Sementsverksmiðjan hf.

Miðvikudaginn 19. febrúar 2003, kl. 14:44:55 (4015)

2003-02-19 14:44:55# 128. lþ. 83.5 fundur 554. mál: #A Sementsverksmiðjan hf# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 128. lþ.

[14:44]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Sementsverksmiðjan sendi Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, bréf dagsett 30. okt. 2001, þar sem kvartað var yfir meintu broti Aalborg Portland á 54. gr. EES-samningsins.

[14:45]

Svarbréf frá ESA barst fyrirtækinu skömmu fyrir síðustu jól. Þá voru liðnir rúmlega 13 mánuðir frá því að Sementsverksmiðjan hf. hafði sent inn kvörtun til stofnunarinnar. Samkvæmt bréfinu er það mat ESA að Aalborg Portland Ísland sé ekki með markaðsráðandi stöðu á Íslandi. Það er niðurstaða ESA að Aalborg Portland sé ekki að selja sement til Íslands undir breytilegum kostnaði fyrirtækisins, en það væri ólöglegt.

Út frá því sjónarhorni er komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé verið að brjóta 54. gr. EES-samningsins. Taka skal fram að hér er ekki um endanlegan úrskurð að ræða heldur er um að ræða fyrsta fasa af þremur í úrvinnslu Eftirlitsstofnunarinnar á málinu.

Forráðamenn Sementsverksmiðjunnar hf. eru ósáttir við þennan úrskurð og telja að ESA hafi ekki svarað þeirri spurningu sem lögð var fyrir hana af hálfu fyrirtækisins um það hvort verðlagning á sementi hjá Aalborg Portland Ísland sé eðlileg eða ekki. Því er fyrirtækið nú að senda svarbréf til ESA þar sem farið er fram á að stofnunin vinni áfram í málinu og fylgir með bréfinu ítarlegur rökstuðningur.

Á fjárlögum þessa árs er heimild skv. 7. gr. laganna að ríkið kaupi eignir Sementsverksmiðjunnar hf. að Sævarhöfða 31. Eignirnar eru verðmetnar á 250--300 millj. kr. Um er að ræða fasteignir og lóðarsamning. Sementsverksmiðjan hf. hefur óskað eftir viðræðum við fjmrn. um sölu eignanna og eru þær viðræður í gangi. Gera má ráð fyrir að niðurstaða fáist í málinu á næstu vikum og að gengið verði frá kaupum ríkisins á eignunum á Sævarhöfða mjög fljótlega.

Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum hefur rekstur Sementsverksmiðjunnar hf. verið afar þungur á síðustu tveimur árum, bæði vegna þeirrar hörðu samkeppni sem ríkir á markaði en einnig vegna þess að verulegur samdráttur hefur verið í notkun á sementi á síðasta ári eða allt að 35%. Af þeirri ástæðu er framleiðslustöðvun hjá fyrirtækinu nú sem stendur og verður ekki gangsett fyrr en seinni hluta febrúarmánaðar. Stjórnendur fyrirtækisins hafa lagt áherslu á að hagræða í rekstri og hefur umtalsverður árangur náðst. Haldið verður áfram á þeirri braut. Ljóst er að engar töfralausnir eru til í stöðunni. Mikilvægt er að niðurstaða fáist sem allra fyrst hjá ESA í málefnum Sementsverksmiðjunnar.

Þá er þess að geta að verið er að skoða ýmsa möguleika í sambandi við framtíð verksmiðjunnar sem ekki er ástæða til að tíunda núna en þegar mótaðar hafa verið tillögur um lausn mála munu þær eflaust koma til umfjöllunar á hv. Alþingi.