Geðheilbrigðisþjónusta fyrir börn og unglinga

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 10:46:50 (4048)

2003-02-26 10:46:50# 128. lþ. 84.91 fundur 442#B geðheilbrigðisþjónusta fyrir börn og unglinga# (aths. um störf þingsins), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[10:46]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst taka fram að ég hef ekki á móti umræðu um þetta mál eða að þingnefndir taki það fyrir. Við munum að sjálfsögðu kappkosta að gera grein fyrir þróun þessara mála.

Hitt vil ég undirstrika að það er víðs fjarri að ekkert hafi verið aðhafst í þessum málum í fimm ár. Það hafa ekki verið framkvæmdar allar þær tillögur sem eru í hinni miklu skýrslu en það er ljóst að unnið hefur verið að því í fimm ár að mæta mjög vaxandi þörf á þessu sviði. Upp er komið vandamál með innlagnir sem við verðum að taka á og við einsetjum okkur að gera það. Þjónustan hefur ekki minnkað, hún hefur verið aukin á göngudeildinni og aukin hjá sjálfstætt starfandi barnageðlæknum. Við bættum þar við verulegum fjármunum á síðasta ári og erum að skoða framhald á því núna einmitt um þessar mundir.

Það er ekki skortur á starfsfólki á BUGL, þar er vel mannað, mjög vel mannað núna. En það er skortur á plássum fyrir innlagnir, það er rétt, þannig að það er vandamál sem við verðum að snúa okkur að og finna lausnir á. Ég hef gert ráðstafanir til þess að ræða við einstaklinga sem hafa orðið fyrir barðinu á þessu og fara rækilega ofan í saumana á því hvort það fólk hefur notið allra þeirra úrræða sem kerfið hefur upp á að bjóða og hvort tryggingakerfið hefur komið til móts við þetta fólk. Það er þörf á að skoða það og ég hef gert ráðstafanir til þess strax í dag að ræða við það fólk sem hefur orðið fyrir óþægindum og orðið fyrir barðinu á því ástandi núna sem hefur skapast undanfarið. Ég vonast því svo sannarlega til að við finnum lausnir á þessu erfiða og alvarlega máli. En ég er að sjálfsögðu tilbúinn að gefa allar upplýsingar og ræða það hvenær sem vera skal hér í Alþingi.

(Forseti (HBl): Ég vil ítreka það að biðja hv. þingmenn að gæta tímamarka.)