Skelfiskveiðar og ástand lífríkis í Breiðafirði

Miðvikudaginn 19. febrúar 2003, kl. 15:09:14 (4026)

2003-02-19 15:09:14# 128. lþ. 83.7 fundur 555. mál: #A skelfiskveiðar og ástand lífríkis í Breiðafirði# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 128. lþ.

[15:09]

Fyrirspyrjandi (Árni Steinar Jóhannsson):

Virðulegi forseti. Ég sé ástæðu til þess að setja fram fyrirspurn til hæstv. sjútvrh. varðandi skelfiskveiðar og ástand lífríkis í Breiðafirði. Fyrirspurnin er í tveimur liðum.

Í fyrsta lagi: Hvað hefur ráðherra gert eða hyggst gera varðandi rannsóknir á lífríki Breiðafjarðar í ljósi þess að mjög hefur dregið úr skelfiskveiðum á svæðinu?

Það eru allir sammála um það heima fyrir, sem ég hef rætt við, að auknar rannsóknir séu nauðsyn, menn viti allt of lítið um lífríkið. Það hefur t.d. vantað neðansjávarmyndavélar hjá Hafrannsóknastofnun til að hægt væri að fylgjast nægilega vel með. Það er nauðsynlegt að fram komi hjá hæstv. ráðherra hvað hann hyggist gera til að auka rannsóknir þannig að þekking manna á ástandi svæðisins aukist.

Í öðru lagi, sem er ekki síður mikilvægt, er spurningin: Hefur ráðherra áform um að bregðast við vanda þeirra fiskvinnslufyrirtækja á svæðinu sem hafa reitt sig á skelfiskvinnslu?

Þetta er gríðarlegt hagsmunamál, sérstaklega fyrir Stykkishólm, sem hefur veitt og unnið u.þ.b. 80% skelinni úr Breiðafirði, en líka Grundarfjörð sem hefur reitt sig gríðarlega á þessa afurð, sá afli nemur um 20%.

Nú er verið að veiða u.þ.b. helming af því sem áður veiddist. Að jafnaði hafa verið veidd um 8.000--8.500 tonn á ári en veiðin er nú komið niður í 4.000 tonn. Menn eru efins um að sá afli náist. Menn hafa jafnvel talað um nauðsyn á því, út frá þeirri vísindalegu þekkingu sem nú er til staðar, að setja á veiðistopp sem gæti varað allt frá tveimur og upp í fjögur ár. Þetta er gríðarlegt högg fyrir þau fyrirtæki sem hafa stundað skelfiskvinnslu og reitt sig á hana, sérstaklega í Stykkishólmi. Hvað verðmæti varðar er þetta fyrir annað fyrirtækið þar rétt um 1.700 þorskígildistonn.

Það er mjög mikilvægt fyrir landið, ef við sjáum fram á bata hvað varðar vöxt og viðgang þessarar afurðar, að við höldum við þeirri kunnáttu sem er til staðar í Stykkishólmi og Grundarfirði varðandi veiði og vinnslu á þessari afurð.

Þess vegna er mikilvægt að hæstv. sjútvrh. greini þinginu frá því hvernig hann sjái fyrir sér að hægt verði að brúa það bil fyrir þessi fyrirtæki, 2--4 ár þó menn viti ekki hve lengi það kann að vara, þannig að þau geti starfað áfram og viðhaldið kunnáttu sinni í von um að úr rætist innan fjögurra ára hvað varðar veiðar á þessari afurð. Þarna eru gríðarleg útflutningsverðmæti. Við megum ekki tapa niður kunnáttunni. Þess vegna eru svör hæstv. ráðherra afar mikilvæg fyrir landið allt og þá náttúrlega sérstaklega fyrir þessi byggðarlög, Stykkishólm og Grundarfjörð, sem hafa reitt sig mjög á þessa vinnslu.