Sementsverksmiðjan hf.

Miðvikudaginn 19. febrúar 2003, kl. 14:51:00 (4018)

2003-02-19 14:51:00# 128. lþ. 83.5 fundur 554. mál: #A Sementsverksmiðjan hf# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 128. lþ.

[14:51]

Fyrirspyrjandi (Árni Steinar Jóhannsson):

Virðulegi forseti. Svör hæstv. iðnrh. voru ánægjuleg að því leyti til hvað varðar fyrsta liðinn um samkeppnisstöðu verksmiðjunnar að hún er ekki talin einokandi eða einráð á markaði.

En svör við öðrum liðnum valda vonbrigðum um hvað gengur hægt að ganga frá sölu eigna og styrkja stöðu verksmiðjunnar með þeim peningum sem út úr því koma. Það hlýtur að vera forgangsverkefni að ganga í þau mál og koma þeim í gegn.

Einnig vekja vonbrigði svörin við þriðja lið, þ.e. hver verði næstu skref iðnrn. í málefnum verksmiðjunnar. Hæstv. ráðherra segir að engar töfralausnir séu til. En í raun er hugmyndin um að gera verksmiðjuna að stórum þátttakanda í eyðingu orkuríkra úrgangsefna gríðarlega spennandi lausn fyrir verksmiðjuna. Aðrar verksmiðjur hafa styrkt sinn rekstur, verksmiðjur sem þessi verksmiðja er að keppa við, einmitt á þeim grunni. Til þess að verksmiðjunni gagnist þessi vinna sem er verið að fara í þá þarf að fara í þessi mál núna. Engan tíma má missa.

Sú grunnhugmynd með að verksmiðjan e.t.v. breyti um form að einhverju leyti og verði liður í spilliefnaförgun okkar er gríðarlega stórt mál fyrir landið allt vegna þess að ef við gerum þetta ekki á þessum nótum, með þátttöku verksmiðjunnar í þessu dæmi, þá þurfum við að reisa aðrar förgunarverksmiðjur sem munu verða ríkisvaldinu ákaflega dýr lausn. Þannig standa málin í dag.

Þess vegna eru það vonbrigði að hæstv. iðnrh. skuli ekki treysta sér til þess að koma með einhverjar hugmyndir um hvernig ráðuneytið mun vinna að styrkingu stöðu þessarar verksmiðju sem er gríðarlega mikilvæg fyrir Akranes. Hún er hundrað manna vinnustaður.