Sérhæfing fjölbrautaskóla

Miðvikudaginn 19. febrúar 2003, kl. 14:13:05 (4002)

2003-02-19 14:13:05# 128. lþ. 83.3 fundur 533. mál: #A sérhæfing fjölbrautaskóla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 128. lþ.

[14:13]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég beini þeirri spurningu til hæstv. menntmrh. hvort áætlanir séu uppi um að byggja upp sérhæfðar deildir starfs- og iðnnáms við fjölbrautaskóla landsins sem tengjast sérstaklega atvinnuháttum viðkomandi svæða, svo sem matvælaiðnaði við Fjölbrautaskóla Suðurlands, sérhæfðum sjávarútvegsiðnaði við fjölbrautaskólann í Austur-Skaftafellssýslu og svona mætti lengi telja um aðra fjölbrautaskóla víða um land.

Besta byggðastefnan hefur sýnt sig vera öflugt nám í heimabyggð sem gerir hvort tveggja í senn að efla menntun og atgervi og hleypa nýju lífi í atvinnulífið. Fjölbrautaskólar á borð við þá sem byggðir hafa verið upp á Höfn í Hornafirði, Selfossi og Sauðárkróki, svo dæmi séu tekin, hafa gjörbreytt viðkomandi byggðum til hins betra. Unga fólkið er lengur heima og líklegra til að koma aftur að framhaldsnámi loknu og ílengjast í heimabyggð sinni og slá þar niður tjöldum sínum til frambúðar.

Í þessu samhengi má nefna, herra forseti, að á fundi Samfylkingarinnar með sveitarstjórnarmönnum á Höfn í Hornafiðri fyrir tveimur árum, kom í ljós og þeir lögðu fast að við okkur að mikilvægasta byggðamálið hvað varðaði uppbyggingu og það að halda íbúunum í heimabyggð væru ekki auknar veiðiheimildir, svo dæmi væri tekið, að þeirra mati, heldur fyrst og fremst öflug menntun þar sem byggt væri á sérhæfingu og sérstöðu byggðanna og þeim atvinnuháttum sem þar væru stundaðir. Það væri skólunum og byggðum landsins mjög til framdráttar að byggja upp öflugar starfsnámsdeildir við skólana sem tengdust sérstaklega atvinnuháttum þeirra byggða sem skólinn er staðsettur í, enda er þar að finna ómetanlega sérþekkingu sem auðvelt er að virkja við uppbygginguna og kennsluna á síðari stigum í náminu við deildir skólans. Um leið er verið að skjóta traustum stoðum undir atvinnulífið í héraði, auka þar þekkingu, sérhæfingu og hæfni hvers konar til að byggja upp þróttmikið atvinnulíf til framtíðar.

Því er það áríðandi að frumkvæði og fjármunir komi frá ríkisvaldinu að mínu mati, herra forseti, og spyr ég því hæstv. ráðherra þeirrar spurningar sem ég nefndi hér áðan, hvort áætlanir séu uppi um að byggja upp sérhæfðar deildir starfs- og iðnnáms við fjölbrautaskóla landsins, sem tengjast atvinnuháttum viðkomandi byggða sem áður eru nefndar.