Stofnun framhaldsskóla á Snæfellsnesi

Miðvikudaginn 19. febrúar 2003, kl. 13:43:19 (3984)

2003-02-19 13:43:19# 128. lþ. 83.1 fundur 505. mál: #A stofnun framhaldsskóla á Snæfellsnesi# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi JB
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 128. lþ.

[13:43]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn minni um stofnun framhaldsskóla á Snæfellsnesi til hæstv. menntmrh. Eins og þingheimi er kunnugt hafa sveitarstjórnir Snæfellsbæjar, Grundarfjarðar, Helgafellssveitar og Stykkishólms á undanförnum árum unnið að hugmyndum um stofnun framhaldsskóla á Snæfellsnesi í samvinnu við menntmrn. Einhugur hefur verið meðal sveitarfélaganna um málið.

Við afgreiðslu fjárlaga á Alþingi í haust fluttum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs tillögur um að stofnun skólans yrði ákveðin í fjárlögum og veitt til þess skilgreind fjárveiting. Við þá umræðu gaf hæstv. menntmrh. svohljóðandi yfirlýsingu, með leyfi forseta:

,,Herra forseti. Ég hef ákveðið að leggja til fjármuni af ráðstöfunarfé menntmrn. til undirbúnings framhaldsskóla á Snæfellsnesi og ég hygg að heimamenn séu sáttir við þá lausn mála.``

Herra forseti. Sú fyrirspurn sem ég ber fram kom fram fyrir um þrem vikum en hún hljóðaði svo:

1. Hversu miklu fé hyggst ráðherra verja á þessu ári til stofnunar framhaldsskóla á Snæfellsnesi í samræmi við yfirlýsingu sem ráðherrann gaf á Alþingi við 2. umræðu fjárlaga í nóvember sl.?

2. Mun ráðherra tryggja að framhaldsskóli Snæfellinga á Snæfellsnesi taki til starfa haustið 2003 eins og að hefur verið stefnt?

Í byrjun febrúar var gefin út fréttatilkynning sem greindi frá því að samkomulag hefði tekist á milli menntmrh. og fulltrúa sveitarfélaganna á Snæfellsnesi um að hafinn verði undirbúningur að stofnun framhaldsskóla á norðanverðu nesinu. Eða eins og stendur í tilkynningunni, með leyfi forseta:

,,Gert er ráð fyrir að skólinn verði staðsettur í Grundarfirði. Lögð verður áhersla á að þessi nýi framhaldsskóli verði leiðandi í notkun upplýsingatækni og nýti sér m.a. kosti dreifnáms. Sérstaða hans verði að námið fari fram bæði staðbundið og í fjarnámi.``

Og áfram stendur í þessari fréttatilkynningu, með leyfi forseta:

,,... samkomulagið fela í sér að starfsmaður verði ráðinn á þessu ári til undirbúnings og stefnumótunar fyrir skólann.``

,,... ráðuneytið muni beita sér fyrir því að það fáist framlög til skólans á fjárlögum næsta árs.``

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari yfirlýsingu en leyfi mér þó áfram að spyrja og ítreka:

Hvenær verður þá gengið til formlegs undirritaðs samkomulags um stofnun skólans og ferill þess alls tímasettur þannig að tryggt verði að vinnan skili þeim árangri sem að er stefnt?

Í öðru lagi til viðbótar þeim spurningum sem hérna liggja fyrir: Hyggst ráðherrann nú þegar í ár, á næsta hausti, efla framhaldsdeildirnar í Stykkishólmi og í Ólafsvík til þess að undirbúa enn betur stofnun skólans?