Stofnun framhaldsskóla í Mosfellsbæ

Miðvikudaginn 19. febrúar 2003, kl. 14:10:51 (4001)

2003-02-19 14:10:51# 128. lþ. 83.2 fundur 524. mál: #A stofnun framhaldsskóla í Mosfellsbæ# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 128. lþ.

[14:10]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Rétt er að árétta það að þegar hér er tekið fram að ekki hafi komið ósk frá Mosfellsbæ um að þar verði byggður framhaldsskóli þá þýðir það ekki að Mosfellsbær sé með einhverjum hætti útilokaður frá umræðunni um þetta, því fer víðs fjarri. Við munum að sjálfsögðu taka því mjög vel ef sveitarstjórnin vill ræða við menntmrn. um framkvæmdir í framhaldsskólamálum, þá verður því tekið ljúfmannlega og það verður skoðað enda er það sjálfsagður hlutur. Eftir því sem byggðarlögin stækka þá vex þörfin fyrir framkvæmdir á sviði framhaldsskóla.

Það er líka rétt að endurtaka það sem ég sagði í fyrra máli mínu að það er horft heildstætt á þetta mál á höfuðborgarsvæðinu. Að frumkvæði menntmrn. hafa farið fram viðræður einmitt til þess að taka heildstætt á þessu máli þar sem hér eru mörg sveitarfélög sem eiga hlut að máli.

Ég vil hins vegar gjalda nokkurn varhuga við því að tala um það hér í þessu sambandi að brottfall úr framhaldsskólum byggist að einhverju leyti á því að aðgangur að framhaldsnámi sé lélegri hér á landi en annars staðar. Þetta stenst ekki skoðun, þetta stenst engan veginn athugun, því að Íslendingar hafa gengið lengra í því en nokkur önnur þjóð í Evrópu að bjóða sínu unga fólki upp á framhaldsnám. Við höfum gengið lengra en nokkur önnur þjóð í Evrópu að bjóða upp á aðgang að námi í fámennum sveitarfélögum og dreifðri byggð. Og þetta hefur verið viðurkennt í umræðum í þessum sal að við höfum gengið lengra í þá veru en aðrar þjóðir og m.a. með fjarnámi og með því að halda uppi starfsemi lítilla framhaldsskóla.

Við skulum því ekki tengja þetta tvennt saman, þá erum við að skekkja umræðuna og náum ekki árangri. Það er bottfall í íslenskum skólum og það er alvarlegt viðfangsefni sem við eigum að glíma við. Við eigum ekki að glíma við það á þessum forsendum því að þær eru ekki réttar.