Stofnun framhaldsskóla í Mosfellsbæ

Miðvikudaginn 19. febrúar 2003, kl. 14:06:24 (3998)

2003-02-19 14:06:24# 128. lþ. 83.2 fundur 524. mál: #A stofnun framhaldsskóla í Mosfellsbæ# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., PBj
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 128. lþ.

[14:06]

Pétur Bjarnason:

Virðulegi forseti. Ég vil minna á það sama og ég sagði áðan að almennar kröfur gera ráð fyrir því að framhaldsskólanám sé öllum tækt innan seilingar. Og ég vænti þess að þátttaka Mosfellsbæjar í Borgarholtsskóla sé frekar áfangi heldur en útilokun frá því að geta með vaxandi stærð bæjarins tekið þátt í því sem þar á að fara fram.

Ég tók eftir að hæstv. forseti hnaut um orðið Mosfellsbær og sagði Mosfellssveit. Það er e.t.v. vegna þess að við unnum saman þar fyrir rúmum 20 árum, hét þá Mosfellssveit og það segir nokkuð um málið. Nú heitir þetta Mosfellsbær og af þeim nemendatölum sem nefndar voru áðan má sjá að nemendur hafa tvöfaldast á þessum 20 árum. Sú þróun heldur áfram og hlýtur að styðja það að þessi mál verði til athugunar og endurskoðunar á þessum tíma, svoleiðis að mér sýnist allt benda til þess að heldur fyrr en síðar muni það verða að veruleika að framhaldsskóli, sá sjálfsagði áfangi í menntun, komi í Mosfellsbæ.