Þjónusta við aðstandendur ungra fíkniefnaneytenda

Miðvikudaginn 19. febrúar 2003, kl. 15:37:10 (4037)

2003-02-19 15:37:10# 128. lþ. 83.8 fundur 560. mál: #A þjónusta við aðstandendur ungra fíkniefnaneytenda# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 128. lþ.

[15:37]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Fyrst vil ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessu mikla vandamáli sem hér er um að ræða og ekki er auðvelt viðfangs. Það er rétt að barna- og unglingageðdeildin sinnir risavöxnum verkefnum og þarf að styðja hana til þess að hún geti sinnt þeim sem allra best. Einnig er nauðsynlegt að koma vel á framfæri þeim úrræðum sem fyrir hendi eru og m.a. hefur áfengis- og vímuvarnaráð gefið út aðgengilega auglýsingu um öll þau úrræði sem eru fyrir hendi, þ.e. hvar ráðgjafarúrræði er hægt að finna.

Ég tek undir það að nauðsynlegt er að Fjölskyldumiðstöðin hafi traustan starfsgrundvöll og einboðið er að þeir sem að henni standa athugi það að sjá henni fyrir þeim grundvelli til starfa, því hún hefur, eins og fram kemur í þessum tölum sem ég hef farið með, unnið ákaflega gott starf.

Framlög ráðuneytanna til Fjölskyldumiðstöðvar eru sótt í forvarnasjóð. Þar starfar einn félagsráðgjafi í fullu starfi. Aðrir fagmenntaðir ráðgjafar frá Landspítala starfa einnig í tengslum við hana. Hún hefur einnig aðgang að ráðgjöf fagfólks vegna samnings við Félagsþjónustuna í Reykjavík.

Einnig hefur Vímulaus æska unnið mikilvægt starf. Ég tel farsælt að renna stoðum undir starfsemi þessara stofnana, auk þess sem barna- og unglingageðdeildin þarf vissulega að hafa góðan starfsgrundvöll.