Stjórnarskipunarlög

Þriðjudaginn 18. febrúar 2003, kl. 18:44:22 (3983)

2003-02-18 18:44:22# 128. lþ. 81.21 fundur 207. mál: #A stjórnarskipunarlög# (landið eitt kjördæmi) frv., HBl
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 128. lþ.

[18:44]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það mátti glöggt heyra á hv. síðasta ræðumanni, hv. 4. þm. Reykn., Rannveigu Guðmundsdóttur, að hún hafði ekki þrautrætt þá möguleika sem væru uppi í kjördæmamálinu þar sem hún kannaðist ekki við þá hugmynd að kjósendur gætu kosið fleiri en einn flokk. Þannig er það í sumum löndum, og er nauðsynlegt að víkja að því hér á eftir.

[18:45]

Í fyrsta lagi er það um kosningamálin að segja að það hefur blundað og vakað í mönnum að reyna að ná fram tvenns konar réttlæti. Annars vegar því réttlæti að stjórnmálaflokkar hefðu sem næst jafnmarga þingmenn og fylgi þeirra á landsvísu segir til um og það markmið náðist með kosningalagabreytingunni 1983 að ég hygg fullkomlega. Það má vera að einhvern tíma hafi skakkað einum þingmanni eða svo en það náðist nokkurn veginn á þeim tíma. Á hinn bóginn voru erfiðleikar fylgjandi því kerfi að tryggja að þingmenn í hverju kjördæmi fyrir sig væru í samræmi við fylgi viðkomandi flokks, aðallega vegna þess að kjördæmi voru mjög misstór sem olli því að jöfnuður innan kjördæmisins og á landsvísu gat ekki farið saman, enda fylgi flokkanna mjög misjafnt á misjöfnum stöðum á landinu. Má m.a. benda á þingmenn Alþfl. á Austurlandi í því sambandi og raunar mörg fleiri sláandi dæmi í því sambandi.

Með því kerfi sem nú hefur verið tekið upp, með því að fækka kjördæmum í sex, hefur það í fyrsta lagi náðst að kjördæmi eru nokkurn veginn jafnstór. Það er á hinn bóginn rétt sem hv. 6. þm. Reykn., Guðmundur Árni Stefánsson, sagði áðan, að íbúum hefur fækkað í Norðvesturkjördæmi, á Norðvesturlandi og leyndi sér ekki að hv. þingmanni fannst mikið óréttlæti að þar skuli nú kjörnir tíu þingmenn. Ég man að þegar kosningalögin voru rædd voru auðvitað vissir menn á Alþingi sem ekki undir neinum kringumstæðum gátu fellt sig við þá hugsun að þeir sem byggju á fjölmennustu stöðunum ættu e.t.v. að hafa eilítið færri þingmenn en atkvæðavægið segir til um. Þeir festu sig við að láta eingöngu tölustafina ráða, eingöngu hinn harða tölvuútreikning til að skipta þingsætum innan flokkanna.

Nú verður það að sjálfsögðu svo með því að landið verður eitt kjördæmi að engin trygging verður fyrir því að t.d. Norðlendingar fái þann þingmannafjölda sem þeim ber, ef maður horfir einungis á fjórðunginn og þá íbúa sem þar búa. Með sama hætti er ljóst að engin trygging er fyrir því að Vestfirðingar fái einn einasta þingmann eftir að landið er orðið eitt kjördæmi. Þá segja þeir þingmenn sem mest berjast fyrir því: Það skiptir ekki máli ef ranglætið er á þennan veginn. Það skiptir engu máli þó að Austfirðingar fái ekki jafnmarga þingmenn og fólksfjöldinn þar segir til um. Það skiptir ekki máli hvort Norðlendingar fái jafnmarga þingmenn og fólksfjöldinn þar segir til um. Þeir horfa ekki á málið frá sjónarmiði þess fólks sem býr í þeim byggðarlögum sem lengst eru frá Reykjavík, þar sem þessir þingmenn þekkja ekki til. Má kannski segja að það sé eðlilegt því að oft er það svo að menn eru kærulausir um það sem þeir ekki þekkja.

Á hinn bóginn get ég fullvissað þingmenn Samfylkingarinnar um að fólk úti á landi leggur upp úr því að hafa þingmenn sína og telur það sjálfsögð mannréttindi, þegnréttindi manna, að eiga kost á að kjósa sér þingmenn eftir eigin höfði. Það er af þeim sökum sem ekki aðeins hér á landi heldur líka í öðrum löndum víðast hvar --- ég ætla ekki að segja eins og sumir ,,alls staðar`` þó að ég þekki dæmi þess --- eru löndin með fleiri kjördæmi en eitt. Það er auðvitað einfalt í Bandaríkjunum, einfalt í Bretlandi, einfalt í Frakklandi og hvar sem er, að flokkarnir bara raði upp þingmönnum og síðan sé kosið í tölvunni eins og menn vilja hér sumir hverjir. En menn hafa í hinum stóru löndum mörgum hverjum talið rétt að láta eitthvað reyna á einstaklinginn í þessari stjórnmálabaráttu. Það hefur verið bent á að ákveðið ranglæti dafni í ljósi þess, hjá þeim mönnum sem þannig vilja líta á málið. En aðrir benda á að æskilegt sé að Alþingi sé skipað ólíkum einstaklingum frá ólíkum stöðum sem búi og starfi við ólík skilyrði.

Ég er þeirrar skoðunar að kosningafyrirkomulagið sem við höfum nú tekið upp muni á örskömmum tíma sannfæra þjóðina um að nauðsynlegt sé að skipta þessum kjördæmum upp og hafa kjördæmin jafnstór flest hver. Það hefur þegar verið tekin ákvörðun um að skipta Reykjavík upp í tvö kjördæmi. Það er ekkert því til fyrirstöðu að skipta Reykjavík þess vegna upp í jafnmörg kjördæmi og hér eru sóknir.

Hv. 6. þm. Reykn., Guðmundur Árni Stefánsson, gaf sér að ég teldi að skipta ætti landinu upp í einmenningskjördæmi. Því hef ég aldrei haldið fram á lífsleiðinni svo ég muni, nema þá kannski í menntaskóla. En á hinn bóginn hef ég verið veikur fyrir því að skipta landinu upp í tveggja og þriggja manna kjördæmi, kannski fjögurra manna þegar svo ber undir. Það hefur m.a. þann kost að þá er hægt að gefa einstaklingnum vald til að velja sjálfur þá einstaklinga sem hann vill sjá sem fulltrúa sína á Alþingi. Þetta er það kerfi, herra forseti, sem Írar hafa tekið upp hjá sér og ég veit ekki betur en að þar hafi það reynst mjög vel. Enginn vafi er á því að með þessu kerfi væri einstaklingurinn, hinn óbreytti kjósandi, í raunverulegri stöðu til að ákveða hvaða menn sem gefa kost á sér sitja á Alþingi, hvort þeir eru karlkyns eða kvenkyns, ungir eða gamlir. Menn gætu meira að segja tekið ákvörðun um að þeir væru úr fleiri en einum flokki.

Þegar slíkt kerfi er tekið upp kemur til álita að hluta um það, kasta teningi upp um það, í hvaða röð frambjóðendur hvers flokks skuli vera. Það má líka hugsa sér að þeim sé raðað upp í stafrófsröð eins og við nafnakall hér á Alþingi, hlutað um það hvaða nafn skuli standa efst. Loks er hægt að hugsa sér að flokkarnir geti ráðið í hvaða röð frambjóðendur eru, má í því efni vitna til þess að Alþfl. kaus á sínum tíma að raða upp landslista og láta þannig móðurflokkinn hafa áhrif á það en ekki kjósendur, að vissu marki, hvaða uppbótarmenn eða landskjörnir þingmenn sætu á Alþingi. Þetta var gert til að tryggja ákveðnum einstaklingum innan Alþfl. setu á Alþingi á sínum tíma og má auðvitað hugsa sér að þetta yrði tekið upp.

Hér hlýt ég að lýsa yfir andstöðu minni við þessar hugmyndir Samfylkingarinnar. Ég vil minna á, herra forseti, að þessi hugmynd, að gamli Alþfl. berjist fyrir því að landið sé eitt kjördæmi er ekki ný. Þetta er gamalt átakamál milli Sjálfstfl. og Alþfl. gamla. Það hafa helst, ekki eingöngu samt en að mestu leyti, verið fulltrúar gamla Alþfl. sem hafa tekið hér til máls sem er sérstakt í umræðum hér á hinu háa Alþingi. Yfirleitt eru þeir í minni hluta þegar þingmenn Samfylkingarinnar koma fram og áhrif þeirra minni en maður gæti kannski látið sér detta í hug ef maður horfði á stöðu Alþfl. þegar gengið var til samstarfs um Samfylkinguna. Væri fróðlegt, herra forseti, að gera nokkra úttekt á því hvernig áhrif hinna gömlu alþýðuflokksmanna hafa smám saman dvínað en vaxið hinna sem komu úr öðrum flokkum, einkum og sér í lagi Alþb. eða þeirra sem hafa horfið úr Alþfl. um skeið.

Um þetta stendur sem sagt ágreiningur minn og hv. þingmanna Samfylkingarinnar. Ég tel að breyta eigi kjördæmaskipan svo að kjósendur geti haft meiri áhrif á það en nú hverjir séu kjörnir og haft áhrif á það á kjördegi.

Það að tala um að þegar landið er eitt kjördæmi sé það nokkurn veginn tryggt að Vestfirðingar fái sinn mann, nokkurn veginn tryggt að einhver komi úr Múlasýslum og þar fram eftir götunum, er auðvitað sagt gegn betri vitund. Reyndir stjórnmálamenn vita að þetta stenst ekki. Reyndir stjórnmálamenn vita að þegar til þess stykkis kemur verða settar almennar reglur í flokkunum og auðvitað tekist á um hvaðan einstakir menn koma. Kannski má líka velta því upp hvort slíkt kosningakerfi sé ekki líklegt til að valda því að flokkar myndist um ákveðin svæði og þar fram eftir götunum. Ég skal ekki leiða getum að því en hitt er ljóst að ég mun seint greiða atkvæði með þingmálum sem auka flokksræðið, eins og þetta frv. hér sem byggir á flokksræði.

Það kom líka fram í ræðum einstakra þingmanna. Þeir hugsuðu sér alltaf að þessu yrði skipað og ráðið og nefndu nöfn í því sambandi, menn frá ákveðnum stöðum. Ég efast um, eins og ég sagði, að það muni standast en það er alveg ljóst að þetta mun auka flokksræðið.

Mér þótti líka, herra forseti, undarlegt að heyra hvernig hv. þm. tóku því þegar ég vakti athygli á að ekki mundi sams konar fólk veljast á Alþingi ef landið allt yrði eitt kjördæmi og t.d. með þeirri aðferð sem ég nefndi, að landinu yrði skipt upp kannski í 20 kjördæmi víðs vegar um landið og öll kjördæmin með álíka mörgum kjósendum enda færðust þá kjördæmamörk til eins og m.a. gerist í Englandi. Sú tilhögun hefur raunar lengi verið í umræðu um kjördæmamál hér á landi. Ég man eftir því að Bjarni Benediktsson varpaði því fram á sínum tíma í umræðum um þetta mál og margir fleiri hafa gert það. Enginn vafi er á að ef sú kjördæmaskipan yrði tekin upp mundu margir freista gæfunnar sem ekki hefðu hug á því, yrði landið miðað við eitt kjördæmi og öfugt. Auðvitað hefur það áhrif á mannvalið og hvernig þeir hugsa hvort þeir hafi starfað úti á landi eða ekki.

Ég man eftir því þegar ég kom fyrst hér sem blaðamaður 1961 að þá voru þeir þingmenn sem hér sátu allt öðruvísi mótaðir en við sem nú erum á Alþingi. Þá voru á þingi brautryðjendur í verkalýðsbaráttu, menn sem höfðu lifað lýðveldisstofnun og látið mjög mikið til sín taka í athafnalífi á viðkomandi stað, staðið í forustu fyrir bændasamtökum og þar fram eftir götunum. Einnig voru hér konur sem höfðu látið til sín taka.

Það var svolítið gaman að því sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir sagði, að ef landið yrði eitt kjördæmi þá mundi það tryggja að fleiri konur sætu á þingi. Mér finnst þetta nú ágæt fullyrðing en auðvitað út í bláinn í raun og veru. Kjarni málsins er að konur eru fleiri menntaðar en áður þegar ég var ungur maður. Ég tala nú ekki um þegar ég var að slíta barnsskónum. Þær eru að taka yfir á mörgum sviðum þjóðlífsins, framúrskarandi duglegar, vel menntaðar konur. Auðvitað mun sá dagur koma, hvernig sem kosningafyrirkomulag verður hér á landi, að þeim mun fjölga hér á Alþingi.

Hv. þm. nefndi sérstaklega Sjálfstfl. til sögunnar. Mér skildist að við hefðum staðið okkur illa. Ég get tekið undir það að því leyti að við getum alltaf sagt að þar eigi að ríkja fullt jafnræði. Hér á Alþingi er nú ríflega þriðjungur þingmanna konur. Í þingflokki Sjálfstfl. er ríflega þriðjungur konur. Við erum þar í meðaltalinu. En konum hefur mjög fjölgað á þingi hjá Sjálfstfl. Framan af hafði Sjálfstfl. þá sérstöðu að einu konurnar á Alþingi voru úr Sjálfstfl. og síðan kom Katrín Thoroddsen til sögunnar úr Sameiningarflokki alþýðu, Sósíalistaflokknum, og síðan Rannveig Þorsteinsdóttir úr Framsfl. Á hinn bóginn varð bið á því að alþýðuflokkskona sæist hér á þingi. Það var nú þannig.

Við getum sagt að í Norðurl. e., Norðausturkjördæmi sem verður, eru þingmenn þaðan úr Sjálfstfl. tvær konur og tveir karlar, hjá Framsfl. tveir karlar og ein kona, hjá Vinstri grænum tveir karlar og ein kona, hjá Samfylkingunni tveir karlar og ein kona, ef við tökum hv. þm. Kristján L. Möller með. En ég taldi þá þingmenn með sem hafa sótt þangað austur á bóginn, bæði hv. þm. Sigríði Ingvarsdóttur og Kristján L. Möller. Við getum haft það eins og við viljum.

En þetta er sem sagt kjarni málsins. Spurningin er: Viljum við að kjósendur geti haft bein áhrif á það hverjir veljast á þing á kjördegi? Viljum við auka möguleika kjósenda til þess að velja alþingismenn eða ekki?

Ég vil brjóta þessi kjördæmi upp og auka rétt kjósenda til valsins en Samfylkingin vill fara hina leiðina, gera landið að einu kjördæmi og draga í eitt skipti fyrir öll úr því að kjósendur geti haft bein áhrif á kjördegi um hverjir veljast á þing.