Sementsverksmiðjan hf.

Miðvikudaginn 19. febrúar 2003, kl. 14:48:19 (4016)

2003-02-19 14:48:19# 128. lþ. 83.5 fundur 554. mál: #A Sementsverksmiðjan hf# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 128. lþ.

[14:48]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Tíminn er nú að renna mjög hratt úr stundaglasi Sementsverksmiðjunnar og mér finnst vanta dálítið upp á það að stjórnvöld tali skýrt í málinu. Ég held að það hefði verið betra ef það hefði legið fyrir fyrr að það væri meining stjórnvalda að sjá til þess að áframhaldandi rekstur eða, til vara, áframhaldandi framboð á sementi kæmi frá þessu fyrirtæki inn í framtíðina þannig að þeir sem eru komnir inn í þessa samkeppni, inn á markaðinn vissu að þeir gætu ekki bolað þessum keppinauti út af markaðnum heldur yrðu þeir að horfast í augu við framtíð þar sem þeir væru að keppa við hann, hvort sem framleiðsla sements heldur áfram eður ekki.

Það skortir fleira á heldur en þetta vegna þess að það er alveg ljóst að ríkið mun ekki geta átt þetta fyrirtæki í framtíðinni. Það þarf að fá aðra eignaraðila að fyrirtækinu því að ríkið getur ekki staðið í samkeppnisrekstri á þeim markaði sem hér er um að ræða. Þetta er verkefni ríkisvaldsins og því hefur ekki verið sinnt.