Stofnun framhaldsskóla á Snæfellsnesi

Miðvikudaginn 19. febrúar 2003, kl. 13:56:21 (3993)

2003-02-19 13:56:21# 128. lþ. 83.1 fundur 505. mál: #A stofnun framhaldsskóla á Snæfellsnesi# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi JB
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 128. lþ.

[13:56]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka þessar umræður hér. Það er stefna okkar í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði að unglingar geti sótt nám heiman að frá sér, a.m.k. til 18 ára aldurs, og eitt meginafl til þess að færa heim í byggðirnar er að styrkja menntunina.

Ég óska sveitarfélögunum á Snæfellsnesi til hamingju með þennan áfanga. Það er á grundvelli vinnu þeirra sem þessi yfirlýsing hæstv. menntmrh. var gefin og er náttúrlega gott að hann skuli hafa gengist inn á þetta með þeim og sjálfsagt að fagna því.

Ég vil áfram hvetja til þess að nú verði lagt kapp á að endurvekja og styrkja bæði framhaldsdeildina í Stykkishólmi og framhaldsdeildina í Ólafsvík sem starfar ekki á yfirstandandi vetri, og kanna hvort ekki megi koma á, nú þegar í haust, öðru námsári við framhaldsdeildina í Stykkishólmi eins og hugur þeirra hefur gjarnan staðið til og farið hefur verið fram á. Allt slíkt mun styrkja undirbúning og stofnun þessa skóla þannig að hann geti farið í gang með sem mestu afli þegar haustið 2004, eins og hérna hefur verið gefin yfirlýsing um.

Þá vil ég og hvetja til þess að gengið verði frá skriflegu samkomulagi um ferilinn í stofnun skólans og lýsingu á starfi þess manns sem á að ráða nú til þess að koma starfinu á legg.

Herra forseti. Ég óska Snæfellingum til hamingju með þennan áfanga og vonast til að þetta reynist þeim mikið gæfuspor. Ég fagna undirtektum og ákvörðun menntmrh. og reyndar treysti honum til að fylgja þessu máli af fullu afli eftir þannig að allar áætlanir um þetta hagsmunamál standist.