sem mundu skipa þingflokk Sjálfstfl. --- með ójafnvægi kynjanna. Að sjálfsögðu mundu þeir setja um það bil 13 konur og 13 karla, og hvaða flokkur sem er, þó að ég hafi oftast tekið þennan flokk sem dæmi.

Og af hverju hef ég tekið þennan flokk sem dæmi? Jú, vegna þess að þar hefur sóst svo seint fyrir konur að breyta hlutföllum. Það er alveg ljóst að við það að landið verður eitt kjördæmi og þegar listinn verður settur upp verður gætt að hlutfalli kynjanna, það verður gætt að aldursskiptingunni, það verður skoðað úr hvaða starfsstéttum fólk kemur. Þá hlýt ég aftur að nefna þetta með nafnleysingjana úr Reykjavík, það hefur oft --- ég er ekki að segja það --- verið nefnt hvað það væri mikið lögfræðingager í Sjálfstfl. en ég set ekkert út á það. Ég tel engu að síður að það verði skoðað úr hvaða starfsstéttum fólk komi og frá hvaða landsvæðum. Og það er ekki lítið atriði, frá hvaða landsvæðum, virðulegi forseti.

Ef við ætlum að sækja fylgi til alls landsins hljótum við að bjóða upp á lista þar sem fólkið sér að við erum að huga að því að vera með fólk sem þekkir aðstæður í ólíkum kimum landsins. Og gleymum því ekki að það er ekki endilega þannig að þingmenn fyrrum Norðurl. e. eða Vestfjarðakjördæmis hafi endilega búið þar. Í mörgum tilfellum eru menn löngu fluttir að heiman, ef svo má segja. Þeir hafa samt haft víðtæka þekkingu á málum heima í héraði og þannig verður hver flokkur að huga að þegar hann ætlar að setja fram lista og sýna trúverðugleika með að hann ætli að bera hagsmuni landsins alls fyrir brjósti.

Menn hafa verið afskaplega bundnir þeirri hugsun að þingmenn fari heim í kjördæmi, fari heim í hérað til að hitta kjósendur, fari heim í kjördæmi til að fara í yfirreið. Þá verða menn líka að gera sér grein fyrir því að þetta er þegar mjög breytt. Fer einhver þingmaður, með leyfi forseta, heim á Ísafjörð til að fara um kjördæmið í Norðurl. v. eða í kjölfar einhvers fundar á Ísafirði að hitta menn í Borgarfirði eða til funda á Akranesi? Að sjálfsögðu ekki. Þetta er orðið gjörbreytt og það er alveg ljóst, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, að með þessari breytingu hefur það gerst að menn munu sækja út í kjördæmin í mjög ríkum mæli að sunnan, frá höfuðborginni, frá aðsetri Alþingis meðan á þingtíma stendur. Þannig hefur þróunin orðið og þannig er staðan orðin, í og með, að við höfum breytt kjördæmaskipaninni þannig að landsbyggðarkjördæmin eru orðin svona gífurlega stór.

Enn eitt var nefnt hér og það er þessi möguleiki að kjósendur geti flutt þingmann til og haft áhrif á röðun á lista. Ég er ekki alveg viss um það og viðurkenni alveg, hæstv. forseti, að ég er ekki alveg viss um að ég hafi skilið þessa athugasemd rétt. Ég skildi hana þannig að verið væri að loka á þá hugmynd að strika út eða raða listanum og hafa áhrif á það að einhver sem kannski er í fjórða sæti í núverandi kjördæmum fari upp í fyrsta eða annað eða þriðja. Ég sé hins vegar engan mun á því ef settur er fram heildarlisti þar sem búið er að taka tillit til þessara atriða sem ég hef nefnt og fleiri sem flokkarnir setja á oddinn að kjósendum sé boðið upp á það í kosningalögum að geta haft áhrif á röð þingmanna alveg til jafns við það sem gerist í smærri kjördæmum. Ég sé engan mun á því.

Virðulegi forseti. Af því að ég geri jafnréttismálin alveg sérstaklega að umtalsefni í þessari umræðu vil ég skjóta því inn að margar konur í öllum flokkum eru sannfærðar um að ,,landið eitt kjördæmi`` mundi hafa áhrif á stöðu þeirra og möguleika. Það hefur vakið athygli hvað karlar halda gífurlega fast í vígin sín og þetta kom sérstaklega fram í prófkjörinu í Reykjavík. Ég tók það sem dæmi þegar ungu mennirnir röðuðu sér í öll efstu sætin, efri sætin, og sterkar konur, sterkar sjálfstæðar konur, áttu eiginlega ekki möguleika. Ég er alveg sannfærð um að sumar þær öflugu konur sem hafa verið hér og komið inn á þing af og til og sýnt af sér mikinn kraft hefðu átt meiri möguleika ef flokkurinn hefði sett fram sína 26 efstu, eða 20 eða hvað það er nú sem menn munu miða við, þegar þeir fara að raða listanum sínum þegar landið verður orðið eitt kjördæmi.