Geðheilbrigðisþjónusta fyrir börn og unglinga

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 10:42:22 (4046)

2003-02-26 10:42:22# 128. lþ. 84.91 fundur 442#B geðheilbrigðisþjónusta fyrir börn og unglinga# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[10:42]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er því miður ljóst að ástandið í geðheilbrigðismálum barna og unglinga er langt frá því að vera viðunandi. Það er reyndar einnig talsverð bið eftir langtímameðferðarúrræðum, langtímavistun fyrir unga fíkniefnaneytendur. Ég hef reyndar spurt hæstv. félmrh., og hér var dreift á borðin áðan fyrirspurn til hans um þá hlið mála. Verst er staða þeirra ungmenna sem eiga við hvorn tveggja vandann að stríða, geðræn vandamál, þunglyndi eða annað af þeim toga, og hafa jafnframt ánetjast fíkniefnum. Þau eru gjarnan á gráu svæði milli úrræða sem heyra undir félmrn. annars vegar og heilbrrn. hins vegar.

Ég hef, eins og hér hefur reyndar komið fram, lagt fram fyrirspurn til hæstv. heilbrrh. um tiltekin atriði þessa máls. Það er ástandið á barna- og unglingageðdeildinni og hversu mikil brögð séu að því að börn og unglingar séu vistuð á geðdeildum fyrir fullorðna. En það er auðvitað til marks um alvöru málsins að til þess neyðarúrræðis er gripið trekk í trekk, að vista ungmenni inni á lokuðum geðdeildum fyrir fullorðna þar sem þau eiga að sjálfsögðu alls ekki heima. Einnig hef ég spurst fyrir, herra forseti, um ástand mála hvað varðar fyrirhugaða uppbyggingu geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og ungmenni við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri en þar hafa legið fyrir áætlanir um úrræði sem alls ekki hafa komist til framkvæmda.

Félmn. hefur einnig tekið þessi mál með vissum hætti upp og verið að kynna sér ástandið. Ég tel að það væri, herra forseti, í ljósi alvöru málsins æskilegt að félmn. og heilbrn. færu sameiginlega yfir þetta. Þarna er um að ræða skörun á málaflokki sem heyrir að hluta til undir báðar nefndirnar og markmiðið að sjálfsögðu, herra forseti, með því að hreyfa við þessum málum og vinna að þeim er að knýja á um úrbætur. Það er það sem máli skiptir hér.